Menn sögðu það um Sókrates….

[container]

Ég hlakkaði til eins og barn að sjá Sókrates, nýtt verkefni eðaltrúðanna Bergs Þórs Ingólfssonar og Kristjönu Stefánsdóttur en með þeim eru nýir trúðar; Maríanna Clara Lúthersdóttir og Kristín Þóra Haraldsdóttir.
Síðustu dagar Sókratesar

Sýningin er byggð upp kringum síðustu daga Sókratesar. Hann var eins og kunnugt er dæmdur til dauða fyrir að spilla æskulýðnum í Aþenu og grafa undan trú á guðina. Eftir réttarhöld bað Sókrates kviðdóminn að hlusta á sannleikann en ekki slúðrið (samkvæmt Platon) en ekki dugði það til og hann var dæmdur til að drekka eitur eða í raun dæmdur til að fremja sjálfsmorð. Um kenningar Sókratesar vita menn ekkert annað en það sem Platon og Xenofon, nemendur hans, lögðu honum í munn því ekkert skrifaði Sókrates sjálfur. Aðferð hans var sú að leiða röksemdir nemendanna áfram með spurningum og láta þá sjálfa komast að réttri niðurstöðu. Þegar hann dó voru áhrif hans á nemendur sína það eina sem stóð eftir.

hugras_sokrates2
Ljósmynd: Grímur Bjarnason
Eitraður leiðangur

Bergur Þór og Kristjana gera óperu úr þessu efni. Kristjana á, sem trúðurinn Bella, hluta í hjarta manns eftir Jesú litla og hún semur tónlistina sem er verulega áhugaverð, samsett úr margs konar stíltegundum frá rappi til söngleikja til barokks. Kristjana er stórkostleg söngkona og allur hópurinn söng raunar mjög vel.
Bergur Þór er skrifaður fyrir textanum og hann nálgast þetta fræga efni úr óvæntri átt. Annars vegar eru Sókrates, kona hans, hin úthrópaða Xanþippa, og „sonur þeirra“ en hins vegar leika tveir áður óþekktir hermenn mjög stórt hlutverk. Það felst í að flytja eitur Sókratesar yfir Miðjarðarhafið. Það reynist hin mesta svaðilför og gengur á ýmsu.
Maríanna Clara leikur Pásanías bandingja, harðan, mannúðarlausan gaur sem er „bara að vinna vinnuna sína“ og skýtur sér fimlega undan allri ábyrgð. Hinn hermaðurinn, Patróklos hlekkingi, er leikinn af Kristínu Þóru. Hann er einfaldur maður sem lætur Pásanías um pælingarnar. Það er mjög skemmtilegt að það skuli einmitt vera hann sem lærir og breytist mest við þetta óhugnanlega verkefni og það sem því fylgir. Hann lendir í „þvílíkum tilvistarspurningum“ sem leiða hann áfram uns hann skilur að hann getur ekki lokað eyrunum og afneitað ábyrgð sinni og þannig verður hann nemandi Sókratesar í raun – sá sem skilur að maðurinn verður að standa undir vilja sínum og vali. Kristín Þóra lék þessa týpu svo vel að það var hrein snilld.[/container]

Ljósmynd: Grímur Bjarnason

[container]

Húmor og hugmyndauðgi

Trúðaóperan Sókrates fjallar um knýjandi spurningar um mannleika okkar. En það þarf ekki endilega að gera það með einhverri skeifu. Sýningin var fjörug, fyndin og aldeilis ótrúlega hugmyndarík í leikstjórn Rafaels Bianciotto. Egill Ingibergsson afmarkar leikmyndina með hring sem er afgirtur með færanlegum stöngum. Þessi hringur varð hús Sókratesar, miðjarðarhafið, Aþena o.s.frv. Búningar Stefaníu Adolfsdóttur voru fyndnir og frumlegir og leikgervi Elínar S. Gísladóttur sömuleiðis. Það er lykilatriði í að afmarka persónur skýrt þar sem sömu leikarar fara með mörg hlutverk. Þetta var sem sagt flugeldasýning af skemmtilegum leiklausnum. Fíngerðari lausnir með ljós og skugga drukknuðu svolítið í stuðinu en aðrar munu seint gleymast eins og leikur Bergs Þórs í hlutverki hákarls.
Sýningin er mikið brotin upp í litlar uppákomur. Tengsl einstakra atriða við söguþráð eða þema eru stundum losaraleg og stundum var erfitt að sjá hvert beint samband við áhorfendur og spunakaflar stefndu. Það á væntanlega eftir að slípast og agast í sýningarferlinu.

hugras_sokrates4
Ljósmynd: Grímur Bjarnason

Silja Aðalsteinsdóttir lýsir trúðleiknum vel þegar hún segir að leikarinn sé í hlutverki trúðsins og trúðurinn í hlutverkum leikritsins og því geti hann hvenær sem er stokkið út úr hlutverki sínu og spurt eins og barn: Var ég ekki góður? Þetta er mikið notað í sýningunni og tvöfeldni trúðsins getur bæði stutt það erindi sem hún virðist vilja eiga og grafið undan því. Öfugt við fyrri sýningar trúðanna Dauðasyndirnar og Jesús litla er ekki auðvelt að svara spurningunni um hvert sé markmið sýningarinnar.

Það leyndi sér samt ekki að boðskapur sýningarinnar og trúðanna góðu um að faðmlagið sé til alls fyrst snerti við tilfinningum hrifinna áhorfenda.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar


[fblike]


[/container]