Það gustar á köflum kröftuglega í nýrri ljóðabók Kristínar Svövu Tómasdóttur Stormviðvörun. Þegar best lætur eru ljóð hennar kröftug og ágeng en á köflum blása mildari vindar og einstaka sinnum er jafnvel hálfgerð ládeyða.
StormviðvörunKristín Svava er gagnrýnin á samfélag nútímans, en ekki útfrá einhverri upphafinni þáþrá heldur þvert á móti. Hömluleysi nútímans er dregið jákvæðum (en þó írónískum) dráttum sem mótvægi við þröngsýni, hneykslunargirni og hefðir. Þetta hefur einkennt ljóð Kristínar Svövu frá fyrstu bók hennar Blótgælum (2007). Neyslusamfélagið og ofgnótt þess er ekki beinlínis upphafið, en það er uppspretta krafts sem sprengir viðjar.
Kristín Svava Tómasdóttir
Bjartur, 2015
Fyrsta ljóð bókarinnar, „Böbblí í Vúlvunni“, sýnir þetta vel. Tilvitnun í Eið Guðnason, sem er duglegur að tjá sig á netinu um málfar í fjölmiðlum, dregur athyglina að þessum hneykslunartón sem svo algengur er í umræðunni, þar sem það að agnúast út í það hvernig aðrir komast að orði felur í sér gildisdóma um þann sem tjáir sig. Hneykslistónn Eiðs í lýsingu hans á slettu fréttamanns fer ekki fram hjá neinum en það sem skiptir kannski meira máli er að þetta leiðir til þess að Eiður kallar fréttamanninn „stúlkutetur“, sem er bæði yfirlætisfullt og ber vott um kvenfyrirlitningu. Því fagnar ljóðið sem fylgir kynjaðri neyslumenningu, „kvenlegu[m] dekadens“(7) eins og Kristín Svava orðar það. Ef ekki væri fyrir tilvitnunina lægi beinast við að lesa myndina sem dregin er upp af konum að neyta sem gagnrýni, ekki síst vegna þess hvernig er blandað er saman hugtökum úr fyrirtækjarekstri og neyslu, en undir lok ljóðsins er orgían algjör og mergjuð orðanotkun Kristína Svövu nýtur sín til fulls:
elskum þetta drasl þetta djönk þetta plast
kófheita pólýesterkrókódílabúninginn
blikkandi jólaseríur og gerviblóm
elskum þennan efnisheim
þessar gömlu vídeóspólur
nammibarsnjálginn og blautt malbik
elskum þessa ofgnótt
elskum þessa siðmenningu og frumstæðar hvatir hennar
v(ið)erum ekki hreinlynd
vonum að heimurinn tortímist í neistaflugi frá millistykkinu (8)
Siðmenning samtímans byggist á frumstæðum hvötum og það væri hræsni að halda öðru fram.
Í ljósi þeirrar gagnrýni á hneykslunargirni fólks sem felst í tilvitnuninni og ljóðinu sem fylgir er þó áhugavert að Kristín Svava segir í viðtali í Fréttatímanum að upphafið að einu besta ljóðinu í bókinni „Ég dreg mörkin“ hafi verið orð sem einhver ónefnd kona lét falla í umræðum á netinu. Konan staðhæfði, samkvæmt Kristínu Svövu, að hún drægi ákveðin mörk um hvað mætti segja og hvað ekki. Þetta fannst Kristínu Svövu út í hött, þ.e. að einhver teldi sig umkominn að draga siðferðismörk fyrir aðra, og þaðan sprettur ljóðið.[1] Ljóðið endurtekur frasann „ég dreg mörkin“ og svo fylgja ýmiss atriði sem eru sum persónuleg, önnur siðferðisleg og enn önnur pólitísk en vísa öll í orðræðu samtímans:
ég dreg mörkin
við sjósund
ég dreg mörkin
við þriðja betlarann
ég dreg mörkin
við slæður
(31-32)
Ljóðið má því túlka sem lýsingu á fáránleikanum sem felst í því að draga einhver óhagganleg mörk án tillits til samhengis. Það er ákveðin írónía falin í þessari tilurðarsögu því að hún lýsir því í raun hvernig Kristín Svava hneykslast á tiltekinni konu út frá orðum hennar. Það er þó grundvallarmunur á viðbrögðum Kristínar Svövu og Eiðs. Hún nýtir hneykslun sína sem uppsprettu ljóðs sem fjallar almennt um siðferðisdóma í stað þess að fella gildisdóm um einstakling.
Þó að mörg af bestu ljóðum bókarinnar séu gagnrýnin og írónísk, en það hafa verið aðalsmerki Kristínar Svövu sem ljóðskálds, þá er eitt af bestu ljóðum bókarinnar mun persónulegra og lágstemmdara. Í ljóðinu „Austurvöllur á kistulagningardaginn“ tekst Kristínu Svövu að draga upp jákvæða og fallega mynd af reykvískum sumardegi, sem er sönn, en felur í sér sorgina sem titillinn ber með sér á fínlegan hátt. Sorgin er gefin í skyn í línum eins og þessum um mitt ljóðið: „Það er svo hlýtt. Það er engin leið að klæðast svörtu. Það er engin leið að vera inni í rökkrinu.“(27) Þar sem heildarmynd ljóðsins er Austurvöllur á sumardegi verður meðvitundin um Dómkirkjuna í bakgrunni sterkari og gerir margræð lokaorð ljóðsins áhrifameiri: „Gleðin er núna. / Sólin skín og / ekkert vantar.“ (27) Sorgin verður dýpri og áhrifameiri einmitt vegna þess að hún er leynist innan um hið fagra og bjarta.
Ljóðin í Stormviðvörun eru mislöng. Stuttu ljóðin hverfast gjarnan um einfalda hugmynd eða orðaleik eins og til dæmis ljóðin „Passé“ og „Gróðurhús“. Þessi styttri ljóð eru yfirleitt ekki jafn kröftug og hin lengri, sem nýta endurtekningar og meitlaða orðgnótt (eins þversagnakennt og það kannski hljómar) til að skapa kraftmiklar myndir og hafa oft til að bera öfluga gagnrýni. Kristín Svava sagði um eigin stíl í viðtali vegna annarrar ljóðabókar sinnar, Skrælingjasýningarinnar (2011): „ Ég held að sá tónn sem birtist í þessum verkum sé mér nokkuð eðlislægur.“[2] Þennan tón má enn sjá í mörgum ljóðum Stormviðvaranna en í styttri ljóðunum er hann ekki jafn áberandi. Þau eru í raun dæmigerðari fyrir íslenska ljóðagerð samtímans og þrátt fyrir að vera oft skondin eða hafa til að bera skemmtilegt myndmál þá eru þau ekki jafn sérstök og þau sem eru í samræmi við þann stíl sem hefur einkennt ljóð Kristínar Svövu. Kannski eru styttri ljóðin skiljanleg tilraun Kristínar Svövu til að þróa ljóðmál sitt og forðast að festast í einum tjáningarhætti. En mér finnst það ekki takast nógu vel, kannski vegna þess að Kristín Svava er að reyna að nota form sem er henni sem skáldi ekki eðlislægt?
[1] Kristín Svava Tómasdóttir, „Óskar eftir ásökunum um klám“, viðtal eftir Friðriku Benónýsdóttur, Fréttatíminn, 11. september 2015.
[2] Kristín Svava Tómasdóttir, „Fínpússaðir skrælingjar“, viðtal eftir Bergstein Sigurðsson, Fréttablaðið, 5. maí 2011.[/x_text]
Deila