Hér er þó ekki um hefðbunda kvikmyndarýni að ræða heldur frekar eitthvað sem mætti kalla „spillirýni“, þ.e.a.s. umfjöllun sem gerir ráð fyrir því að lesandinn sé búinn að sjá myndina eða sé á annað borð reiðubúinn að ræða innihald hennar á opinskáan hátt.Það þykir ef til vill ákveðin tímaskekkja að ætla að rýna kvikmynd á borð við The Force Awakens (ísl. Mátturinn glæðist), sem er í þann mund að hætta í sýningu (og hverfa af sjónarsviðinu þangað til hún verður gefin út til einkanota). Hér er þó ekki um hefðbunda kvikmyndarýni að ræða heldur frekar eitthvað sem mætti kalla „spillirýni“, þ.e.a.s. umfjöllun sem gerir ráð fyrir því að lesandinn sé búinn að sjá myndina eða sé á annað borð reiðubúinn að ræða innihald hennar á opinskáan hátt. Í aðdraganda frumsýningar The Force Awakens í desember síðastliðnum ríkti mikil leynd yfir söguþræði myndarinnar. Nú þegar hæfilegur tími hefur liðið frá því að hulunni var svipt af nýjasta innlegginu í Star Wars goðsögnina má hins vegar gera ráð fyrir því að það reiðist ekki of margir þó maður segi þeim að Svarthöfði sé í raun faðir Loga Geimgengils (og að Dumbledore deyr).
Orðið er ljóst að í það minnsta hagfræðilega séð getur The Force Awakens talist vel heppnuð, eftir að hafa slegið ýmis aðsóknarmet um allan heim. Myndin hefur þar að auki almennt hlotið lof gagnrýnenda og góðar viðtökur aðdáenda, gamalreyndra jafnt sem nýgræðinga. Þykir mörgum það myndinni helst til framdráttar að henni tekst að fjarlægja sig frá forleiknum, sem er almennt talinn til skammar, og sækja þess í stað innblástur í upprunalega þríleikinn (þó jafnvel of mikinn innblástur þar sem ýmis minni eru endurnýtt miskunarlaust). Hér með vottast að ég naut myndarinnar og fór jafnvel á hana oftar en einu sinni. Um er að ræða skemmtilegt og spennandi geimævintýri með viðkunnanlegum aðalpersónum sem nær að fanga í það minnsta snefil af hinum „sanna“ Star Wars anda (hver sem hann svo sem er). Margir upplifðu að þarna væru Star Wars myndirnar loksins komnar aftur á réttan kjöl og að fortíðarþránni sem forleikurinn sveik hafi loksins verið svalað. Að mínu mati kallaði myndin hins vegar fram nýja fortíðarþrá sem fékk mig til að sakna forleiksmyndanna og endurmeta hvað þær höfðu fram yfir þetta nýjasta flaggskip Star Wars margmiðlunarrisans.
The Force Awakens er án efa betri kvikmynd en forleiksmyndirnar, í það minnsta í skilningi Hollywood og hins almenna kvikmyndaáhugamanns. Myndin er að mestu leyti heildrænt verk og vel uppbyggð og tekst leikstjóranum J.J. Abrams þar með að halda athygli áhorfandans frá upphafi til enda. Forleikurinn gæti á hinn bóginn verið sakaður um að vera sundurleitur og uppfullur af ýmsum illskiljanlegum geðþóttaákvörðunum leikstjórans George Lucasar, sem virtist hafa misst öll tengsl við raunveruleikann og aðdáendur hins upprunalega þríleiks. Forleikurinn treysti sífellt meir á stafrænar tæknibrellur til þess að gæða sögusviðið lífi (tæknibrellur sem eru nú hálf úreltar). Hins vegarvar sú ákvörðun tekin með The Force Awakens að snúa í auknum mæli aftur að praktískum tæknibrellum sem skila sér í mun áþreifanlegri upplifun. Leikararnir fá líka betur að njóta sín, örugglega að hluta til vegna þess að það er auðveldara að detta inn í hlutverkið þegar heimurinn er lifandi í kringum þig en ekkigrænn flötur sem verður fyllt inn í eftir á. Rey og Finn eru því vel leiknar og áhugaverðar aðalpersónur sem draga áhorfandann strax inn og hjálpa honum að finna fótfestu í annars framandi heimi. Slíka fótfestu var að finna hjá Loga Geimgengli í upprunalega þríleiknum, sveitadrengnum sem svaraði kallinu og sigraðist á vonda alheimsveldinu, en vantaði að vissu leyti í forleikinn þar sem það var í raun óljóst hver aðalpersónan ætti að vera.
Þrátt fyrir augljósa ágalla er þó ýmislegt sem forleikurinn hefur fram yfir The Force Awakens.Þrátt fyrir augljósa ágalla er þó ýmislegt sem forleikurinn hefur fram yfir The Force Awakens. Fyrir það fyrsta var Lucas óhræddur að marka forleiknum ákveðna sérstöðu strax með útkomu The Phantom Menace (ísl. Dulda ógnin, 1999). Hér var um að ræða mynd sem reyndi að blanda saman pólitík, skylmingum, kappakstri, geimbardögum og meiri pólitík, en mistókt að lokum að skapa heildstæða kvikmyndaupplifun. Engu að síður hafði myndin sterk séreinkenni sem einkenndu hana sem nýjan kafla í Star Wars sögunni. The Force Awakens reiðir sig hins vegar of mikið á frásagnarminni úr upprunalega þríleiknum og nostalgíu til þess að standa á eigin fótum (þó sérstaða hennar komi ef til vill í ljós seinna þegar allur þríleikurinn er kominn út).
Hvað varðar sögusviðið þá er heimur The Force Awakens vissulega lifandi, þökk sé praktískum tæknibrellum, en heimur forleiksins var heimur sem var lifað í. Miklum tíma var varið á hverjum stað og íbúar heimsins virtust þar með hafa sjálfstæða tilvist. Lucas var því ekki hræddur við að staldra við og leyfa áhorfandanum að anda á meðan Abrams reynir að viðhalda einhvers konar spennu út alla myndina. Star Wars hefur hingað til borið mikla virðingu fyrir dauða mikilvægra persóna og eru jarðafarir Qui-Gon Jin, Padmé og Svarthöfða allar minnistæðar athafnir, með skírskotanir í áhrif þeirra á framtíðina. Þegar Han Solo deyr í The Force Awakens virðist hins vegar enginn tími til þess að meta hverskonar tímamót dauði hans markar.
Sökum þessa hraða endar The Force Awakens með að gefa mjög þröngsýna mynd af annars gríðarstórum heimi og skilur eftir fleiri spurningar en svör. Ekkert er útskýrt almennilega í myndinni. Það er ekkert samhengi gefið fyrir tilkomu Nýja lýðveldisins (e. New Republic), Fyrstu reglunnar (e. First Order) eða Andspyrnunni (e. Resistance), sem hætti af einhverri ástæðu að kalla sig Uppreisnina (e. Rebellion). The Force Awakens er byggð upp eins og fyrsti þátturinn í sjónvarpsseríu sem er hannaður til þess að fá áhorfandann til þess að vilja sjá meira. Uppfull af leyndarmálum og spurningum sem hálf neyða áhorfandann til þess að sjá meira ef þeir vilja fá svör. Hver er Snoke? Hverjir eru foreldrar Rey og af hverju getur hún notað máttinn? Hverjir eru Ren-riddararnir? Í A New Hope (ísl. Ný von, 1977) er slíkt samhengi óþarfi, þar sem heimurinn átti eftir að þróast, en eftir Return of the Jedi (ísl. Endurkoma Jedi-riddarans, 1983), og forleikina, er mjög óskýrt hvenig pólitíska landslagið hefur þróast. Þetta leynimakk er án efa úthugsað af Abrams og félögum til þess að gera áhorfendur spennta fyrir framhaldinu en hvað varðar framlag þess til Star Wars heimsins skilar það sér í afar takmarkaðari upplifun.
Að þessu leyti er það Lucas til framdráttur hversu ónærgætinn hann er og ólúmskur þegar kemur að framsetningu upplýsinga. Þegar Yoda er fyrst kynntur til sögunnar í The Empire Strikes Back (ísl. Veldið hefnir sín, 1980) sem elliær græn geimvera er Lucas til að mynda ekki lengi að ljóstra upp um að bak við gervið búi sannur jedi-meistari. Hvað varðar afhjúpun þess að Svarthöfði sé faðir Loga má reyndar segja að Lucas hafi tekist að koma öllum á óvart, enda um að ræða eitt frægasta „plott-tvist“ sögunnar. Hins vegar notar hann það ekki eins og gulrót í yfirlætslegri tilraun til þess að fá áhorfendann til að ánetjast vörunni hans. Forleikurinn einkennist af miklu upplýsingaflæði þar sem persónurnar gjamma út í eitt um allt og ekkert, gjarnan aðeins í þágu þess að halda áhorfandanum upplýstum. Á stundum mætti halda að Lucas væri lítið barn sem hugsar upphátt – útkoman er ef til vill léleg kvikmynd en á einhvern hátt einlæg tilraun til goðsagnagerðar.
Það er ljóst að The Force Awakens er vel smurð vél, hönnuð með gífurlegri meðvitund um þá viðtökusögu sem henni er ætlað að stíga inn í og hvernig hún getur notað afneitun sína á forleiknum sem stökkpall til frekari frama. J.J. Abrams tekst listilega vel að sameina þá þætti sem Star Wars aðdáendur telja sig hafa verið að bíða eftir í öll þessi ár, upp að því marki að maður finnur ennþá bræluna af markaðsvélinni sem þar liggur að baki. Útkoman er efnilegur fyrsti kafli í nýrri Star Wars sögu sem á eftir að standa og falla með enn óútkomnum framhaldsmyndum. Eftir situr hins vegar söknuður fyrir listrænu pensilfari upprunalega meistarans Lucasar, leikskólabarninu sem lét sér fátt finnast um athugasemdir annarra, tók gjarnan furðulegar ákvarðanir í beinn andstöðu við væntingar síns eigin markaðshóps og hélt sínu eigin sköpunarverki í heljargreipum sinnar eigin vanhæfni – og það var æðislegt.
Grein þessi var unnin sem verkefni í námskeiðinu Gagnrýni og ritdómar við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
[Myndskreyting ofan við grein: Sóley Stefánsdóttir]
[fblike]
Deila