Að leiðarlokum

About the Author
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[x_text style=”max-width: 650px;”]Endatafl eftir Írann Samuel Beckett er eitt af áhrifamestu leikritum eftirstríðsáranna. Það var skrifað á frönsku en frumsýnt í London árið 1957 og fangar stemningu eftirstríðsáranna meistaralega. Beckett dó árið 1989 en áður hafði hann lagt blátt bann við öllum breytingum á verkum sínum, að fylgja því er skilyrði fyrir að fá að setja verk hans upp. Það verður að fara eftir nákvæmum sviðsleiðbeiningum, það má ekki stytta og ekki breyta. Reiður leikdómari sagði að þó Endatafl hefði verið efst á vinsældalistanum árið 1957 væri verkið orðið steingervingur, hin dauða hönd Beckett hvíldi á því og ný kynslóð gæti ekki einu sinni skilið textann. Þvílíkur narcissismi! Eins og ekkert geti skipt máli nema ÉG segi það!

Það er alveg sjálfsagt að hver kynslóð leikhússfólks setji mark sitt á sígild verk og skilji þau sínum skilningi en sum verk eru þannig að þú breytir þeim ekki – þau breyta þér. Það er heldur ekki rétt að listafólk geti ekkert gert annað en fylla upp í reitina á þeirri mynd sem Beckett vildi láta mála. Frekar ætti að líta á skákmyndmálið, sem verkið tekur nafn sitt af, og segja að sá sem teflir við meistara þurfi að hafa til að bera umtalsverða hæfni til þess að komast í endataflið.

Lífið og dauðinn

Verkið Endatafl hefur verið túlkað sundur og saman og skrifaðar um það lærðar ritgerðir svo nemur hillukílómetrum. Það er engin furða því að leikritið ögrar bæði tilfinningum og vitsmunum áhorfenda. Texti þess er mjög hlaðinn og Það er skáldið Sigurður Pálsson sem hefur uppfært þýðingu Árna Ibsen og hér hefur verið nostrað við minnstu smáatriði.

Sviðið sýnir stórt, autt og óhrjálegt rými með tveimur gluggum á veggjunum sitt hvoru megin, háan stól fyrir miðju sviði, tvær ruslatunnur hlið við hlið framarlega á sviðinu. Þetta gæti verið skip, kannski dárafley, því að gluggarnir eru kýraugu. Sviðsmynd var Kristínar Jóhannesdóttur, leikstjóra. Út um annan gluggann sést gróðurlaust land, útum hinn sést hafið og það er ekkert líf, þetta er landslag eftir einhvers konar umhverfisslys og verði vart við eitthvað lifandi innan dyra, fló eða rottu, drepur Clov það strax svo það fjölgi sér ekki.

„Búið, það er búið, næstum búið, það hlýtur að vera næstum búið.“ Þetta er dásamleg setning sem rúmar merkingu alls verksins. Hún byrjar á staðhæfingu um að lífinu sé lokið en tekur þá staðhæfingu strax aftur vegna þess að allar þessar óhrjálegu og óhamingjusömu mannverur halda fast í lífið þó þær þrái dauðann.
Trúðurinn, þjónninn, sonurinn Clov (Þór Túliníus) tekur á móti skipunum húsbónda síns Hamm (Þorsteinn Bachmann) sem situr í stól fyrir miðju sviði. Í ruslatunnunum búa eldri borgararnir þ.e. foreldrar Hamm, Nell (Harpa Arnardóttir) og Nagg (Stefán Jónsson). Þetta eru persónur og leikendur Endatafls, tengslin milli persóna eru afar flókin, kannski er hægt að líma saman sögu úr sögunum sem Hamm segir, en ættartré eða forsaga bætir svo sem engu við þetta verk, fortíðin skiptir ekki máli heldur spurningin um hvort nú-ið gerir það.

Það er engin framvinda í verkinu (þá væri það ekki eftir Beckett) heldur fáum við að vita að lífið á þessum stað hefur byggst á stöðugri endurtekningu þó nú kunni að vera komið að hvörfum. Fyrstu setninguna segir Clov: „Búið, það er búið, næstum búið, það hlýtur að vera næstum búið.“ Þetta er dásamleg setning sem rúmar merkingu alls verksins. Hún byrjar á staðhæfingu um að lífinu sé lokið en tekur þá staðhæfingu strax aftur vegna þess að allar þessar óhrjálegu og óhamingjusömu mannverur halda fast í lífið þó þær þrái dauðann. Þær lifa ekki til neins og líf þeirra hefur enga merkingu en þrátt fyrir það geta þessar persónur skemmt sér yfir ýmsu, sagt sögur og farið í leiki. Lífsvilji Clov fær hann til að gefa aldrei upp vonina um að Hamm sjái hann og meti að verðleikum en það verður aldrei. Hamm er blindur, lamaður og háður Clov um allt stórt og smátt en fyrirlítur hann og svívirðir. Dreptu mig, segir hann og þjónninn glottir undirfurðulega.

Sjónarspil

Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur og förðun Kristínar Thors eru saga til næsta bæjar. Búningur Hamm var afar litríkur og hugmyndaríkur og minnti á austurlenskan keisara í silkisloppi sínum með fjaðrakraga um hálsinn sem minnti á Afríku og eitthvað við hann minnti mig á hinn uppstoppaða Jeremy Bentham, sitjandi í stól sínum í University Collage of London. Þorsteinn lék hann af virðulegum myndugleika – eftir aðstæðum. Þjónninn Clov er í senn brjóstumkennanlegur og margfaldur í roðinu. Hann hatar og elskar húsbónda sinn, nýtur þess valds sem hann hefur yfir honum en hatar varnarleysi sitt í samskiptum þeirra. Við sjáum blandast saman slægð og reiði og óteljandi tilfinningar sem Þór tjáir undirfurðulega, leikur hans einkennist af mikilli nákvæmni. Sama má segja um Stefán Jónsson í hlutverk hins gamla Nagg sem er margræð persóna, aumkvunarverð og ömurleg en líka alveg morðfyndin. Gervi hans var þannig að maður greip andann á lofti þegar hann birtist. Harpa Arnardóttir í hlutverki Nell bókstaflega líkamnaði baráttu hennar við að lifa þegar dauðinn er að toga sálina yfir strikið. Gervi hennar var sömuleiðis fantaflott – hún bar þess enn merki að vera glæsikvendi þó hún byggi tímabundið í öskutunnu.

Lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar var afar áhugaverð. Lýsingin var djörf, gul eins og á gömlum ljósmyndum, síðan grá og svo í lit og undirstrikaði tímaleysi og fáránleika þeirrar tilvistarspurninga sem spurt er hér. Utan um allt þetta hélt Kristín Jóhannesdóttir styrkri hendi. Þessi uppfærsla var stórglæsileg, enn einn sigurinn í röð eftirminnilegra sýninga hennar.[/x_text]

[x_text class=”right-text “]

[fblike]

[/x_text]

Deila