Á sýningunni Diktur í Hafnarborg dagana 23. janúar til 6. mars 2016 sýndi Ragnhildur Jóhanns verk sem eru unnin upp úr og með bókum. Þetta eru bókverk gerð á nýstárlegan hátt. Henni er umhugað um tungumálið, bókina, orðin og textana sem eru rituð í henni.Verkin eru bæði í þrívíðu og tvívíðu formi. Þau eru unnin úr bókum ásamt textum þeirra. Textarnir eru skornir upp úr gömlum bókum. Verkin hafa öll ramma eða umgjörð um sig og er þétt raðað í allt rými innan rammana. Öll eru verkin með titlum, sum með titlum sem eru dregin út úr textum bókanna sem eru í verkunum en önnur eru nefnd eftir hugmyndum listamannsins.
Í sýningarskránni segir Angela Rawlings að Ragnhildur hafi smíðað upp úr orðinu dikta nýyrðið diktur um hluti sem verða til við að yrkja eða skrifa. Diktur er ekki nýyrði því í íslenskum orðabókum kemur orðið diktur fyrir og þýðir smásögur eða lausafregn og er fleirtalan af orðinu dikt sem þýðir að semja, skálda eða ljúga. Ragnhildur notar þetta orð í þeirri merkingu að nýir óvæntir hlutir verði til með hennar bókverkum, hún diktar upp verk.
Ragnhildur notar þetta orð í þeirri merkingu að nýir óvæntir hlutir verði til með hennar bókverkum, hún diktar upp verk.Hennar bókverk eru unnin upp úr öðrum bókum, bókum sem hún finnur í endurvinnslum, á fornsölum eða bókum sem á að henda. Bókverkin eru um tungumálið þar sem hún skapar ljóðræna skúlptúra með því að skera upp bækur og nota úrskurðinn (textann) til að skapa úr þeim þrívíð form. Penninn hennar er hnífur. Hún sker upp bækurnar og dregur út orð og setningar. Hún umbreytir tvívíðum texta á blaðsíðu í þrívíddarverk. Ragnhildur tekur bækur úr kápum og sýnir inn á bókakilina þar sem greinilega sést að unnið hefur verið með saumþráð, nál og lím til að halda blaðsíðum saman.
Ragnhildi tekst einkar vel að sýna að innihald bóka má lesa á margvíslegan hátt. Sýningin gefur sterklega til kynna að orð og setningar sem skorin eru út úr bókum og bækurnar sjálfar öðlast nýtt líf og nýja merkingu í meðförum og uppsetningum hennar. Orð og setningar fá nýjan mátt og verða bæði að skúlptúrum og ljóðlínum. Gamlar bækur sem búið er að bjarga frá glatkistunni eru settar saman í hillur þar sem til verður lítið bókasafn eða bókasöfn í sýningarsal og hafa bækurnar með því öðlast nýja merkingu. Það er búið að umbreyta þeim fyrir sýninguna, klæða úr kápunum og opnur sumra bókanna fá að snúa fram í rýmið en ekki upp að veggnum. Orð og textar eru einnig sýndir með ljósmyndum í römmum, orð og textar sem hafa verið skornir út úr bókum og unnin upp í þrívíð verk sem síðan eru ljósmynduð og lokuð inni í römmum með gleri til varðveislu.
Verkin voru sýnd í Sverrissal sem er á jarðhæð Hafnarborgar. Salurinn er aflangur og eru þrjár hliðar hans sýningarveggir en sú fjórða er stór gluggi. Gengið er inn í salinn fjærst glugganum við endann á langhliðinni. Með því er, eins og segir í sýningaskrá, verið að ganga inn í sýningarrýmið í gegnum bókarkjöl. Sýningarrýmið er æði kyrrt og hljótt en einnig iðandi af lífi og skvaldri. Það er kyrrt og hljóðlátt þegar fáir gestir eru í því að skoða verkin en öðlast aðra merkingu þegar bókverksvinnustofan er í fullum gangi með krökkum sem fá að búa þar til bækur á Safnanótt.
Verkið (Lj) Óður er það fyrsta sem ber fyrir augu þegar gengið er inn í salinn. Verkið er á veggnum á móti innganginum en á honum er þrískiptur aflangur og opinn hilluskápur. Hillurnar eru fullar af þéttröðuðum bókum með nöktum bókakjölum. Búið er að fjarlæga sjálfa bókakilina, og spjöldin eru líka farin, þannig að það sést í sauminn, límið og pappírinn. Bækurnar eru misþykkar og mismunandi á litinn en flestar í brúnum tónum. Hér sýnir listamaðurinn bækurnar með nakta kili og bendir með því á myndrænan hátt að bækur eru ekki bara orð og setningar; bækur eru líka handverk. Bókbandið og naktir kilir bókanna vekja athygli þegar komið er inn í salinn og horft beint á bókahilluna á veggnum á móti. Vísast er að það sé með vilja gert í fleirum en einum tilgangi. Ragnhildur hefur áhuga á handverki og dregur það fram hér, en hún bæði bindur inn og býr til bækur.
Á hinum langveggnum er verkið Diktur, samnefnari sýningarinnar, sem einnig eru bókahillur fullar af bókum, gert úr þremur stökum hillum. Hér er uppsetningin á þann hátt að hver hilla hefur eina bókaröð og snúa bækurnar öfugt við það sem vanalegt er, þ.e.a.s. hér snúa blaðsíðuendarnir fram og kjölurinn inn að veggnum. Bækurnar eru allar lokaðar og þétt raðað í hillunum. Stærsti hluti hillanna er festur á vegginn en hluti þeirra er látinn ganga fram í rýmið eins og um opna bók sé að ræðasem opnast fram að innganginum. Ef gengið er á bak við skúlptúrinn þá sést vel að þetta er tilvísun í að bækur eru þrívíðar en blaðsíður þeirra tvívíðar. Verkin Diktur og (Lj) Óður mynda bókasafn sýningarinnar.
Við gluggaenda salarins er skúlptúr sem lætur lítið yfir sér. Verkið heitir Sank Hoard og er samsett úr bókum og gömlu húsgagni í nýju hlutverki. Húsgagnið er kollur eða borð sem er með þétt röðuðum bókum undir plötunni. Bækurnar snúa allar fram og er skorið af blaðsíðunum langsum á þykktina, þannig að textinn er skorinn á hlið og er ólæsilegur. Bækurnar hafa ekki bara öðlast nýtt hlutverk því húsgagnið hefur gert það líka og er orðið að geymslu fyrir bækur. Saman eru bækurnar og húsgagnið safn verðmæta, einskonar þrívíð klippimynd.
Momenta – II er frá árinu 2015 og er elsta verkið á sýningunni en hin öll eru frá 2016. Í þessu skúlptúrverki hefur Ragnhildur skorið texta úr blaðsíðum, tekið þá fram og látið ganga fram í rýmið. Verkið er gert úr bókum í bókahillu þar sem blaðsíðurnar eru látnar snúa fram og hér er rúmt um bækurnar. Tvívíðar blaðsíður bókanna eru orðnar að útskornum þrívíddarverkum. Sýningagestir geta hér lesið og raðað saman textum í huganum og skapað þannig nýja samsetningu orðanna.
Á sýningunni eru fjórar stórar ljósmyndir sem teknar eru af listaverki sem Ragnhildur segir að hún hafi ekki sýnt opinberlega. Ljósmyndirnar eru allar innrammaðar og með gleri. Verkin sem myndirnar eru af eru af sama toga og Momenta –II, texti hefur verið skorinn út og hann dreginn fram í rýmið. Ljósmyndirnar eru teknar af skúlptúrnum frá mismunandi sjónarhonum og með ljósmynduninni hafa ný verk orðið til, einskonar eftirmyndir af verkinu eða ljósmyndaverk sem stendur eitt og sér. Á ljósmyndinni hefur þrívíða verkið misst áruna sem það hafði áður, því með vélrænum endurgerðum og fjölföldun fölnar ára listaverksins og það er ekki það sama núna og það var áður. Þýski heimspekingurinn og menningargagnýnandinn Walter Benjamin (1892-1940) segir að ára listaverks sé einstaka tilvist þess á tilteknum stað eða upplifun listaverksins hér og nú, en með fjölföldun fari alltaf forgörðum upplifunin hér og nú. Hann segir að upplifunin hér og nú sé að njóta náttúrulegs fyrirbæris, til dæmis fjallsgarðs við sjóndeildarhring sem einstakrar sýnar og að þá skynji menn áru þess. Sé sama fyrirbæri ljósmyndað og fjölfaldað og birt í dagblöðum sé upplifunin alls ekki sú sama því áran er ekki lengur til staðar.[1] Eins er það með þrívíða verkið, sem ljósmyndirnar eru af, það er ekki lengur hægt að upplifa það á raunverulegan hátt hér og nú og ára þess er ekki lengur til staðar.
Ljósmyndirnar fjórar á sýningunni.
Margir samtímalistamenn vinna verk sín með ljósmyndum. Þeir taka myndir til dæmis af frumstæðu lífi fólks, af hamfarasvæðum eða stríðsátökum. Aðrir skrá með ljósmyndun daglegt líf, fjölskyldur sínar, lífsviðburði og hátíðir svo eitthvað sé nefnt. Ragnhildur hefur skrásett verk sín með stafrænum hætti eins og gjarnan er gert nú til dags. Þrívíða verkið hennar er orðið að tvívíðum myndverkum. Ný verk hafa orðið til með stafrænni ljósmyndatækni og það er búið að prenta út eintök af þeim og ramma inn. Stafræna ljósmyndin gæti hugsanlega lifað lengur en verkið sem myndin er af. Hún getur þar af leiðandi varðveitt hugmynd verksins, geymt orðin og gefið möguleika á endursamsetningu textanna með tíð og tíma. Hvert og eitt ljósmyndaverk hefur nafn sem gefur því gildi. Nöfnin Algerlega dvalið hjá henni, hann hafði áorkað sjálfum sér, Að tjá sig í orðum, Augnaráðið leysist úr læðingi til að trufla og Varirnar opnast í ákveðin kynjahljóð eru tekin úr útskornum textum verksins. Heitin eru bæði ljóðræn og hugljúf og gefa augljóslega til kynna að Raghildi er annt um málfar og texta. Sýningagestir geta líka leikið sér að því að setja saman orð og texta og tekið þannig undir hugmyndir Ragnhildar um að fara fallega með málið og upplifa sýninguna í gegnum textagerð.
[pullquote]Eins og margir samtímalistamenn notar Ragnhildur gamla hluti, lúnar bækur, bækur sem hún hefur hirt og skorið til, og sýnir á þann hátt að hún fylgir hugmyndum samtímalistamanna hvað efnivið varðar.[/pullquote]Gamlir, notaðir hlutir og jafnvel hlutir sem hafa fundist hér og þar á ólíklegustu stöðum hafa verið notaðir hjá samtímalistamönnum um nokkurn tíma til að tjá hugmyndir og koma boðskap á framfæri. Að nota gamla og/eða fundna hluti til þess að tjá sig kemur í stað þess að skissa upp á blað, mála mynd á striga eða höggva minnismerki í stein sem áður fyrr voru algengustu tjáningaraðferðir listamanna. Þannig er einnig sýnt fram á að gamlir hlutir geta þjónað öðru hlutverki en þeir voru upprunalega gerðir fyrir. Eins og margir samtímalistamenn notar Ragnhildur gamla hluti, lúnar bækur, bækur sem hún hefur hirt og skorið til, og sýnir á þann hátt að hún fylgir hugmyndum samtímalistamanna hvað efnivið varðar. Hennar hugmyndir á sýningunni Diktur eru að hlúa samhliða að tungmálinu, handverkinu og listinni.
Grein þessi var unnin sem verkefni í Listgagnrýni og sýningarstjórn, námskeiði á MA-stigi í listfræði við Háskóla Íslands.
[line]
[1]Walter Benjamin, „The work of Art in the Age of Mechanical Reproduction“.
[fblike]
Deila