
Hin árlega Japanshátíð Háskóla Íslands er orðin að föstum lið í skólaárinu og nýtur ætíð mikilla vinsælda. Nemendur og kennarar í Japönsku máli og menningu eyða miklum tíma og kröftum í undirbúninginn en það starf er bæði gefandi og árangursríkt, segir Gunnella Þorgeirsdóttir, lektor í japönsku. Hátíðin sé í raun hápunktur ársins í japönskunni og við undirbúninginn sameini allir krafta sína Það hristi hópinn saman og hafi afar jákvæð áhrif innan námsgreinarinnar.
Japanshátíðin verður haldin í tólfta sinn laugardaginn 30. janúar. Þar er gestum boðið að upplifa japanska menningu, hvort sem um er að ræða mat, tungumál, tísku, kvikmyndir, dans, tónlist, bardagalist, Origami, Manga, tölvuleiki eða klassíska te-seremóníu. Að viðburðinum koma einnig japanska sendiráðið og japanskir skiptinemar og allir hafa lagt nótt við dag í skipulagningu afar fjölbreyttrar dagskrár. Nemendur búa m.a. sjálfir til allar skreytingar og sjá um skemmtiatriði, dansatriði og tónlistaratriði, og liggja miklar æfingar þar að baki. Íslendingar af japönskum uppruna sjá svo yfirleitt um blómaskreytingar, sem eru afar mikilvægur þáttur japanskrar hámenningar og gefa, ásamt te-seremóníunni, innsýn í klassíska, japanska menningu.[/cs_text]

Gestir hátíðarinnar eru af öllu tagi; til dæmis fjölskyldur og menntaskólanemar sem hafa áhuga á námsgreininni. Gunnella segir að alltaf komi töluvert af börnum, enda nóg fyrir þau að gera. „Svo er bara hægt að setjast niður í rólegheitum, spjalla við nemendur og kynnast þannig japanskri menningu og hugmyndum.“
Hátíðin er öllum opin og stendur frá klukkan 13 til 17 laugardaginn 30. janúar. Hér má sjá facebook síðu hátíðarinnar.
[Ljósmyndir: Gunnella Þorgeirsdóttir][/cs_text]
Deila
