Sá sem snýr aftur

Kvikmyndin The Revenant hefur verið mikið í umræðunni undanfarið, sérstaklega þar sem aðalleikarinn Leonardo DiCaprio var orðaður við Óskarsverðlaun fyrir leikara í aðalhlutverki. DiCaprio þótti líklegur til vinnings, ekki bara vegna framúrskarandi leiks á hvíta tjaldinu heldur einnig vegna þess að litið var svo á að tími væri kominn til að hann hlyti viðurkenningu akademíunnar fyrir fyrri störf á löngum og farsælum ferli sem vinsæll leikari í Hollywood. Það kom svo á daginn að eftir margar tilnefningar hlaut kvikmyndin nokkur Óskarsverðlaun, þar á meðal fyrir leik DiCaprios í aðalhlutverki.

Hlaut kvikmyndin nokkur Óskarsverðlaun, þar á meðal fyrir leik DiCaprios í aðalhlutverki. 

Sögusvið The Revenant er norðanverð Ameríka að vetri til, árið 1820. Kvikmyndin segir frá einni alvarlegustu villidýraárás í sögu Bandaríkjanna, þegar Hugh Glass (leikinn af DiCaprio) lenti í áflogum við grábirnu sem var að vernda húna sína.

hugras_reverant_aras

Flestir Bandaríkjamenn þekkja þjóðsöguna um Hugh Glass og birnuárásina. Eftir árásina er hann skilinn eftir dauðvona af ferðafélögum sínum en hefndarþorstinn er svo gífurlega sterkur að hann lifir árásina af og skríður 322 kílómetra í leit að svikurunum, einsettur í að hefna sín.

Teikning af árásinni á Hugh Glass. Birt í dagblaði árið 1823.
Teikning af árásinni á Hugh Glass sem birt var í dagblaði árið 1823.

Ekki er mikið vitað um líf Glass og annað en það sem er byggt á getgátum. Þrátt fyrir að vera lærður maður skildi hann lítið eftir sig í sögubókunum, fyrir utan að hann er nefndur á nafn í skjölum yfirboðara sinna, þar sem sagt er að hann hafi verið erfiður viðureignar sem starfsmaður, og að hann hafi orðið fyrir bjarnarárás. Með tímanum skapaðist þjóðsaga í kringum manninn sem lifði af hrottafengna bjarnarárás. Lögfræðingur í Philadelphia skráði atburðinn árið 1824 og lifði sagan áfram í dagblöðum og tímaritum. Árásin átti að hafa átt sér stað sumarið 1823 við árbakka Missouri. Glass rakst á birnu með tveim húnum sínum og réðist hún á manninn til varnar afkvæmum sínum. Öskrin og lætin drógu félaga Glass á staðinn og þurfti meira en eitt skot til að fella birnuna. Hann virtist nær dauða en lífi og ákvað leiðtogi hópsins að halda þyrfti förinni áfram en skildi eftir tvo menn, John Fitzgerald og Jim Bridger, til þess að vera með Glass uns yfir lyki og veita honum sómasamlega greftrun. Eftir tveggja daga yfirsetu nær Fitzgerald að sannfæra Bridger um að yfirgefa Glass og finna restina af hópnum og grafa þeir Glass grunna gröf. Þegar Glass vaknar, er hann einn og yfirgefinn.

Kvikmyndin hefst á því að nokkrir útvaldir menn, undir forystu kapteinsins Andrews Henry, eru að flytja feld til viðskipta. Hugh Glass leiðir hópinn ásamt syni sínum Hawk, þar sem þeir þekkja svæðið. Hann á soninn með innfæddri konu sem lést á hrottafenginn hátt ásamt öllum bæjarbúum, en þeir feðgar voru þeir einu sem komust lífs af. Það sem truflar þá aðallega við athafnir sínar eru innfæddir indjánar sem svífast einskis til þess að ná skinnunum af þeim til þess að græða sjálfir. Mikil fátækt og eymd nýbúa sem og innfæddra er meginfleygurinn milli þessara menningarhópa og kallar á fordóma og andúð sem verður orsakavaldurinn að skelfilegri hefndargöngu Glass.

Fordómar eins manns, Johns Fitzgerald, gagnvart feðgunum og fortíð þeirra eru bersýnilegir og hikar hann ekki við að gagnrýna leiðsögn Glass og Hawks. Það virðist plaga hann óheyrilega að Glass eigi blandaðan son og hann lítur á hann sem svikara við þjóð sína og kynstofn. Hinir mennirnir í hópnum láta það ekki trufla sig jafnmikið en Fitzgerald hlýtur stöðugar ávítur af foringjanum Henry.

Eitt af því sem er eftirtektarverkt við myndina er myndatakan og þá sérstaklega lýsingin í tökunum. Leikstjórinn leitaðist við að taka einungis upp í náttúrulegri birtu við bestu birtuskilyrðin, sem þýddi hálfgert kapp kvikmyndateymisins við ljósið, en birtan varði jafnvel ekki nema einn til þrjá klukkutíma dag hvern.

Iñárritu tekst snilldarlega að fanga angist og reiði DiCaprios
Iñárritu tekst snilldarlega að fanga angist og reiði DiCaprios þegar persóna hans, Glass, verður vitni að morði sonar síns, sem er framið af Fitzgerald. Tilburðir DiCaprios í viðbrögðum við morðinu eru trúlega eitt af lykilatriðunum sem urðu til þess að leikarinn hreppti Óskarsverðlaunin fyrir leikara í aðalhlutverki. En ekki má gleyma myndatöku Iñárritus sem nær að fanga tilþrifin truflunarlaust. Glass hafði særst svo heiftarlega á hálsi í baráttunni við birnuna að hann hefur sennilega verið hálfraddlaus lengi vel eftir. Vanmáttur hans til að kalla á hjálp nístir inn að sál þegar Glass getur ekki bjargað syni sínum úr klóm hins kalda Fitzgerald. Hann tryllist svo mikið við verknaðinn að sárin opnast aftur og blóðið rennur í stríðum straumum úr hálsinum.

Margar frásagnir hafa litið dagsins ljós og líkt og góðum veiðisögum sæmir verða sögurnar hver annarri ótrúlegri. En það sem stendur þó eftir er að þegar kemur að enda sögunnar, eftir vítiskvalir Glass og ferðalag hans um fjöll og firnindi, drifnum af hefndarþorsta, finnur hann Fitzgerald og Bridger en ákveður, í stað þess að veita hatri sínu og hefnd útrás, að fyrirgefa báðum mönnum. Sagan virðist vera að ná hámarki með fyrirhuguðum hefndaraðgerðum Glass en spennan hríðfellur með fyrirgefningunni.

Aðaláhersla kvikmyndarinnar er sjálf árásin og eftirköst hennar.
Aðaláhersla kvikmyndarinnar er sjálf árásin og eftirköst hennar. Iñárritu passar sig að gera ekki of mikið úr fortíð Glass, annað en það að skapa honum fjölskyldu sem gefur honum tilefni til að vera hinn erfiði Glass sem getið er um í gömlum skýrslum og jafnvel enn meira tilefni til að fyllast þeirri reiði sem knýr hann áfram í kvikmyndinni. Hefndin verður réttlátari. Morðið á syni hans fær einnig meira vægi þegar gefið er í skyn að það sé byggt á fordómum í garð Glass og indjána. Við það verður Fitzgerald að kaldrifjuðum morðingja sem á hefnd og hatur Glass skilið.

hugras_reverant_nattura

Erfitt er að horfa á myndina án þess að verða snortinn af mikilfengleika náttúrunnar og hæfileikum kvikmyndatökumanna við að fanga hin minnstu smáatriði. Myndatakan sjálf var reyndar það sem vakti hvað mesta athygli, og það áður en myndin kom út. Til þess að ná eins miklum upprunaleika og hægt var voru tökustaðir hafðir eins ósnertir og afskekktir og mögulegt var.

Myndatakan sjálf var reyndar það sem vakti hvað mesta athygli
Um hávetur er lítið um dagsbirtu og hafði Iñárritu ákveðið að nota enga raflýsingu, sem gerði hverja senu tilfinningalega og tæknilega erfiða. Sex mánaða tökur í stingandi 25 stiga frosti, og einungis í einn til þrjá tíma í senn, voru þó þess virði þar sem myndin nær að skila því þrúgandi andrúmslofti sem leikstjórinn vildi miðla. Iñárritu viðurkennir að erfið skilyrðin hafi verið kvikmyndatökuliðinu til ama en hann réttlætir aðferðina með því að segja að hann hafi einmitt viljað fanga betur tilfinningar leikaranna og tengsl þeirra við stað og stund. Þökk sé ákveðni og einbeitingu leikstjórans tókst teyminu að vinna sig í gegnum níu mánuði með takmarkaðri lýsingu í fimbulkulda á afskekktum tökustöðum og úr varð kvikmynd sem hlotið hefur verðskuldað lof.

Tilþrif aðalleikarans eru samtvinnuð fyrrnefndum aðstæðum. Líkt og leikstjórinn Iñárritu segir, er ekki víst að hann hefði fangað hinar tilfinningalegu og mögnuðu senur í kvikmyndinni ef allt hefði verið tekið upp í myndveri við grænskjá og öllum hefði liðið vel. Leonardo DiCaprio tekst snilldarlega að miðla þeirri tilfinningalegu angist og örvæntingu að verða vitni að morði sonar síns en hæfileikar leikaranna er ekki það eina sem myndin skilur eftir sig í huga áhorfanda. Myndatökur og náttúran hafa slík áhrif að mörgum mánuðum seinna getur áhorfandi enn séð fyrir sér brakandi snjóinn í skógum Norður-Ameríku og særðan Glass hálfskríðandi um fjöll og firnindi.

The Revenant mun eldast vel, þökk sé snilldarframkomu leikara og velúthugsuðum myndatökum leikstjóra. Þrátt fyrir fámennt leikaraval nær kvikmyndin að skapa hasar sem heldur áhorfendum spenntum í sætunum og má segja að náttúran og umhverfið hafi einnig stóru hlutverki að gegna. Tilfinningaþrungnar senur og frábær kvikmyndatækni stillir kvikmynd þessari upp meðal þeirra sem allir verða að sjá í hið minnsta einu sinni á ævinni.

[line]

Grein þessi var unnin sem verkefni í námskeiðinu Gagnrýni og ritdómar við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Um höfundinn
Sandra Jónsdóttir

Sandra Jónsdóttir

Sandra Jónsdóttir er með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún stundar nú MA-nám í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sama skóla.

[fblike]

Deila