Óskar Árni Óskarsson
Kúbudagbókin annó 1983
Sæmundur, 2016
Óskar Árni er löngu kunnur fyrir ljóðabækur sínar og smáprósa. Skemmst er að minnast bókarinnar Skuggamyndir úr ferðalagi frá 2008 sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Nýjasta bók Óskars Árna, Kúbudagbókin, er líkt og Skuggamyndir lýsing á ferðalagi en á aðeins fjarlægari slóðir en þar. Ferðir og flakk hvers konar bregður raunar fyrir í mörgum bókum Óskars og þannig geyma textarnir jafnan mun stærri heim en lengd þeirra gæti bent til. Og Kúbudagbókin er engin undantekning, lesandi fylgir höfundi um langan veg í tíma og rúmi, alla leið til Kúbu og rúm þrjátíu ár aftur í tímann. Meginhluti bókarinnar gerist á Kúbu en ferðalaginu þangað og til baka er lýst þannig að lesandi fær sannarlega á tilfinninguna að Kúba sé mjög langt í burtu, nokkrar flugvélar þarf til að komast á áfangastað. Ferðaáætlunin á leið út var: Reykjavík-Kaupmannahöfn-Austur-Berlín-Nýfundnaland-Kúba (5). Góð áminning um hve mikið hefur breyst á skömmum tíma þegar kemur að heimshornaflakki nútímamanna. Þó að Kúba sé vissulega ekki algengasti viðkomustaður íslenskra ferðalanga sýnist mér að hægt væri að komast frá Keflavík til Havana með tveimur flugvélum á vel innan við sólarhring.

Bókin er þægileg aflestrar en því ræður mestu látlaus, einfaldur en fallegur stíll Óskars Árna.
Eins og titillinn gefur til kynna er bókin á dagbókarformi og í káputexta segir að hér birtist lítt breyttar færslur úr dagbók höfundar frá mánaðardvöl á Kúbu. Þar starfaði hann ásamt fleiri Íslendingum og Norðurlandabúum á vegum Vináttufélags Íslands og Kúbu og Brigada Nordica, vinafélags Kúbu á öllum Norðurlöndum. Og vinnan er síður en svo þægileg innivinna heldur á köflum nokkurt puð við aðstæður sem hafa líkast til verið þeim flestum óvenjulegar. Í hita og sól áttu þau til að mynda að höggva illgresi frá sítrustrjám og stundum voru vinnuaðferðirnar nokkuð frumstæðar eins og að grafa grunn fyrir íbúðarblokk með ekkert nema skóflur og fötur (47) eða hræra steypu með handafli því að steypuvélin, sem upphaflega var ætluð til brauðgerðar, var biluð (31).

Bókin er þægileg aflestrar en því ræður mestu látlaus, einfaldur en fallegur stíll Óskars Árna. Lúmskur húmor kemur af og til aftan að manni og einu sinni hrökk ég í kút yfir fremur gróteskum lýsingum þegar vitnað er í konu sem varð fyrir pyntingum stjórnarhersins í El Salvador (50). Tilfinningin fyrir framandi heimi er sterk í bókinni og nær höfundur henni fram með mjög skýrum en gagnorðum lýsingum. Sem dæmi má nefna frásögn af miðnæturráfi um borgina Trinidad sem er eins og stutt brot úr bíómynd, bíómyndinni sem höfundi finnst hann sjálfur staddur í:

Um miðnætti læddist ég burt og gekk niður í gamla hafnarhverfið sem er hérna skammt frá. Fáir á ferli á hálfrökkvuðum strætum. Einn og einn köttur skaust yfir götuna og hvarf. Götulýsingar voru næstum engar, en sumstaðar féll ljósgeisli á gangstéttina út um hálfopinn glugga og mannamál og sjónvarpsskvaldur barst út í nóttina. Sumar göturnar ilmuðu af kryddi. Mér fannst ég vera kominn öld aftur í tímann. Horaðir ræfilslegir hundar átu úr opnum fötum undir húsvegg og tunglið lýsti á himninum. Hundur gelti, annars var hljótt. Ég var á þessu rölti í meira en klukkutíma, það var eins og ég væri staddur einhversstaðar milli draums og vöku í draumkenndri gamalli bíómynd (68).

Dagbækur eru oftast þannig að höfundar þeirra eiga ef til vill ekki von á að nokkur lesi þær yfir höfuð en þrátt fyrir það er ekki að merkja neinn flaustursbrag á textanum heldur er hann þvert á móti meitlaður og myndirnar sem höfundur dregur upp eru býsna sterkar.

Eins og dagbókar er von og vísa er greint frá býsna hversdagslegum atburðum í bland við merkari stundir. Hér má finna allt frá iðravandræðum starfsmannanna til heimsóknar á fimm þúsund manna geðsjúkrahús.
Eins og dagbókar er von og vísa er greint frá býsna hversdagslegum atburðum í bland við merkari stundir. Hér má finna allt frá iðravandræðum starfsmannanna til heimsóknar á fimm þúsund manna geðsjúkrahús. Undir niðri kraumar síðan geysilega stór saga sem lesandi fær aðeins örlitla tilfinningu fyrir með lestri Kúbudagbókarinnar og fer líklega eftir bakgrunni hversu mikil áhrif hennar verða. Hér er átt við Kúbu í sögu- og menningarlegu samhengi: nýlendutímann, byltinguna, kalda stríðið, sambandið við Bandaríkin og svo framvegis. Ekkert þessara atriða er beinlínis í forgrunni en skiptir auðvitað miklu máli fyrir samhengi bókarinnar og skýrir tilurð hennar eða að minnsta kosti tilurð ferðarinnar. Þá stingur þjóðarhetjan Jose Martí upp kollinum hér og hvar og starfsmennirnir hafa kost á að hlýða á fjölda fyrirlestra um málefni Kúbu sem virðast hafa verið misáhugaverðir. Lesendur fá takmarkaðar upplýsingar um þessi efni og hafi þeir litla sem enga forþekkingu um Kúbu virka þær líklega sem innantómar vísanir ellegar hvati til frekari lesturs.

Dagbókarformið hefur sínar takmarkanir. Stór saga er sett fram á nokkuð brotakenndan hátt og Óskari Árna tekst afar vel upp því að þrátt fyrir allt opnast lesanda hér stór heimur í fáum orðum.
Dagbókarformið hefur sínar takmarkanir. Stór saga er sett fram á nokkuð brotakenndan hátt og Óskari Árna tekst afar vel upp því að þrátt fyrir allt opnast lesanda hér stór heimur í fáum orðum. En það er um leið ókostur því að efnið er spennandi og íslenskar bækur um Kúbu er ekki á hverju strái. Þá er að auki langt um liðið frá sögutíma og lesendur með sagnfræði- og ævisögulegan áhuga brenna líklega í skinninu við lestur bókarinnar. Dagbók stendur efnislega nálægt ævisögu en formið gerir þetta tvennt æði ólíkt. Í mér bærðist þessi togstreita við lesturinn. Annars vegar naut ég textans og formsins en á hinn bóginn bærðist í mér þrá eftir stærri sögu, fleiri útskýringum og nánari kynnum við persónur. Samferðarmenn dagbókarhöfundarins eru lítið annað en nafnið eitt sem er formsins vegna ekki óeðlilegt en þeir marka ekki djúp spor í huga lesenda. Hið sama má segja um aðdraganda ferðarinnar og hvata ferðalangsins sem lítið er fjallað um.

Kúbudagbókin er lítil og létt, smekklega hönnuð þó að mér sé að nokkuð hulið hvers vegna letrið stækkar eftir um 30 blaðsíður.  Á heildina litið er Kúbudagbókin verk sem óhætt er að mæla með, hennar má njóta einnar og sér en mér finnst ekki ótrúlegt að hún veki forvitni og að á sér bæri löngun til frekari lesturs um efni henni skylt.

Um höfundinn
Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir er doktor í íslenskum bókmenntum og stundakennari við Íslensku‐ og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið hennar er íslenskar miðaldabókmenntir. Sjá nánar

[fblike]

Deila