Um miðjan september var sýningin Fjaðrafok sett upp í Tjarnarbíói og þeir mega prísa sig sæla sem komust að því aðeins var um eina sýningarhelgi að ræða.Að sýningunni standa sviðslistahópurinn Bíbí & Blaka og írski sirkushópurinn Fidget Feet en Fjaðrafok er þeirra fyrsta samstarfsverkefni. Tinna Grétarsdóttir er listrænn stjórnandi sýningarinnar fyrir hönd Bíbí og blaka en Chanta McCormick er fulltrúi Íranna.
Þetta er metnaðarfullur listhópur og eftir að hafa séð Fjaðrafok og kynnt mér hópinn á bak við sýninguna er ég ekki hissa á að hann skuli hafi hlotið verðlaun og viðurkenningar í heimalandi sínu.Ef mér telst rétt til er Fjaðrafok fjórða sýning Bíbí og blaka sem miðuð er að yngstu kynslóðinni en fyrri sýningar eru Fetta Bretta, Skýjaborgir og Vera og vatnið. Fidget Feet er loftfimleika- og nútímadanshópur sem hefur sýnt listir sínar víða um heim og við alls kyns aðstæður, svo sem í leikhúsum, úti í skógi, á gríðarstórum og hrollvekjandi rólum sem hanga í mikilli hæð og meira að segja byggingakrönum. Þetta er metnaðarfullur listhópur og eftir að hafa séð Fjaðrafok og kynnt mér hópinn á bak við sýninguna er ég ekki hissa á að hann skuli hafi hlotið verðlaun og viðurkenningar í heimalandi sínu.
Það var virkilega vel tekið á móti ungum sýningargestum og fylgdarliði þeirra við komuna í Tjarnarbíó. Anddyrið var smekkfullt af fólki og öllum gafst tækifæri á að klippa, líma og sníða eigin fuglagrímu með fjöðrum og fíneríi. Flestum þótti þetta góð skemmtun en sumir urðu dulítið skelkaðir og harðneituðu að líma gervifjaðrir á pappaspjöld. Þegar hleypt var inn í sal gátu áhorfendur valið um það hvort þeir sætu á púðum umhverfis sviðið eða í hefðbundnari sætum. Sömuleiðis gátu þeir sem það vildu skoðað sig um á sviðinu og áttað sig á sviðsmyndinni, sem Guðný Hrund Sigurðardóttir hannaði af listfengi, áður en sýningin hófst. Á meðan vappaði um sviðið skringileg en góðlátleg vera sem reyndist, við nánari athugun, vera fugl. Gólfið, fuglinn sjálfur og allt sviðið var í notalegum brúnum litum, lýsingin dempuð og þægileg tónlist ómaði í bakgrunninum.
Þegar flestir höfðu komið sér fyrir breyttist tónlistin örlítið og eitthvað blátt og glansandi byrjaði að hreyfast í loftinu. Út stungust lappir hér og þar, mismargar í hvert skipti, og fljótlega rann það upp fyrir skellihlæjandi gestum að hér var um hreiður að ræða og að tveir ungar væru að hamast við að klekjast út. Fuglarnir og hreiðrið þeirra mynda mótvægi við brúntóna sviðið og vel fiðraðan fuglinn sem vappar um og leikur tónlist. Þeir eru bláir að lit auk þess sem gult og grænt skreytir þá, fjaðrir í þessum litum gegna einnig stóru hlutverki og þyrlast allt um kring sýninguna út í gegn.
Það kostar ungana, sem þær Katla Þórarinsdóttir og Aisling Ní Cheallaigh leika, heilmikil átök að komast út úr eggjunum og hreiðrinu en það hefst að lokum. Áhorfendur fylgjast þá með þeirra fyrstu skrefum á þessari jörð og hvernig þeir læra smám saman þá list að fljúga. Þegar það hefur tekist lýkur sýningunni en hún tekur um 35-40 mínútur. Fuglsungarnir tveir eiga óttalega bágt til að byrja með. Þeir komast við illan leik úr eggjunum, brölta út úr hreiðrinu og detta, klifra og einhvern veginn skríða hvor á öðrum niður á jörðina. Þegar þangað er komið fara þeir að prófa sig áfram – hvað þeir geta gert og hvað þeir vilja gera. Það væri synd að segja að þessi dans væri þokkafullur heldur er hann hreint út sagt gríðarlega klunnalegur, hreyfingarnar stórkallalegar og að því er virðist tilviljanakenndar. Þetta þýðir þó alls ekki að dansinn sé ekki eins og hann eigi að vera, að loftfimleikarnir hafi mislukkast. Þvert á móti krefst það gríðarlegrar færni að láta hreyfingarnar virðast óæfðar, að láta sig detta, að þykjast þurfa að grípa í vin sinn til að forðast fall o.s.frv.
Senurnar þar sem fuglarnir læra að ganga, finna á sér vængina og átta sig á því til hvers þeir eru ætlaðir eru hreinlega óstjórnlega fyndnar.Senurnar þar sem fuglarnir læra að ganga, finna á sér vængina og átta sig á því til hvers þeir eru ætlaðir eru hreinlega óstjórnlega fyndnar. Annar fuglinn til að mynda stingur höfði á milli lappanna, krækir handleggunum einhvern veginn utan um lærin og tekst svo að klappa sjálfum sér á rassinn – og sjá það með eigin augum! Þetta er afskaplega snúin stelling að komast í, svo ekki sé minnst á að lýsa henni með orðum. Og ekki nóg með að hann snúi upp sig og bindi rembihnút, heldur grípur hinn fuglinn um hinn uppsnúna, vingsar honum til og þeytir um allt sviðið með miklum látum. Ungir sem aldnir hlógu sig máttlausa í þessari senu eins og svo mörgum öðrum. Smátt og smátt eykst þokki fuglsunganna. Skrefin verða fíngerðari en um leið ákveðnari, vængirnir stækka og breikka úr sér og fyrstu tilraunir til flugs hefjast. Dansararnir nota meðal annars hreiðrið bláa sem hangir neðan úr loftinu til að sveifla sér um loftin blá og það er hreint ótrúlegt hvernig þeim tekst að sveifla sér fram og aftur með ekkert grip nema ef til vill eina tá sem vafin er inn í silkibút. Loftfimleikarnir, eins og dansatriðin, virðast óæfðir, tilviljanakenndir, og dönsurunum jafn sjálfsagðir og að drekka vatn.
Fjaðrafok er sýning án orða og sagan er „sögð“ með dansi og tónlist. Einföld frásögnin kemst vel til skila í tjáningarríkum dansinum og blíðleg tónlistin, undir stjórn þeirra Sólrúnar Sumarliðadóttur og Jym Daly, gerir áhorfendum auðveldara fyrir að meðtaka söguna og skynja andrúmsloftið hverju sinni. Fjaðrafok er jafnframt sýning fyrir börnin og það fann maður vel andrúmsloftinu í Tjarnarbíói. Það skipti engu máli þótt eitt eða tvö börn hlypu yfir sviðið meðan á sýningu stóð, gripu nokkrar fjaðrir eða hrópuðu, vældu eða kölluðu fram athugasemdir um sýninguna. Fjaðrafok er ekki aðeins skemmtileg og vel útfærð sýning heldur sýning þar sem áhorfendum líður vel, og þannig á það líka að vera.
Ljósmyndir: Steve Lorenz
[fblike]
Deila