Á vefsíðunni Hrunið þið munið má finna margvíslegt efni um bankahrunið 2008 og enn er verið að leggja inn í þennan „hrunbanka“, segir Guðni Th. Jóhannesson, dósent við Sagnfræði- og heimspekideild, í viðtali við Hugrás. Hann telur það skyldu háskólasamfélagsins að miðla upplýsingum af þessu tagi og að rannsóknir á hruninu eigi brýnt erindi við almenning.„Hrunvefurinn, Hrunið, þið munið, varð til eftir að við Jón Karl Helgason prófessor höfðum haft námskeið um hrunið frá tveimur ólíkum hliðum. Hann einbeitti sér með nemendum sínum að hruninu í bókmenntum, það er hvernig skrifað hefur verið um bankahrunið 2008 í skáldsögum, ljóðum, leikritum og annarri tjáningu af því tagi. Ég horfði hins vegar til atburðanna sjálfra og reyndi að greina þá með nemunum sem komu úr hinum ólíkustu greinum. Hluti vinnunnar í námskeiðunum fólst í því að skrifa samantektir um rit eða eitthvað annað þar sem hrunið kom við sögu. Nemendur Jóns Karls tóku fyrir bókmenntirnar en nemendur mínir tóku fyrir fræðirit, endurminningar og fleira þar sem hruninu er lýst. Að frumkvæði Jóns Karls verður svo þessi vefur til.“
Þetta hefur verið afar frjór jarðvegur og frá honum hefur sprottið aragrúi skrifa á ólíkustu sviðum háskólasamfélagsins.Guðni segir að mesta vinnan í sambandi við vefinn hafi legið á herðum Jóns Karls og Markúsar Þórhallssonar meistaranema í sagnfræði. Það sé eðli svona fyrirbæris að vera í stöðugri mótun, enda erfitt að njörva niður hvað séu hrunbókmenntir og hvað ekki, hvaða fræðigreinar um íslenskan samtíma snúast um hrunið og hverjar ekki. „Við sáum fljótt að ekki var nokkur leið að tæma brunninn og segjast hafa fjallað um allt sem sagt hefur verið um hrunið frá því að það dundi yfir 2008. Þetta hefur verið afar frjór jarðvegur og frá honum hefur sprottið aragrúi skrifa á ólíkustu sviðum háskólasamfélagsins. Nú höfum við snúið okkur til kolleganna og spurt þá: Hvaða greinar hafið þið birt eða vitið af sem snúast um þetta efni? Þannig hefur verið lagt inn í þennan hrunbanka okkar og það mun verða gert áfram. Hann mun vaxa og dafna og er þetta góður banki. Það er hægt að taka úr honum og leggja inn í hann, en hann fer aldrei á hausinn.“
Markmiðið er að á vefsíðunni verði hægt að finna á einum stað upplýsingar um það sem sagt hefur verið og skrifað um hrunið, alveg frá því að það brast á. „Þetta er bæði sjálfsagt og eðlilegt í nútímasamfélagi. Það er skylda okkar í háskólasamfélaginu að miðla, rétt eins og það er skylda okkar að rannsaka, og þarna á fróðleiksfús almenningur að geta fundið á einum stað upplýsingar um eitthvað sem fólk vill vita meira um. Við erum ekki að velta okkur upp úr hruninu. Því hefur verið haldið fram að Íslendingar þurfi að horfa fram á veginn, gerast bjartsýnir, og hætta að velta sér upp úr þessu hruni endalaust – „þið eru bara hrunmangarar“ hef ég heyrt sagt um okkur sem höfum áhuga á þessu áfalli sem dundi yfir. „Hrun, hvaða hrun, hér er allt í blóma“, heyrist líka sagt stundum og að þetta hafi nú bara verið smá áfall sem hafi verið útlendingum að kenna og best sé að hætta að pæla í þessu. Ég, Jón Karl og Markús erum innilega ósammála þessu og sannfærðir um að gagn hrunvefsins sé alveg skýrt.“[/x_text]
Deila