Íslensk miðaldasaga í nýju ljósi

Sverrir Jakobsson
Auðnaróðal
Sögufélag, 2016
Óhætt er að mæla eindregið með nýrri bók Sverris Jakobssonar, en hún fjallar á aðgengilegan hátt um pólítíska atburðasögu Íslands frá setningu tíundarlaga undir lok 11. aldar þar til landsmenn samþykktu lögbók Magnúsar konungs lagabætis árið 1281, nærri tveimur öldum síðar. Ritið er í alla staði mjög vel heppnað. Stíll Sverris er knappur og markviss en einnig lipur og læsilegur. Hann gjörþekkir allar þær fjölskrúðugu heimildir sem varðveist hafa um þetta tímabil og hann nýtir þær til að smíða samfellda og spennandi frásögn af mönnum og átökum þeirra í millum á tímum mikilla og örlagaríkra breytinga. Margir lesendur hafa vafalaust lesið Sturlungu, auk biskupasagna og konungasagna sem greina frá atburðum þessara tæplega tvö hundruð ára. Sumir munu hafa kynnt sér annála og fornbréf sem einnig varða þennan tíma. Einhverjir þekkja auk þess rit eldri fræðimanna um tímabilið. Hvort sem þeir hafa lesið meira eða minna, munu allir hafa gagn og ánægju af bók Sverris því í henni er bryddað upp á margvíslegum nýjungum bæði í framsetningu en þó sérstaklega í skilningi á íslenskri miðaldasögu.

Hvort sem þeir hafa lesið meira eða minna, munu allir hafa gagn og ánægju af bók Sverris því í henni er bryddað upp á margvíslegum nýjungum bæði í framsetningu en þó sérstaklega í skilningi á íslenskri miðaldasögu.
Val höfundar á heiti bókarinnar ber með sér vísbendingu um túlkun hans á sögu tímabilsins. Samsetta orðið „auðnaróðal“ kemur hvergi fyrir nema í Konungs skuggsjá, sem rituð var í Noregi í kringum 1250. Þar er það notað yfir ríki þar sem margir konungar í senn hafi verið „skrýddir konungstign“, þ.e. valdir til að stýra því. Af því getur ekki annað en hlotist ógæfa. Titillinn gefur því til kynna að rótin að ófriði þeim sem einkenndi síðari hluta tímabilsins sem um ræðir hafi verið sú að margir töldu sig geta náð æðstu völdum í landinu og þeir kepptu um það sín á milli. Þetta má til sanns vegar færa, því ekki er hægt að túlka skilgreiningu Konungs skuggsjár á auðnaróðali öðruvísi en svo að það sé betra ef konungur ræður, enda mótast hugmyndafræði ritsins af þeirri hugmynd. Það er hins vegar ekki niðurstaðan sem lesa má úr þeirri sögu sem Sverrir segir okkur. Bókin hefst á sameiginlegri ákvörðun kirkjunnar og leikmanna um að taka upp tíundina árið 1096, en endar á því að Ísland verður formlegur hluti af ríki norska konungsins sem setur landsmönnum lög í formi Jónsbókar. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu byggja þessi lög—og raunar samfélagsfriðurinn eins og hann leggur sig—enn á gagnkvæmri málamiðlun leikmanna (höfðingja og bænda), leiðtoga kirkjunnar og konungsins. Þó breytingin í millitíðinni sé sú að norski konungurinn hefur komist til einhverra valda á Íslandi, hafa höfðingjar, bændur og sérstaklega kirkjan enn í bókarlok töluverð áhrif á gang mála. Sagan sem Sverrir segir okkur er því umfram allt saga af uppstokkun á því hvernig völdum er skipt í samfélaginu, en henni fylgja mikil átök.

Ein markverðasta nýjung bókarinnar felst í því hvernig höfundurinn rammar inn tímabilið. Valið á samþykkt tíundarlaga sem upphaf og á setningu Jónsbókar sem endi dregur athyglina að mikilvægri breytingu sem olli straumhvörfum. Opinber gjaldheimta kirkjunnar hófst og þá skapaðist möguleiki á samþjöppun valds í hendur færri höfðingja. Loka­niður­staðan, tveimur öldum síðar, er að íslenskir höfðingjar og bændur samþykkja að greiða konungi skatt. Í millitíðinni hefur hlutdeild eigenda kirkjustaða í tíundinni, en flestir eru þeir goðorðs­menn, gert þeim kleift að safna í kringum sig fleiri fylgismönnum og auka völd sín og áhrif. Þannig breyta aukin áhrif kirkjunnar í samfélaginu högum leikmanna og valddreifingu í þeirra röðum. Á miðju tímabilinu, undir 1200, raskar nýtt inngrip kirkjunnar valdajafnvæginu í höfð­ingja­stétt, þegar vígðir menn mega ekki lengur fara með goðorð. Þá fer það að tíðkast í meira mæli að einstakir menn safni mörgum goðorðum og samþjöppun valds hefst til muna, en um leið samkeppni nýrra héraðshöfðingja. Um svipað leyti styrkist konungsvald í Noregi og Noregskonungar sjá sér leik á borði að bæta Íslandi við ríki sitt sem þá nær til annarra norrænna byggða í Norður-Atlantshafi. Enn skapar kirkjan umgjörð utanum þessa þróun, því erkibiskups­dæmið í Niðarósi í Noregi samanstendur einmitt af Noregi og þessum byggðum, þ. á m. Íslandi.

Sverrir tekur þá afstöðu að konur hljóti að hafa haft umtalsverð óformleg áhrif.
Með því að setja bók sinni þessi tímamörk dregur Sverrir fram bakgrunn átakasögunnar sem hann er að segja og með því verður framvindan skýrari og auðskiljanlegri. En það eru fleiri nýjungar á ferðinni í riti hans. T.d. leggur hann sig fram um að sýna þátt kvenna í þeim atburðum sem hann lýsir. Konur eru afar fyrirferðarlitlar í þeim heimildum sem hann vinnur úr, enda áttu þær lítinn sem engan aðgang að þeim vettvangi þar sem bitist var um völdin: á þingum, á víg­völlum, við konungshirðina, svo ekki sé talað um kirkjuna og stofnanir hennar. Sverrir tekur þá afstöðu að þær hljóti að hafa haft umtalsverð óformleg áhrif og teflir fram sögu kvenna eins og Þuríðar Snorradóttur, heimildarmanns Ara fróða, Guðnýjar Böðvarsdóttur, móður Sturlu­sona, Vigdísar Gilsdóttur sem hvatti til hefnda eftir Örlygsstaðabardaga, Steinvarar Sig­hvats­dóttur og Randalínar Fillipusdóttur svo nokkrar séu nefndar. Með því að flétta þeim inn í frásögn sína tekst honum að gæða þær lífi en einnig að gera mynd sína af atburðunum trúverðugri.

Eins og fyrr sagði, þá hefur höfundur yfirburða þekkingu á heimildunum. Þó þær séu miklar að vöxtum og fjölbreyttar, gefa þær að sjálfsögðu takmarkaða mynd af mönnum og athöfnum þeirra, auk þess sem á stundum gætir misræmis í vitnisburði þeirra. Því þarf að meta þær, vinna úr þeim og láta þær tala saman, ekki síst til að geta í eyðurnar eftir því sem tök eru á. Þetta gerir Sverrir með ágætum.

Sverrir gjörþekkir allar þær fjölskrúðugu heimildir sem varðveist hafa um þetta tímabil og hann nýtir þær til að smíða samfellda og spennandi frásögn.
Slík vinna með heimildir, sé hún gerð mjög sýnileg í textanum með efnis­miklum neðanmáls­greinum eða löngum bollaleggingum um ólíkar túlkanir, getur dregið úr læsi­leika rita sem þessara. Hér hlífir höfundur lesendum með tilvísanakerfi sem vísar aftan­máls til þeirra heimilda sem vitnað er til á hverri síðu og með sérstakri ritaskrá um hvern kafla þar sem sérstaklega er bent á þau rit sem gagnlegast er að hafa til hliðsjónar. Einhverjum gæti fundist að með þessari aðferð sé gert lítið úr vafaatriðum ýmiss konar, en sá sem þetta ritar telur að hún vegi þetta upp með því að rjúfa síður einbeitingu lesandans og beina sjónum hans að þeirri framvindu sem verið er að lýsa. Í lok hvers hluta bókarinnar eru svo gagnlegir yfir­lits­kaflar þar sem höfundur dregur fram helstu einkenni þeirrar þróunar sem hann hefur verið að lýsa.

Það er af mörgu að taka í svo langri og viðburðaríkri sögu. Benda má á nokkur atriði þar sem höfundur varpar nýju ljósi á hana. a.m.k. fyrir þann sem þetta ritar. Þáttur Gissurar Hallssonar og nánustu afkomenda hans í þessari þróun, einkum á síðustu áratugum 12. aldar verður skýrari. Gissur er valdamikill leikmaður, eigi að síður áhrifamaður innan kirkjunnar og hefur auk þess sterk tengsl við norsku hirðina. Hann hefur mikil umsvif í samtíma sínum og börn hans giftast inn í valdaættir víða um land. Athafnir hans undirbjuggu að umtalsverðu leyti valda­samrunann sem í hönd fór.

Átökin á Eyjafjarðarsvæðinu í kringum 1200 verða einnig auðskiljanlegri í endursögn Sverris. Mörg goðorð skipta um hendur og því verður töluverð röskun á valdajafnvæginu á þessum slóðum. Ættirnar sem áður fóru með goðorðin hafa þó enn sterka stöðu. Því ber að skilja átökin í kringum Guðmund biskup góða á fyrstu áratugum 13. aldar einnig út frá þeirri staðreynd en ekki einvörðungu út frá átökum kirkju og leikmanna, en Guðmundur er af fornum goðaættum í Eyjafirði.

Margt fleira verður ljósara eftir lestur á bók Sverris, t.d. hið mikilvæga hlutverk sem Hrafn Oddsson gegnir í endatafli þjóðveldis­aldar. Hann virðist hafa svo góð tök á fylgismönnum sínum á Vesturlandi að norska konungsvaldið getur ekki gengið framhjá honum. Hann er gott dæmi um að íslensk yfirstétt finnur sér leiðir til að viðhalda áhrifum sínum þrátt fyrir breytt stjórnarfar. Það sést meðal annars af því að Hrafn verður mikilvægur gæslumaður hagsmuna íslenskrar höfðingjastéttar í átökum við kirkjuna í staðarmálunum síðari undir lok þess tímabils sem er til umfjöllunar í bókinni.

Í einstökum tilfellum hefur sá sem þetta ritar aðra sýn á atburðina en kemur fram í riti Sverris. Þannig má túlka víg Hrafns Sveinbjarnarsonar 1213 og sáttina eftir það á annan hátt. Sverrir sér átök þeirra Hrafns og Þorvalds Vatnsfirðings í ljósi yfirburðarstöðu Þórðar Sturlusonar á Breiðafjarðarsvæðinu og kallar Hrafn „lepp Sturlunga“ (bls. 121). Ekki er ástæða til að draga í efa að Hrafn hafi verið mikilvægur bandamaður þeirra Sighvats og Þórðar Sturlusonar framan af, en einnig má sjá víg hans og eftirmálin eftir það í ljósi harðnandi átaka milli íslenskra höfð­ingja eftir því hvaða afstöðu þeir tóku til deilnanna við Guðmund biskup á Hólum. Þorvaldur tók einarða afstöðu með Haukdælum, Ásbirningum og Sighvati Sturlusyni en þeir Hrafn og Þórður drógu heldur taum biskupsins. Mér finnst líklegt að Hrafn hafi fremur hikað við að láta skeika að sköpuðu í deilum þeirra Þorvalds vegna þess að hann taldi líklegt að hann gæti misst goðorð sín í sáttargerð ef hann léti drepa Þorvald. Heldur hallaði á þá sem studdu Guðmund biskup á þessum árum og því er sennilegt að Hrafn hefði ekki fengið jafn hagstæða niðurstöðu og Þorvaldur fékk, en hann hélt goðorði sínu þrátt fyrir tímabundinn útlegðardóm.

Það hefði verið gagnlegt fyrir lesendur að lýsa því nánar hvernig þróunin á Íslandi fylgdi í meginatriðum þeirri sem átti sér stað víða í Evrópu á 12. og 13. öld.
Þessi smávægilegi áherslumunur í túlkun einstakra atburða dregur alls ekki úr því að bókin sem hér er til umfjöllunar er í senn vel úr garði gerð og merkileg. Hún dregur upp efnismikla en jafn­framt skýra mynd sem gerir lesendum kleift að skilja betur mennina sem uppi voru á þessum tímum og athafnir þeirra. Þó má koma með eina ábendingu að lokum. Það hefði verið gagnlegt fyrir lesendur að lýsa því nánar hvernig þróunin á Íslandi fylgdi í meginatriðum þeirri sem átti sér stað víða í Evrópu á 12. og 13. öld. Saga flestra Evrópuþjóða á þessum tíma einkenndist annars vegar af því að kirkjan styrktist sem stofnun og breytti skipulagi lands og ríkis og hins vegar af miklum átökum meðal leikmanna í ráðandi stétt, m.a. innan ætta og hafði giftinga­pólítík þar töluverð áhrif. Við þessar aðstæður styrktist konungsvaldið víðast hvar í Evrópu og kirkjan gerði að lokum bandalag við konunganna. Af því öðlaðist konungdómurinn smám saman eins konar helgi sem kemur fram í því að fyrirmenn kirkjunnar krýndu konunganna, að fyrirmynd spámannsins Daníels í Gamla testamentinu sem smurði Davíð konung.

Það leikur enginn vafi á því að túlkun Sverris á því sem var að gerast á Íslandi frá lokum 11. aldar þar til Ísland varð hluti af norska konungsríkinu mótast af þessum meginlínum í þróun samfélaga í Evrópu á sama tíma. Eins og fyrr sagði er titillinn á bók hans fenginn úr Konungs skuggsjá sem túlkar vel konunglega hugmyndafræði sem verður ofan á í Evrópu um miðbik 13. aldar. Þó hefði hann mátt gera þessum skilningi hærra undir höfði í texta sínum, því að mörgu leyti sker Ísland sig ekkert sérstaklega úr öðrum löndum. Þannig hefði bókin gert meira til að leiðrétta útbreitt viðhorf til íslenskrar miðaldasögu sem einblínir um of á sérstöðu Íslands og horfir framhjá því að Íslendingar voru á þessum tímum eins og nú á dögum hluti af stærri heild Evrópuþjóða.

Um höfundinn
Torfi Tulinius

Torfi Tulinius

Torfi H. Tulinius er prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á íslenskum miðaldabókmenntum og samfélagi, en einnig fengist við franskar bókmenntir og almenna bókmenntafræði. Sjá nánar

[fblike]

Deila