Gerður KristnýDúkka, nýjasta bók Gerðar Kristnýjar, er listilega myndskreytt af Lindu Ólafsdóttur. Allar myndirnar eru svartar og gráar blýantsteikningar, fyrir utan bókarkápuna sem er í dempuðum afbrigðum af grænum, gulum, rauðum, brúnum og gráum lit. Framan á kápunni stendur stúlka sem heldur á dúkku og í bakgrunni er gult blómaveggfóður sem einnig skreytir kápuna að innan en er þá svart og hvítt að lit. Þessi sömu blóm birtast svo fremst í hverjum kafla, þá öllu stærri en á veggfóðrinu. Þau eru grá og svört að lit, niðurlút, visin, lífsþreytt og þyrst. Titill bókarinnar er dreginn upp líkt og hann sé ofinn úr blómastilkum eða vafningsjurt og er sérlega drungalegur á að líta. Þetta er óvanalegur stíll fyrir barnabók en hentar sögunni vel. Í Dúkku skín sólin nefnilega aldrei skært – það er dimmt, kalt og blautt og ungar söguhetjurnar þurfa að kljást við alvarleg vandamál og töluverðar sorgir og þar leika dúkkur stórt hlutverk.
Dúkka
Myndir: Linda Ólafsdóttir
Mál og menning, 2015
Dúkkur hafa verið viðfangsefni rithöfunda, listamanna og kvikmyndagerðamanna áratugum saman en dúkkur, sem eftirmynd mannfólks, eiga sér langa sögu sem rekja má allt aftur til Forn-Grikkja, Rómverja og Egypta, ef ekki víðar og lengra aftur í tíma. Þær hafa verið notaðar í helgiathöfnum, í tengslum við galdra og sem leikföng. Vitað er að dúkkur voru notaðar sem leikföng í Grikklandi um 1000 árum fyrir Krist en nútíma dúkkuframleiðsla á rætur að rekja til Þýskalands á 15. öldinni. Þær hafa verið búnar til úr öllu mögulegu hráefni: Leir, stráum, við, postulíni og plasti svo fátt eitt sé nefnt og sumar eru jafnvel svo manneskjulegar að þær geta talað, opnað og lokað augunum, hreyft alla útlimi og sumar þurfa jafnvel að fara á klósettið. Dúkkur hafa birst í mörgum hryllingsmyndum og einn mesti óhugnaðurinn er þegar þær lifna við. Þær geta nefnilega verið ansi óhugnanlegar eins og ég komst að á dögunum þegar ég heimsótti leikfangasafn Pollocks í London. Þar ægir saman hinu og þessu dóti en í síðasta herberginu er allt yfirfullt af dúkkum héðan og þaðan úr heiminum. Þær eru misvel gerðar og varðveittar, úr hinu og þessu hráefni, en mér leið eins og þær væru allar að horfa á mig og var nokkuð viss um að þær hugsuðu ekki fallega til mín.
Dúkkurnar í bók Gerðar Kristnýjar eru hvorki brotnar, teygðar, togaðar eða eineygðar eins og sumar dúkkurnar á safninu. Nei, þær eru af allra fínustu sort, koma beint með flugi frá Japan og ganga fyrir alveg sérstökum batteríum. Í upphafi bókar fær aðalsöguhetjan, hin 10 ára Kristín Katla, að velja sér nýja dúkku í afmælisgjöf en að hennar sögn eru allar stelpurnar „vitlausar“ í þessar dúkkur, enda eru þetta ekkert venjulegar dúkkur eins og augljóst er af lýsingu hennar:
Dúkkurnar voru allar jafnstórar og náðu mér [Kristínu Kötlu] rétt upp að hné. Þær voru blíðar á svip og munnurinn, frosinn í brosi, var hálfopinn svo sást í hvítar framtennurnar. Það var hægt að velja um nokkra ólíka hárliti. Sumar dúkkurnar voru dökkhærðar, aðrar skolhærðar en svo fengust þær líka ljóshærða og rauðhærðar. Hárið var jafnsítt á öllum en misjafnt hvort þær voru með topp, slétt hár eða liðað. (bls. 5–6)
Það er augljóst strax frá upphafi að þótt dúkkan, sem fær hið fallega nafn Draumey, sé hönnuð og mótuð úr því allra flottasta í dúkkubransanum er hún ekki fallega innrætt. Lesandanum er þetta ljóst mun fyrr en Kristínu Kötlu og hann óttast að dúkkan muni vinna henni mein.
Skilaboðin eru þar af leiðandi sú að það er stúlkan sem á að vera eins og dúkka, ekki öfugt.Dúkkurnar eru seldar undir því yfirskyni að hver og ein stúlka geti valið sér dúkku sem líkist henni sjálfri sem mest. Dúkkueigendur eru síðan hvattir til að skrá dúkkurnar á heimasíðuna dúkka.is og þaðan berst eigendum reglulega uppbyggileg og jákvæð skilaboð eins og „Settu sjálfa þig alltaf í fyrsta sæti!“, „Vertu þú sjálf!“ og „Þú stjórnar líðan þinni!“ Sannleikurinn er hins vegar sá að dúkkurnar virðast ræna eigendur öllum vilja, gleði, sjálfstæði og þori. Stúlkurnar einangrast og vilja ekki taka þátt í lærdómi eða leik með öðrum. Þær breytast líka í útliti, verða sífellt líkari dúkkunum, og raunar svo mjög að lífið virðist vera að fara úr þeim. Yfirskriftin í leikfangabúðinni, fyrir ofan hillu sem er úttroðin af dúkkum, virðist komast næst sannleikanum en þar stendur: „VELDU BESTU ÚTGÁFUNA AF SJÁLFRI ÞÉR“ (bls. 6). Skilaboðin eru þar af leiðandi sú að það er stúlkan sem á að vera eins og dúkka, ekki öfugt. Samhliða þessari draugalegu sögu af (hálf)lifandi dúkkum og stúlkum er fjallað um sorg Kötlu Kristínar, móður hennar og bróður en stutt er síðan fjölskyldufaðirinn lést í bílslysi – slysi sem Katla Kristín kennir sjálfri sér um. Það er því ekki aðeins svo að hún sakni föður síns heldur telur hún sig bera ábyrgð á dauða hans og það er ansi þungur kross fyrir litla manneskju að bera. Sem betur fer endar Dúkka þó með sigri hins góða. Fjölskyldan fer að vinna saman úr sorginni og Kristín Katla og lesendur bókarinnar læra að það er best að vera maður sjálfur, að lykillinn að hamingjunni er í okkar eigin höndum, gott sé að sýna hugrekki og ekki hugsa um það sem við getum ekki breytt – en þessi vísdómsorð er að finna í skilaboðum frá dúkku.is, eins öfugsnúið og það nú er.
… það er ansi flókið að skrifa hæfilega draugalega bók fyrir börn og sömuleiðis að skrifa um sorg og missi án þess að fara yfir strikið.Dúkka er bæði draugaleg og sorgleg saga og það er ansi flókið að skrifa hæfilega draugalega bók fyrir börn og sömuleiðis að skrifa um sorg og missi án þess að fara yfir strikið. Hvoru tveggja tekst Gerði Kristnýju af mikilli lagni í einni og sömu bókinni, sem hlýtur að teljast töluvert afrek. Í öllum barnabókum sínum, og Dúkka er þar engin undantekning, sýnir Gerður Kristný ungum lesendum sínum mikla virðingu sem birtist skýrt í því hvernig hún ávarpar lesendur sína og hversu mikla rækt hún leggur við textann sem er blæbrigðaríkur og fallegur. Í sögum hennar er aldrei að finna það sem bókmenntafræðingurinn Barbara Wall kallar „tvöfalt ávarp“ en þá beinir sögumaður hvað eftir annað orðum sínum til hins fullorðna lesanda og fullvissar hann um uppeldislegt gildi bókarinnar. Gerður Kristný fer vel með „einfalt ávarp“ þar sem höfundurinn talar á einlæglegan hátt til ungra lesenda sinna. Slíkar bækur geta þó orðið yfirborðslegar og allra bestu barnabókahöfundarnir eru lagnir við að sameina tvöfalt og einfalt ávarp í „tvíþættu ávarpi“ og tala bæði til barna og fullorðinna í einu, og á tveimur eða fleiri plönum. Í þessu liggur helsti styrkur þessarar fallegu bókar sem gerir það um leið óþarft að lýsa óhugnaðinum í alltof miklum smáatriðum. Það er ýmist gefið í skyn og látið ósagt varðandi hinar hræðilegu dúkkur sem eldri lesendur átta sig á og sjá eflaust fyrir sér en óreyndari lesendur ekki – og geta fyrir vikið lagst sæmilega rólegir á koddann um kvöldið.
[fblike]
Deila