Sigríður Hagalín BjörnsdóttirEyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur er hugvitsamlega byggð og ágeng bók. Sagan spinnst áfram eftir tveimur aðskildum þráðum sem fléttast saman undir lokin. Meginhlutinn gerist í íslensku samfélagi og mestmegnis í Reykjavík. Þeir hlutar eru skráðir í lágstemmdum, málefnalegum frásagnarstíl. Inn á milli er skotið köflum sem gerast á eyðibýli í afskekktum firði. Þar er frásögnin í fyrstu persónu eintölu og stíllinn rammari, nær frumstæðu lífi og átökum við náttúruna. Sögumaður hefur enda snúið baki við því samfélagi eða öllu heldur þeirri samfélagslegu upplausn sem ræður ríkjum á landinu. Innan um og samanvið er svo fréttatexti líkt og úrklippur úr Mogganum. Aðalsögupersónan er líka blaðamaður og höfundurinn landsþekktur fréttamaður.
Eyland
Benedikt bókaútgáfa, 2016
Aðstæðurnar sem lýst er felast í að landið er einangrað og sambandslaust við útlönd. Enginn veit í raun hvort heimsbyggðin utan landsteinanna er enn á sínum stað eða hvort Íslendingar eru orðnir einir í heiminum. Flugvélar og skip Gæslunnar eru vissulega send í könnunarleiðangra en enginn snýr aftur úr slíkri ferð. Óvissan er því alger.
Sigríður Hagalín stillir Reykjavík nútímans upp frammi fyrir aðstæðum sem sumum kunna að virðast dystópískar og fjarlægar en öðrum býsna raunverulegar.Hugsanlega má líta á Eyland sem dystópíska framtíðarskáldsögu. Ég er þó efins um að sú flokkun hjálpi mikið til skilnings og túlkunar. Að mínu viti er hér miklu frekar um samtímasögu að ræða. Markmið höfundar er að greina hugsanlega sviðsmynd. Hún spyr spurningarinnar: Hvað gerist ef…? Hér er aðferð bókmenntanna, skáldskaparins, því notuð til að kryfja mannlegt atferli við gefnar aðstæður, greina hið almenna í ljósi hins sérstaka: Hvernig bregst maðurinn við í einangrun og skorti? Hvaða kenndir og háttarlag kalla slíkar aðstæður fram? Vex maður eða smækkar?
Sigríður Hagalín stillir Reykjavík nútímans upp frammi fyrir aðstæðum sem sumum kunna að virðast dystópískar og fjarlægar en öðrum býsna raunverulegar. Í öllu falli hverfur hún að angistarefni sem fylgt hefur íslensku þjóðinni á öllum tímum.
Jafnvel á tímum sjálfsþurftarbúskapar og vöruskiptaverslunar var Ísland aldrei sjálfbært.Jafnvel á tímum sjálfsþurftarbúskapar og vöruskiptaverslunar var Ísland aldrei sjálfbært. Ef siglingar brugðust blasti voðinn við fyrr eða síðar. Ef ekki skorti ásmundarjárn og snæri þyrsti landann alla vega í fréttir og aðra andlega næringu frá útlöndum. Söguefnið í Eylandi fjallar því um raunverulega vá, ef ekki nú þá a.m.k. fyrr á tímum. Það sem einu sinni hefur gerst getur líka alltaf gerst aftur! Það á ekki bara við um atburði heldur líka kringumstæður. Einhvers staðar á bakvið aðstæðurnar sem lýst er leynast svo hugsanir sem kunna að hafa leitað á einhvern í Hruninu eða þegar gosið í Eyjafjallajökli stóð sem hæst. Þessar tvær uppákomur sýndu vissulega að háþróað nútímasamfélag stenst ekki til lengdar án samgangna og samskipta. Lífæðarnar til útlanda mega ekki stíflast.
Ugglaust veldur tímasetningin, tengingin við samtímann og þekkt kennileiti á suð-vesturhorningu, Hörpu, Smáralind, Korputorg og önnur nútímaörnefni miklu um að trúnaðarsamband kemst á milli lesandans og höfundarins. Án slíks sambands ætti höfundurinn erfitt með að glæða frásögu sína trúverðugleika. Það tekst Sigríði Hagalín aftur á móti vel, a.m.k. náði sagan valdi á mér og vakti mig til umhugsunar.
Styrkleiki sögunnar felst öðru fremur í þeirri stigmögnun sem felst í söguþræðinum.Styrkleiki sögunnar felst öðru fremur í þeirri stigmögnun sem felst í söguþræðinum. Af þeim sökum er erfitt um vik að fjalla um bókina í smáatriðum án þess að spilla upplifun þeirra sem enn hafa ekki lesið. Hér kemur þó annað til. Kringumstæður sem kunna að virðast fjarlægar og jafnvel fáránlegar þegar þær eru sviðsettar í Reykjavík nútímans eru enginn skáldskapur þegar dýpra er skyggnst heldur blákaldur veruleiki úr náinni fortíð ef ekki beinlínis líðandi stundu. Undir bókarlok er t.d. lýst atburðum sem margir hafa lifað á síðustu misserum — að vísu ekki við Reykjavíkurhöfn heldur suður við Miðjarðarhaf þar sem fólk er sent út í óvissuna.
Í mínum huga er Eyland fyrst og fremst hárbeitt nútímagreining. Ágengnin felst í spurningunni: Hvað gerist ef við lendum allt í einu hinu megin við sjónarpsskjáinn? Hvað ef atburðirnir sem Sigríður Hagalín og samstarfsfólk hennar segir okkur fréttir af á hverjum degi gerðust ekki í Aleppo heldur á götum Reykjavíkur? — Þar með fær Eyland krefjandi samfélagslega og siðfræðilega undirtóna.
[fblike]
Deila