Ritið: 3/2015

Ritstjórar: Jón Ólafsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Peningar eru þemað í þriðja hefti Ritsins 2015. Fjallað er um fjármálavald og mælikvarða á verðmæti út frá ýmsum sjónarhornum. Í grein sinni „Fjármálavæðing og mótun tímans í Konum eftir Steinar Braga“ setur Viðar Þorsteinsson fram þá tilgátu að Steinar Bragi rannsaki formgerðir fjármálaauðmagns með fundum aðalpersónunnar í Konum, Evu, við ofbeldishneigða bankamenn. Viðar heldur því fram að sagan nái að sviðsetja virkni fjármálavalds og skuldsetningar í samtímanum, þar sem skuldin verður tákn fyrir vald lánardrottins yfir tíma skuldarans. Eðli tengsla skuldunauta og lánardrottna kemur við sögu, þótt með ólíkum hætti sé, í grein Ásgeirs Jónssonar um starfsemi okurlánara í Reykjavík á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Ásgeir sýnir fram á að þótt okrarar eða okurkarlar hafi verið fyrirlitinn hópur og starfsemi þeirra fordæmd af almenningsálitinu, hafi þeir að mörgu leyti leikið mikilvægt hlutverk í viðskipta- og athafnalífi. Þá skrifar Eyja M. Brynjarsdóttir um gallana við að nota peninga sem mælikvarða á gildi, hvort sem um er að ræða hluti eða vinnu, og heldur því fram að peningar séu bæði óstöðugur mælikvarði og að óljóst sé hvað þeim sé ætlað að mæla.

Kápumynd: Lánveitandinn og kona hans (Quentin Metsys 1514)
Kápumynd: Lánveitandinn og kona hans (Quentin Metsys 1514)

Tvær þýðingar sem birtast í þessu hefti tengjast þemanu á ólíka vegu. Grein Georgs Simmel um stórborgina og andlegt líf frá 1903 („Die Großstädte und das Geistesleben“) er klassískur texti og vel þekktur innan borgarfræði, menningarfræði og fleiri greina hug- og félagsvísinda. Síðari greinin er eftir Juliu O’Connell Davidson frá 2002, „Rétt og rangt um vændi“ („The Rights and Wrongs of Prostitution“), en hún fjallar um vændi og vöruvæðingu kynlífs. Í báðum greinunum er hinu magnbundna mati sem í raun byggir á peningahugtakinu lýst sem leið frá hinu upplifaða og tilfinningalega veigamikla inn í heim yfirráða og kaldranalegrar, jafnvel ofbeldisfullrar stýringar. Um leið setja höfundarnir fram beitta gagnrýni á þá tilhneigingu nútímans að þröngva öllu mati á gæðum og gildum í samhengi hins fjárhagslega útreiknings.

Auk þemagreinanna birtir Ritið að þessu sinni fjórar ritrýndar greinar. Gunnþórunn Guðmundsdóttir fjallar um örlög gleymskunnar í heimi samskiptamiðlanna sem varðveita persónur og allt athæfi þeirra í netheimum. Njörður Sigurjónsson greinir þann þátt búsáhaldabyltingarinnar svokölluðu sem lítið hefur verið fjallað um, jafnvel þótt hann hafi verið áberandi og mikilvægur hluti hennar; hávaðann sem framleiddur var með búsáhöldum og öðrum tólum. Tvær greinar fjalla um rannsóknir á skáldverkum sem þó beinast ekki að hefðbundnum viðfangsefnum bókmenntafræðinga. Bergljót Kristjánsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir fjalla um hvernig rannsóknir á tilfinningaviðbrögðum lesenda varpa nýju ljósi á lestrarupplifun og lestrarreynslu. Í rannsóknunum tveimur sem sagt er frá í greininni er verið að stíga fyrstu skrefin í empírískum bókmennta-rannsóknum hér á landi, en þær hafa tíðkast víða annarsstaðar um árabil. Ása Bryndís Gunnarsdóttir, Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson greina aðferð Arnaldar Indriðasonar við að halda kyni aðalpersónunnar leyndu í skáldsögunni Einvíginu, með notkun ýmissa nafnliða sem lýsa persónunni og líkamshlutum persónunnar og með því að beina athygli lesandans að umhverfi persónunnar og einstökum atriðum í því frekar en henni sjálfri.

Síðasta hefti Ritsins var helgað „stöðu fræðanna“ en í því birtust sex greinar höfunda sem allir hafa nýlokið doktorsprófi við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Það má segja að tvær vettvangsgreinar þessa heftis beinist sömuleiðis að stöðu fræðanna í íslenskum hugvísindum. Gunnar Þorri Pétursson heldur því fram að nútímabókmenntafræði beri „dauðann í sér“ í þeim skilningi að hún snúist gegn bókmenntunum sjálfum. Egill Arnarson fjallar hins vegar um ritið Inquiring into Contemporary Icelandic Philosophy í grein um íslenska samtímaheimspeki og bendir á að til að gefa rétta mynd af íslenskri heimspeki þyrfti að vera hægt að setja hana í víðara hugmyndasögulegt samhengi.

Kaflar og útdrættir

Inngangur ritstjóra
Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Jón Ólafsson: Hinn reiknaði heimur: Peningar og gildi

Þema: Peningar
Viðar Þorsteinsson: Fjármálavæðing og mótun tímans í Konum eftir Steinar Braga
Útdráttur og lykilorð / Abstract and keywords

Ásgeir Jónsson: Okurmálin í Austurstræti
Útdráttur og lykilorð / Abstract and keywords

Eyja Margrét Brynjarsdóttir: Blóðsykur, vinnuvikur, mælistikur: Um peninga, vinnu og verðmæti
Útdráttur og lykilorð / Abstract and keywords

Greinar

Bergljót Kristjánsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir: „mér fanst ég finna til“: Um empírískar rannsóknir á bókmenntum og tvær kannanir á tilfinningaviðbrögðum við lestur frásagna
Útdráttur og lykilorð / Abstract and keywords

Ása Bryndís Gunnarsdóttir, Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson: Mál og kynóvissa í íslensku. Ráðgátan um Marion Briem
Útdráttur og lykilorð / Abstract and keywords

Njörður Sigurjónsson: Hávaði búsáhaldabyltingarinnar
Útdráttur og lykilorð / Abstract and keywords

Gunnþórunn Guðmundsdóttir: Frásögn án gleymsku og dauða: Sjálfstjáning á samfélagsmiðlum
Útdráttur og lykilorð / Abstract and keywords

Vettvangur

Gunnar Þorri Pétursson: Endalok nútímabókmenntafræði á Íslandi
Egill Arnarson: Hvernig ætti að fjalla um samtímaheimspeki á Íslandi?

Þýðingar

Georg Simmel: Stórborgir og andlegt líf
Julia O’Connell Davidson: Rétt og rangt um vændi

[fblike]

Deila