Sofi OksanenSofi Oksanen vakti mikla athygli á Íslandi þegar bók hennar Hreinsun var þýdd árið 2010. Sagan var raunar upphaflega skrifuð sem leikrit en síðan hefur einnig verið gerð bíómynd (Purge 2012). Fyrir Hreinsun hlaut Oksanen bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og veitti þeim viðtöku í Norræna húsinu. Verðlaunin hlutu nokkra fjölmiðlaumfjöllun, ekki síst þegar höfundur bað fréttamanninn Lindu Blöndal um að spyrja sig gáfulegra spurninga og fréttamaður svaraði á móti hvort nauðsyn væri að hafa bókmenntagráðu til þess að ræða við hana. Sitt sýndist hverjum um þessi samskipti, margir töldu Oksanen fúla og dónalega og að blaðamaður hefði sýnt áræðni en aðrir nýttu tækifærið til þess að gagnrýna fjölmiðlafólk fyrir að vera illa að sér um listir og menningu.
Norma
Forlagið 2016
Oksanen lýsti því sjálf að með Hreinsun hafi hún meðal annars ætlað að beina kastljósinu að því hvernig Eistland var undir járnhæl Sovetríkjanna og sagði réttilega að sú saga væri lítt þekkt utan Eystrasaltsins.[1] Bókin er þannig söguleg skáldsaga sem segir um leið nöturlega sögu tveggja kvenna.
Í nýjustu bók höfundar, Normu, er höfundur á allt annars konar slóðum, umfjöllunarefnið snýr enn að neikvæðum hliðum mannlegrar tilveru en í samtímanum og í fremur óræðu borgarumhverfi.Síðan Hreinsun kom út hafa fleiri bækur Oksanen verið þýddar, fyrst Kýr Stalíns (2011), þá Þegar dúfurnar hurfu (2014) og nú kemur fjórða bókin í íslenskri þýðingu, Norma. Sigurður Karlsson þýddi þær allar og verður honum seint fullþakkað sitt þýðingarstarf því að finnskum þýðingum mætti að ósekju fjölga á íslenskum bókamarkaði. Það væri alltént óskandi að fleiri finnskir höfundar væru jafn áberandi og Sofi Oksanen því að einhvern veginn trúi ég ekki öðru en að í Finnlandi leynist betri höfundar en hún. Hreinsun höfðaði fyrst og fremst til mín vegna þess að sögusviðið er áhugavert og ekki algengt ef miðað er við þær bókmenntir sem helst standa til boða á Íslandi. Eystrasaltslöndin og Finnland eru nálægt Íslandi í rúmi en menning þeirra og saga fjarlæg og Íslendingum lítt kunn. Hið sögulega samhengi er spennandi en persónurnar náðu illa til mín, gróteskar lýsingar eru yfirdrifnar og virðist bókin fremur eiga að ganga fram af manni en miðla sögu.
Í nýjustu bók höfundar, Normu, er höfundur á allt annars konar slóðum, umfjöllunarefnið snýr enn að neikvæðum hliðum mannlegrar tilveru en í samtímanum og í fremur óræðu borgarumhverfi. Fortíðin lúrir raunar undir aðalsögunni allan tímann en þá fremur sem saga einstaklinga en stærri saga. Sagan hefst á jarðarför móður aðalpersónunnar, Normu, sem situr eftir með óteljandi spurningar og nokkuð hjálparvana án móður sinnar. Smám saman kemst hún að leynilegu lífi móðurinnar og inn í söguna fléttast dularfullir ættingjar og „klanið“ sem hefur lífsviðurværi sitt af ólöglegum en aðallega siðferðislega vafasömum viðskiptum. Helsta tekjulindin er staðgöngumæðrun og hárlengingar. Innan klansins ríkir síðan stöðug samkeppni og tortryggni þannig að hver og einn getur óttast um líf sitt.
Rammi sögunnar er raunsæislegur en Norma sjálf er gædd yfirnáttúrulegum hæfileikum – ef hæfileika skyldi kalla. Hár hennar vex hraðar en á öðru fólki og þar að auki getur hún lesið í hár annarra því að hárið kemur upp um eigendur þess, hvernig þeim líður, hvar þeir hafa verið, hvað þeir borðuðu og svo framvegis. Þá hefur hár hennar sjálfrar einnig sjálfstæðan vilja og hefur mikil áhrif á það hvernig líf hennar þróast. Það er erfitt að finna til nokkurrar samlíðan með Normu, hún er mjög lokuð bæði gagnvart lesendum og öðrum persónum. Veröld hennar hrynur með dauða móðurinnar, samúðin er með henni í upphafi þegar hún situr ein heima eftir jarðarförina en þegar atburðarásin hefst týnist persóna hennar. Hið sama má segja um aðrar persónur sem ef til vill eru of margar og hver annarri líkar. Móðurina er enn erfiðara að skilja en hún fylgir lesendum áfram vegna myndbanda sem hún skildi eftir handa Normu til þess að reyna að útskýra hið dularfulla líf sem hún lifði. Það er nokkuð ótrúverðugt hvernig þessar upptökur fléttast inn í frásögnina, Norma veltir stanslaust fyrir sér hvers vegna mamma hennar dó og hvað hún hafði í bígerð en horfir samt aldrei nema á brot af myndböndunum í einu – í stað þess að horfa á þau öll og fá svarið.
Hin siðferðislegu mál sem eru rauður þráður og drifkraftur sögunnar komast illa til skila því að frásögnin er óþarflega þvælinHin siðferðislegu mál sem eru rauður þráður og drifkraftur sögunnar komast illa til skila því að frásögnin er óþarflega þvælin; tíð sviðsskipti eru ruglandi og einhliða persónur setja ekki nógu skýrt mark á frásögnina sem er synd því að hér eru sannarlega á ferð málefni sem má kryfja til mergjar. Vel er þekkt hvernig staðgöngumæður í þriðja heiminum eru leigðar fyrir ríkara fólk í vestri, í bókinni er þetta nefnt „móðurífsleigutúrismi“ (bls. 116); gagnsætt en átakanlegt hugtak. Hitt málið er þungamiðja verksins en líklega ekki jafn þekkt og staðgöngumæðrun: hárlengingar. Það má merkja mikla ádeilu á þetta svið sem er bein afleiðing stjörnudýrkunar og áhrifa tískuiðnaðarins:
Þær yngri voru auðveldari, hárið á Beyoncé og Rihönnu og Victoriu Beckham sem lengdist og styttist aftur á sama sólarhringnum hafði unnið sitt verk. Í Finnlandi hafði Big Brother haft sömu áhrif: áhorfendur gláptu daglega á stúlkur í sjónvarpinu sem tóku af sér hárið áður en þær fóru að sofa og smeygðu því á sig aftur á morgnana, og fljótlega þótti ekkert sjálfsagðara en að allir gerðu það líka (bls. 115).
Enn skýrari ádeilu má sjá þegar sjónum er síðan beint að því hverjir græða:
Fegrunariðnaðurinn hefur alltaf verið svið kvenna, örviðskipti sem jafnvel er hægt að reka heima hjá sér. Þarf ekkert startkapítal, en þegar starfsemin fer að bera sig er hún keypt upp. Alltaf sama sagan, bæði hjá konum og þeldökku fólki. Við erum nógu góð til að eyða, ekki eiga, ekki auðgast. Fjölþjóðleg fyrirtæki eru undir stjórn hvítra og gleypa allt, Unilever, L’Oreal. Afríka er undirlögð, Kína og Indland fylgja á eftir (bls. 170).
Efniviðurinn á þannig án nokkurs vafa erindi til samtímans og væri óskandi að Oksanen hefði tekist að vekja áhuga á þessum brýnu málefnum með þéttri og spennandi skáldsögu en því miður er sú ekki raunin.
[line]
[1] Bergsteinn Sigurðsson: Frjór jarðvegur til að misnota fólk, Fréttablaðið 3. nóvember 2010 bls. 12.
[fblike]
Deila