Árið 2015 kom út 92. útgáfa Passíusálmanna og sú sjöunda á þessari öld. Mörður Árnason annaðist útgáfuna en Birna Geirfinnsdóttir sá um hönnun.
Hallgrímur PéturssonÍ doktorsriti sínu um Hallgrím Pétursson (1614–1674)[1] skýrgreinir Margrét Eggertsdóttir kveðskap Hallgríms sem barokk. Þannig tengir hún skáldskap Hallgríms við kveðskaparstrauma samtímans í Þýskalandi og á Norðurlöndum. Þegar hlýtt er á Passíusálmana fer ekki hjá því að hugurinn leiti til annars barokkmeistara, Johanns Sebastian Bach (1685 – 1750). Hallgrímur og Bach geta ekki alveg kallast samtímamenn en báðir sköpuðu verk út frá píslarsögunni á dögum hins evrópska barokks og verk beggja hafa lifað. Það skiptir litlu máli hver túlkar Bach, hvort það er John Eliot Gardiner ásamt Monteverdi kórnum eða Bobby Macferrin, það eina sem skiptir máli er að flutningurinn sé góður. Það sama gildir um kveðskap Hallgríms og ólíkan búning sem honum hefur verið búinn. Passíusálmarnir eru lesnir í kirkjum á föstu og það gera bæði leikarar og lesarar sem ekki hafa hlotið sérstaka menntun í þeirri grein. Varðveist hafa upprunaleg lög við sálmana og ný tónlist Megasar við þá hefur verið flutt margsinnis og notið mikilla vinsælda. Þeir Hallgrímur og Bach hafa þannig ekki lokast inni eða rykfallið á stalli, verk þeirra eru í stöðugri samræðu við samtíma sinn.
Passíusálmarnir
Crymogea, 2015
Bókaútgáfan Crymogea á heiðurinn af þessari nýju útgáfu Passíusálmanna. Forlagið, sem stofnað var 2007, hefur lagt áherslu á vandaða og glæsilega hannaða prentgripi. Meðal nýlegra bóka má nefna Íslensku teiknibókina í útgáfu Guðbjargar Kristjánsdóttur, en hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2013. Passíusálmar Crymogeu eru fallegur gripur og eigulegur eins og aðrar bækur þessa forlags. Bókin er í stóru broti en þó ekki þung. Hönnunin er látlaus og stílhrein, kápan svört, og á henni stendur aðeins: „Passíusálmarnir“. Meira þarf ekki að segja, allir vita við hvað er átt. Letrið er svart og rautt þar sem rauði liturinn er notaður til áherslu og dregur fram mikilvæga þætti í skýringunum. Hreinleiki og skýrleiki einkennir síðurnar en þó verð ég að viðurkenna að á stundum fannst mér síður og jafnvel heilar opnur aðeins of tómlegar. Nú eru í tísku litabækur fyrir fullorðna. Það hvarflaði að mér að það mættu fylgja með svartir og rauðir blýantslitir til þess að lesendur gætu fyllt upp í eyðurnar.
Í skýringum sínum og öðrum skrifum um sálmana tekst Merði að flétta saman fræðilega þekkingu og þægilegt samtal við lesandann.Á undan hverjum sálmi eru kaflar úr Historíu pínunnar eftir Johannes Bugenhagen (1485–1558). Oddur Gottskálksson þýddi bókina og kom hún út í Kaupmannahöfn 1558 og síðan í 2. útgáfu á Hólum 1596. Mörður notar útgáfu sem prentuð var á Hólum 1617, sem hluti af ritinu Guðspjöll og pistlar. Historía pínunnar er einmitt fyrirmyndin að textafrásögn Passíusálmanna og þannig eru sálmarnir settir í hugmyndafræðilegt samhengi samtímans. Skýringar fylgja hverju erindi og rækileg umfjöllun fylgir á eftir hverjum sálmi. Í skýringum sínum og öðrum skrifum um sálmana tekst Merði að flétta saman fræðilega þekkingu og þægilegt samtal við lesandann. Mörður hefur næma tilfinningu fyrir því sem lesanda gæti þótt forvitnilegt. Málfari 17. aldar eru gerð góð skil. Lesandinn fær svalað forvitni sinni um myndhvörf, rétttrúnað og Jesú helgast hjarta, en einnig hitastigið í helvíti, enduróm frá Hávamálum og norrænni lífspeki. Lesendur nútímans vilja fá eitthvað að vita um konur og kynhlutverk og um það efni er sérstakur kafli. Mörður bendir á að píslarsagan, og á þá væntanlega við eins og hún birtist í Passíusálmunum, sé fyrst og fremst saga karla. Konur eru yfirleitt baksviðs nema María við krossinn í 37. sálmi (Annað orð Kristí á krossinum). Í sálminum segir: „Sverðið sem fyrr nam Símeon spá / sál og líf hennar þjáði.“ Hér er vísað í spá Símeons í Lúkasarguðspjalli (2. 25 – 35). Honum hafði vitrast að hann myndi ekki deyja fyrr en hann sæi Messías. Honum hlotnast að sjá Krist nýfæddan þegar hann var borinn í musterið. Þá sagði hann við Maríu: „Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni.“ Um þennan spádóm hefur mikið verið ort. Þrettándu aldar sálmurinn Stabat mater dolorosa (Móðirin stóð sorgmædd [við krossinn]) hefur orðið viðfangsefni tónskálda öldum saman. Í kaþólskum helgikvæðum miðalda verður móðirin María táknmynd syrgjandi mannkyns og mikið gert úr þjáningu hennar. Algengt er að blóð hins krossfesta sonar hennar falli yfir hana alla og sameinist tárum hennar. Í Passíusálmunum er athyglinni fyrst og fremst beint að þjáningu Krists. Eins og Mörður bendir á, þá verður sorg Maríu fyrst og fremst „tilefni til að minna á virðingu við foreldra og hugga ekkjur“ (571). Um Jesú síðusár nefnist 48. sálmur. Líkt og í kaþólskum helgikvæðum fossar blóðið um krossinn, „dreyralækir“ öllu mannkyni til frelsunar, en tár Maríu eru þar hvergi nærri. Í kaþólskum helgikvæðum geta þau orðið jafn mikilvæg og blóð Krists.
Passíusálmarnir er vandaður prentgripur en einnig vel heppnuð leið til þess að koma þeim á framfæri við lesendur nú á dögumSkýringar Marðar eru fjölbreytilegar þar sem fjallað er jöfnum höndum um málsögu, bragfræði og hugmyndaheim. Þær eru fræðandi og upplýsandi og bæði þær og sálmarnir sjálfir halda vonandi áfram að vekja spurningar fræðimanna. Í bókarlok er gagnleg tafla um Hallgrím Pétursson, sögu hans og samtíð, greinargerð um heimildir, heimildaskrá, skrá um atriðisorð, eftirmáli og yfirlit athugagreina. Passíusálmarnir er vandaður prentgripur en einnig vel heppnuð leið til þess að koma þeim á framfæri við lesendur nú á dögum, eða öllu heldur samferðamenn. Valinn hefur verið smekklegur, nútímalegur búningur og umfjöllunin nær vel til lesandans. Þetta er bók sem er gaman að eiga og skoða heima í stofu. Passíusálmar Crymogeu eru falleg gjöf. En ég gæti líka hugsað mér meðfærilega kilju, með sálmunum og skýringum og hugleiðingum Marðar, og njóta leiðsagnar hans, til dæmis í strætó.
[line]
[1]Margrét Eggertsdóttir, Barokkmeistarinn. List og lærdómur í verkum Hallgríms Péturssonar, Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar, 2005.
[fblike]
Deila