Spurningar um umhverfis- og loftslagsmál eru áberandi á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands í ár, sem hefst föstudaginn 11. mars og stendur yfir í tvo daga. Hugvísindaþing var fyrst haldið árið 1996 og fagnar því 20 ára afmæli. Fyrirlestrar og málstofur eru öllum opin og viðfangsefnin afar fjölbreytt.Steven Hartman, prófessor við Háskólann í Mið-Svíþjóð, mun opna þingið að þessu sinni með fyrirlestri um nýja framtíðarsýn umhverfishugvísinda. Hartman hefur verið lykilmaður í skipulagningu rannsókna hugvísindafólks á Norðurlöndum á hnattrænum breytingum. Hann stjórnar miðstöð um umhverfishugvísindi, leiðir norrænt net í þverfaglegum umhverfisvísindum og er meðstjórnandi samstarfsnets um norðurskautssvæðið. Undanfarið hefur Steven fengist við kortlagningu umhverfismeðvitundar og umhverfisminnis í bókmenntum, unnið að því að auka vægi hugvísinda í rannsóknum á hnattrænum breytingum og að hvetja fólk, í gegnum samstarf vísinda- og listamanna, til að bregðast við loftslagsbreytingum. Fyrirlestur hans fer fram í hátíðarsal Háskóla Íslands föstudaginn 11. mars klukkan 12:30.
Hér má sjá viðtal við fyrirlesara í málstofunni Víðáttur og villidýr sem fjallar um náttúru Íslands og umhverfismál frá mörgum ólíkum hugvísindalegum sjónarhornum og þar sem sjónum er beint að stöðu og þróun umhverfishugvísinda á Íslandi.
Alls verður boðið upp á 150 fyrirlestra í tæplega 40 málstofum. Auk umhverfishugvísinda má nefna málstofur um framtíð íslenskunnar, sögu kvenna og hinsegin sögu, Íslendinga í Kaupmannahöfn og Vesturheimi, valdarán, vísindabyltingar, fötlun, fátækt, tungumálanám og –kennslu, áhrif nýrrar tækni og tóla í málvísindum, fornleifafræði og menningarmiðlun, samþættingu hugvísinda og læknisfræði og dægurmenningu, bókmenntir og listir frá ótal sjónarhornum, að ógleymdum sjálfum dauðanum.
Dagskrá þingsins og útdrættir úr fyrirlestrum er birt á heimasíðu Hugvísindastofnunar og kynning á málstofum hefur einnig farið fram á Facebooksíðu stofnunarinnar og Twitter.
Hér má sjá stuttar kynningar á nokkrum málstofum þingsins:
[fblike]
Deila