Það er unun að horfa á Bláa hnöttinn í Borgarleikhúsinu! Eitt af því besta við þá sýningu er tilfinningin um að hún sé komin „beint frá bónda.“
Þeir flottu söngleikir sem Borgarleikhúsið hefur verið að bjóða okkur, Mary Poppins, Mamma Mia, Billy Elliott hafa allir verið unnir af fagmennsku en það eru höfundarréttarsýningar sem fara lítið breyttar yfir heiminn. Nú hefur Bergur Þór og hans fólk tekið þá þjálfun og reynslu sem komin er í húsið og notað hana til þess að skapa frábæra sýningu frá grunni.
Fagmennska
Börnin eru klædd í feykilega skrautlega búninga þar sem jarðarlitir eru áberandi, hver búningur er sérstakur fyrir stöðu og persónu barnsins og vísanir fjölmargar í myndskreytingar barnabóka og kvikmyndaSviðsmynd Ilmar Stefánsdóttur er undurfalleg og endurskapar dýptir og furður himingeimsins, glitrandi og sindrandi. Upphækkun gerð úr pinnum er óregluleg og falleg á sviðinu en það er erfitt að halda jafnvægi á þeim. Börnin fóru létt með uppstillingar og klifur í þessu. Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur hefðu alveg verðskuldað sérstaka umfjöllun. Börnin eru klædd í feykilega skrautlega búninga þar sem jarðarlitir eru áberandi, hver búningur er sérstakur fyrir stöðu og persónu barnsins og vísanir fjölmargar í myndskreytingar barnabóka og kvikmynda, indjána og prinsessur, tötrabörn og töffara. Glæsilegir voru búningar myrkurbarnanna með vísunum í vampírur og úrkynjaðan glæsibrag. Leikgervi þeirra Maríu og Ásdísar Bjarnþórsdóttur voru þaulhugsuð. Grímur dýranna í myrkraskóginum voru líka sláandi flottar. Allt var þetta unnið af faglegum metnaði en töfrarnir koma með lýsingunni. Þórður Orri Pétursson og hans fólk átti heiðurinn af því flókna og skrautlega samspili fastra ljósa og eltiljósa sem skapaði litadýrð og hreyfingu, til dæmis í flugsenunum sem börnin unnu líka af öryggi. Lýsingin var glæsileg en naut sín best aftar í salnum þar sem yfirsýn er betri en hjá þeim sem sitja fremst.
Börnin
Sýningin er borin uppi af 23 börnum sem voru valin úr hópi 1300 barna í áheyrnarprófum. Þau stóðu sig ótrúlega vel og ekki hægt annað en dást að þeim, sérstaklega í dansatriðunum. Hér fékk maður að sjá hverju Chantelle Carey, danshöfundur stendur fyrir, hún teflir saman fjölbreyttum stíltegundum – hip-hop, steppi, stompi og hringdansi – krakkarnir dönsuðu þetta allt saman af lýtalausri samhæfingu og krafti. Þau sungu líka eins og englar og tónlist Kristjönu Stefánsdóttur hljómar enn í eyrum mínum. Þarna voru afar fallegar ballöður sem komu tárum eldri borgara í salnum til að renna – sexý blúsar eins og blús bjarnarins (Hjartar Jóhanns Jónssonar) og stuðlög af ýmsu tagi. Framsögnin var yfirleitt mjög góð en ungir leikarar ráða síst við sterka tjáningu sem er oft á kostnað blæbrigðanna. Nokkrir senuþjófar voru í hópnum, við eigum áreiðanlega eftir að sjá meira af þeim, en sigur leikaranna ungu er fyrst og fremst sem hóps og það er jafnframt sigur Bergs Þórs Ingólfssonar sem er orðinn einn af okkar albestu leikstjórum.
Græðgisvæðing útópíunnar
Gleði-Glaumur, geimryksugusali og fulltrúi kapítalismans, var leikinn af Birni Stefánssyni sem er eins og Loki í goðafræðinni, kemur öllu illu til leiðar og stendur fyrir stuðinu. Björn er liðugur eins og köttur og stæltur eins og gormur, tekur stöðugum hamskiptum og er bæði demónískur og aumkvunarverður eins og hann á að vera. Eitt af því besta við Bláa hnöttinn eftir Andra Snæ Magnason sem barnabók er dýptin í þeirri bók, ekkert er gefið eftir í því að tala til barnanna eins og hugsandi manneskja og gera til þeirra siðferðilega kröfu og ekki veitir af. Þennan þráð tekur Bergur Þór upp í leikgerð sinni og ég er sammála hverju einasta orði sem hann segir um börn í viðtali í leikskránni.
Ekkert er gefið eftir í því að tala til barnanna eins og hugsandi manneskja og gera til þeirra siðferðilega kröfu og ekki veitir af.Börn eru bæði gerendur og þolendur í samfélagi okkar. Þau eru verðmætur markhópur fyrir framleiðendur að alls konar drasli í neyslusamfélaginu og það skapar mikinn þrýsting bæði á þau og foreldrana. Börnum fækkar og þau verða í auknum mæli að þola tilfinningalegar þarfir fullorðinna, sum eru kæfð í tilfinningasemi, sum misnotuð og vanrækt. Börn í þróunarlöndunum eru látin gegna herþjónustu, seld og drepin í þágu græðgi og grimmdar. Það er enginn barnaleikur að vera þau.
Börnin á bláa hnettinum eru engir englar, í raun og veru verða þau „fíklar“, fyrir afþreyinguna eru þau tilbúin að gera hvað sem er og þeim er skítsama um það þó að hinumegin á hnettinum borgi önnur börn fyrir þeirra lúxus. Þau selja mannleika sinn en það rómantíska í sögu Andra Snæs er að börnin snúa blaðinu við, hafna nautnahyggjunni, ná aftur því sem þau seldu og endurheimta paradísina. Látum raunsæið liggja milli hluta – boðskapurinn er svo brýnn að ekkert getur brýnna verið nú um stundir þegar flóttabörn eru að drukkna af flekum á leið úr myrkinu. Okkur má ekki vera sama!
Það hlýtur að vera hægt að finna einhverja peninga til að bjóða Íslensku þjóðfylkingunni (má taka með sér vini) á Bláa hnöttinn í Borgarleikhúsinu.
Ljósmyndir: Grímur Bjarnason
[fblike]
Deila