Saga af firringu

Ólafur Jóhann Ólafsson
Endurkoman
Veröld, 2015
Ólafur Jóhann Ólafsson er einn þeirra höfunda sem gist hafa blindan blett hjá þessum lesanda. Aldrei hafa bækur hans freistað eða kallað á athygli þrátt atrennu að einhverri þeirra fyrir mörgum árum. Á þessu varð þó breyting er hina nýjustu, Endurkomuna, rak óvænt á fjörur mínar fyrir nokkru.

Endurkoman er lipurlega stíluð bók, slétt og fáguð enda fjallar hún um fólk í fáguðu ef ekki snobbuðu umhverfi. Líklega má segja að hún fjalli um fínt, fagurt og fjáð fólk þótt „kapítal“ þeirra allra sé e.t.v. ekki efnahagslegt heldur menningarlegt, félagslegt eða fræðilegt svo vísað sé til pælinga Pierre Bourdieu og fleiri. Stíll bókarinnar er raunar svo fágaður að þegar komið var langt inn í söguna verkaði það eins og löðrungur þegar sagt var að „löpp“ sjúklings hafi staðið undan laki eða teppi. Í þessari bók virðast líkamspartar á borð við lappir ekki rúmast nema þá að ganga undir heitinu fótur!

Aðalpersóna sögunnar, Magnús Colin, er íslenskur í móðurætt og hefur tvívegis gist landið í fáa daga í senn. Báðar fá ferðirnar trámatískan endi. Ekkert af þessu skiptir þó máli fyrir framvindu sögunnar sem gerist í alþjóðlegu umhverfi þar sem vísindarannsóknir og tónlist skipta í raun mestu fyrir atburðarásina.

Magnús Colin virðist fremur litlaus og rislítil persóna en á því kunna að vera eðlilegar skýringar. Hann á rætur að rekja til „dysfunktionellrar“ fjölskyldu. Móðirin, hin íslenska Margrét, er glataður snillingur í sjálfsmyndarkreppu og faðirinn, Bretinn Vincent, „velur“ að vera meðvirkur með henni á kostnað sonarins í uppvextinum. Ekki er heimilsböli hans þó þar með lokið þar sem þau gerast í ellinni afkastamiklir falsarar og biðla ákaft eftir stuðningi sonarins þegar upp kemst. Hann stendur þó af sér atlögur þeirra. Sýnir hann þar óvæntan karakterstyrk og má líklega segja að með því hefjist síðbúið þroskaskeið hans sem vera má að sé hluti þeirrar endurkomu sem bókin er kennd við.

Á hann er þó meira lagt þar sem hann lendir í sambandi við Malenu sem kemur inn í líf hans og hverfur þaðan aftur án þess þó að hann þekki á henni sporð né hala. Sambandið virðist grunnfærið fremur en leyndardómsfullt og saga þeirra Magnúsar og Malenu nær því ekki að verða „seiðmögnuð skáldsaga um ástina“ eins og segir á bókarkápu. Frekar má segja að grunnstef hennar séu einsemd, söknuður og brotthvarf en þau orð er einnig að finna á bókarkápunni. Hugsanlega fjallar Endurkoma Ólafs Jóhanns því um firringu sem var tískuhugtak fyrir fáeinum áratugum og merkir m.a. „tengslaleysi við annað fólk“. En einmitt það einkennir Magnús Colin og margar aðrar persónur sögunnar. Þar kann líka einn helsti styrkur hennar að liggja.

Annars vekur Endurkoma Ólafs Jóhanns ágenga siðferðislega spurningu sem er líkleg til að fylgja lesendunum löngu eftir að Magnús Colin og samferðafólk hans horfið inn í gráa móðuna sem grúfir yfir á bókarkápunni. — Hvernig bregst sérfræðingur í heilaskaða við þegar hann kemst að raun um að skjólstæðingar hans eru líklega allir í sömu stöðu: þeir eru við fulla meðvitund en eru með öllu ófærir um að bregðast við umhverfinu sem þeir þó skynja, a.m.k. með heyrninni? Er þetta raunar ekki ýktasta mynd firringarinnar? Hvernig verður þeim best líknað? Geta þeir öðlast endurkomu? Frammi fyrir þessari spurningu skilur með Magnúsi Colin og helstu samstarfskonu hans, Simone, hugsanlega trúverðugustu persónu sögunnar. Hvort valdi rétt? Hvað segir læknisfræðin, siðfræðin og mannlegar tilfinningar? Hver svo sem svörin verða hverfa þau frá rannsóknum sínum og þar með úr sögunni hvort í sína áttina.

Í sögulok leitar Magnús Colin heilunar á brautum sem kunna að líkjast uppgjöf ef hann væri persóna af holdi og blóði en það náði hann raunar aldrei að verða í huga þessa lesanda. Hugsanlega má þó þvert á móti líta á lausn hans sem endurkomu til einhvers konar veruleika sem hann virðist þó aldrei hafa verið hluti af hvort sem um tengslin við foreldrana, Malenu, Simone, sjúklingana eða samstarfsfólkið er að ræða.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila