Irmgard KramerUmræðan um þýddar barna- og unglingabækur hér á Íslandi er fremur fátækleg. Hún einskorðast alla jafna við fremur fáa einstaklinga og er gjarnan á þá leið að ekki sé nógu mikið þýtt úr íslensku á önnur tungumál og að of mikið sé þýtt úr ensku á íslensku á kostnað bóka frá öðrum málsvæðum. Þó er alltaf eitthvað um bækur frá öðrum löndum en Bretlandi og Bandaríkjunum og seint á síðasta ári kom út hressileg barnabók, Sólbjörg Valentína: Um frumskólarfugla og konunglegar nærbuxur, en höfundur hennar er hin austurríska Irmgard Kramer og bókin er þýdd úr þýsku af Herdísi Hübner.
Sólbjört Valentína: Um frumskógarfugla og konunglegar nærbuxur
Nina Dulleck myndskreytti
Þýðandi: Herdís Hübner
Bókabeitan, 2015
Irmgard Kramer hefur skrifað bækur fyrir börn, unglinga og fullorðna en bókin sem hér um ræðir er sú fyrsta í seríu um samnefnda aðalpersónu, fjölskyldu hennar og hús sem er geðstirt í meira lagi. Þessi fyrsta bók um hana Sólbjörtu og fjölskyldu er hressileg, skondin og jákvæð og ætti líkast til best heima í hópi með bókunum um Kidda Klaufa, Fríðu framhleypnu, Kaftein Ofurbrók og hinn sænska Bert (áður en hormónarnir skiptu yfir í fimmta gír) og svipuðum barnabókum þar sem hraði, fjör og stuð eru í fyrirrúmi. Þetta eru bækur sem krakkar lesa yfirleitt sjálfir og hlæja upphátt að, bækur sem graftarbólur unglingsáranna, kossar og kelerí hafa ekki náð tangarhaldi á.
Húsið reynist vera lifandi og með ákaflega sjálfstæðan vilja og sterkar skoðanir og lítið þarf til að koma því úr jafnvægi.Sagan sjálf er römmuð inn af bréfi sem Sólbjört skrifar sjálfum Vilhjálmi Bretaprinsi þar sem hún reynir að útskýra hvernig það vildi til að hana sárvantaði nærbuxur hans hátignar og álpaðist í kjölfarið inn í Buckhingham-höll. Það reynist vera húsinu að kenna, húsinu þar sem Sólbjört býr ásamt pabba sínum, bróður og Konráði gamla og var keypt fyrir örfáar krónur. Húsið reynist vera lifandi og með ákaflega sjálfstæðan vilja og sterkar skoðanir og lítið þarf til að koma því úr jafnvægi. Eftir að pabbi hefur lesið ævintýrið um Þyrnirós fyrir Sólbjörtu og Nóa bróður hennar eitt kvöldið fer húsið í allsherjar fýlu og hrækir systkinunum og pabba út um gluggann þannig að þau sitja föst í risastórri eik fyrir utan. Þau eru eðlilega hissa, og svolítið svekkt þar sem húsið hafði lofað að þau mættu stundum sofa í friði. Fljótlega kemur í ljós hvað húsið vill en það púar orðunum upp úr skorsteininum, með frjálslegri stafsetningu: „Henngið mígið fínan fána á vorn hæssta turn“ (bls. 20). Húsið vill sem sagt vera eins fínt og fágað og konungshöllin í ævintýrinu um Þyrnirós og vill að á sig verði hengdur fáni. Stórum nærbuxum er komið fyrir á toppi hússins og þegar húsið áttar sig á því bregst það ókvæða við og krefst þess að eitthvað verði gert í málunum. Í kjölfarið á þessu öllu saman lendir Sólbjört Valentína, berfætt á náttkjólnum, inni í Buckingham-höll í brúðkaupsveislu Vilhjálms og Katrínar. Sólbjört er rammvillt og örlítið skelkuð. Henni tekst engu að síður að vingast við framandi prins en lendir líka í því að vera hundelt af öryggisvörðum ásamt því að hamast við að leita að konunglegum nærbrókum til að hengja á fánastöng hússins.
Þetta er frumleg og fyndin krakkabók – tilvalin ef krakkana vantar eins og eitt hláturskast.Sólbjört Valentína: Um frumskógarfugla og konunglegar nærbuxur en ein þessara bóka þar sem raunsæi og fantasía blandast saman án þess að það þyki nokkuð tiltökumál og innan sögunnar þykir það hreint ekkert undarlegt þótt hús kunni að stafa (illa), börn ferðist á milli húsa og halla í ólíkum löndum eins og ekkert sé eða að híbýlum finnist gott að borða egg. Þetta er frumleg og fyndin krakkabók – tilvalin ef krakkana vantar eins og eitt hláturskast. Sagan er öll sögð frá sjónarhorni Sólbjartar og er þannig barnslegt, og allt gerist býsna hratt, þ.e. bæði er söguþráðurinn hraður en einnig er skipt ört milli nútíðar og fortíðar, til dæmis þegar Sólbjört útskýrir fyrir lesendum hvers vegna mamma hennar býr ekki hjá þeim og hvernig það kom til að þau fluttu í hið mislynda hús. Þessi hraði og áhersla á atburðarás gerir það að verkum að lesandinn kynnist persónunum frekar lítið, sérstaklega pabba og Nóa litla, og öll persónusköpun er frekar yfirborðskennd. Vel hefði mátt eyða meira púðri í hana og sögu fjölskyldunnar til að skapa meiri dýpt og samúð eða skilning lesenda á aðstæðum sögupersónanna.
Þýðendur barnabóka standa oft frammi fyrir því að þurfa að velja á milli þess að staðfæra þýðinguna, breyta til að mynda útlendum nöfnum í íslensk, erlendum staðarheitum í íslensk o.s.frv. eða reyna að vera eins trúir frumtextanum og mögulegt er og breyta sem allra minnstu. Ef þeir gera það eiga þeir það stundum á hættu að lesendur skilja ekki um hvað ræðir, átta sig ekki á staðarháttum eða bröndurum. Sólbjört Valentína: Um frumskógarfugla og konunglegar nærbuxur virðist henta einkar vel til þýðingar þar sem fjarskalega lítið í sögunni tengist náið ákveðinni menningu, landi eða þjóð. Bókin virðist þannig „alþjóðleg“ – að minnsta kosti ef við gerum ráð fyrir því að það sé almenn vitneskja að vita hver Kata hertogaynja og Villi prins eru. Þýðingin sjálf er Herdísi Hübner til sóma. Eins og áður sagði er sagan sögð frá sjónarhóli Sólbjartar sjálfrar og er uppfull af sniðugheitum, sem ekki lukkast alltaf vel, og misgóðum bröndunum sem Herdísi tekst með lagni að þýða á fínustu íslensku. Sá tónn sem hún setur í þýðinguna hæfir mjög vel hressilegum stíl sögunnar.
[fblike]
Deila