[container]
London er dásamleg borg! Og eitt af því besta við hana er leikhúslífið. Ekki svo að skilja að allt sem maður sér þar sé betra en leikhúsið hér, því fer fjarri. Ég held að það besta í leikhúsum hér sé alveg á pari við það besta hér – en í London er fjölbreytnin meiri, leikhópar og leikstjórar fá tækifæri til að þróa persónulegan stíl eins og hópurinn 1927 sem talað verður um hér á eftir.Við sáum tvær áhugaverðar sýningar í London um jólin, sú fyrri heitir Tiger country í Hampstead Theatre. Hún skartar úrvals listamönnum. Nina Raine er höfundur og leikstjóri verksins sem var frumsýnt fyrir þremur árum í Hampstead Theatre með litlum framleiðslukostnaði. Verkinu var vel tekið og er því sett upp aftur núna með frægari leikurum og meira lagt í sýninguna.
Heilsugæsla riðar til falls
Tiger country fjallar um lækna, starfsvettvang þeirra og líf. Það er mjög brýnt umræðuefni í Bretlandi, þar er heilsugæslan við hættumörk útaf álagi og niðurskurði og ekki laust við að það hljómi kunnuglega hérlendis. Alls staðar virðist sama umræðan og sömu vandamálin á döfinni. Nafn verksins, segir höfundurinn, er hluti af fagmáli skurðlækna um hættusvæði í mannslíkamanum þar sem sérlega erfitt er að skera vegna þess hve þétt æðar liggja. Nafnið vísar líka til þess að sjúkrahúsin geta orðið grimm átakasvæði þar sem enginn er annars bróðir í leik.
Önnur aðalpersóna verksins er ungur og fallegur kandídat, Emilía (Ruth Everett), sem er alveg að springa af hugsjónum og gleði í upphafi verks. Hún er vel menntuð og vill nýta þekkingu sína til að lækna og líkna sjúklingum. Hún hefur tilfinningu fyrir öðru fólki og hlustar á sjúklinga en hún skilur ekki rekstur sjúkrahússins, skilur ekki hvernig „kerfið“ skýtur sér undan öllu sem það getur og skýlir sér á bak við skriffinnsku og reglur. Sjálf er hún samviskusamari en hún hefur gott af.
Kærasti Emelíu, sem er skurðlæknir á sama sjúkrahúsi, segir: „Sjúkrahúsin eru ekki staður fyrir fullkomnunarsinna.“ Annar samstarfsmaður segir: „Þú verður aldrei skurðlæknir. Eftir sex mánuði verðurðu komin í heimilislækningar.“ Í því felst sú trú sjúkrahússlækna að heimilislæknum takist oftar en þeim að varðveita einkarými sitt og geðheilsu.
Hin vitundarmiðjan í leikritinu er Vashti (Indira Varma) sem er glæsileg, hrokafull og hörð af sér. Hún trúir alls ekki á þá hópvinnu sem sjúkrahúsin byggjast á en segir kuldalega að hópvinna gangi út á að fela hver beri ábyrgðina. Henni sé dreift í orði kveðnu og mönnum þannig séð fyrir samtryggingu, sem alltaf verði til ills. Vashti er óvinsæl en henni er sama á meðan hún ræður.
Vashti leggur gamla, indverska frænku sína inn og fer sjálf á ráðstefnu. Það á að gera á frænkunni minni háttar aðgerð en mistök eru gerð og ekki viðurkennd. Læknirinn er hærra settur en Vashti. Hún ákveður þá að færa gömlu konuna á annað sjúkrahús til að bjarga henni, vitandi að þetta er endirinn á hennar eigin framaferli út af því samtryggingarkerfi sem hún er svo ósátt við. Enginn rís gegn valdakerfi sjúkrahússins á þennan hátt.
Leikritið er brotið upp í fjölmörg atriði og keyrt af miklum hraða, sérstaklega framan af. Áhorfendur sitja sitt hvoru megin við sviðið sem er opið, óupphækkað, með bláum gólfdúki og nær út að áhorfendainngangi. Þetta er sjúkrahússrými sem breytist hratt í sjúkrastofu, skurðstofur, setustofu lækna og minni rými sem eru afmörkuð með ljósum og verða skrifstofur, herbergi Emelíu o.s.frv. Þessi stöðugu uppbrot eru falin með tónlist og dansi en valið á tónlist var sérviskulegt og jafnvel þversagnakennt (frá indverskum harmljóðum í hip hop) og dansinn misvel útfærður. Hvorugt styrkti sýninguna eða tengdist persónum og atburðum. Það kann að hafa orkað tvímælis að höfundurinn leikstýrði eigin verki. Utanaðkomandi leikstjóri hefði trúlega stytt verkið því að það var rúmur tveir og hálfur tími í sýningu.
Þetta leikrit er afskaplega vel skrifað og persónusköpun sterk. Það er ljóst að læknar færa miklar persónulegar fórnir í starfi sínu. Ekki án kröfu um endurgjald í peningum og virðingu, það er eitt sem víst er, en ábyrgð þeirra er líka mikil og stundum þungbær. Læknir nokkur sem skrifar mjög áhrifamikla hugleiðingu um starf læknisins í leikskrá segir að í það sé eins og rotta hafi nartað í sálina ef læknir veit að hann hefur aukið við þjáningar sjúklings vegna vanrækslu, kæruleysis eða einfaldlega þreytu. Þarf að segja meira?
Skrímsli
Hitt leikritið sem við sáum var flutt af leikhópnum „1927“ í Young Vic. Við höfðum áður séð verk eftir þann hóp í merkilegri og nú býsna frægri sýningu sem hét „The Animals and Children took to the Streets“ árið 2012. Hverrar nýrrar sýningar frá hópnum er beðið með eftirvæntingu. Hópurinn byggir á tekur útgangspunkt í hinni frægu sögu Gustav Meyrink Der Golem frá 1915 um tékkneskan kaupmann sem býr til leirmann, gefur honum líf með töfrum og hefur fullkomið vald yfir þessari sköpun sinni til góðs og ills.
Paul Barett er „animator“ verksins og Susan Andrede skrifar og leikstýrir. Með þeim er lítill, þéttur hópur listamanna sem vinnur af pólitískri ástríðu, bæði hugmyndalega og fagurfræðilega. Sviðsverk þeirra eru ákaflega sjónræn, leikararnir syngja, leika og dansa á móti bakmynd eða teiknimynd, listformum er blandað svo að úr verður kraftmikil heildarmynd.
Margir hafa notað sjónræna miðla í leikhúsum en hér er um að ræða samvinnu texta og myndar frá upphafi. Um leið byggir svo stílfært leikhús og sérkennileg leikaðferð ekki á sálfræði, persónusköpun og tilfinningalegri samsömun heldur fyrst og fremst á hugmyndum og skoðunum. Megininnblástur sinn sækir leikhópurinn í módernisma þriðja áratugarins eins og nafn hans ber með sér og Brecht svífur yfir vötnunum.
Paul Barrett segir í viðtali að þau hafi fljótt ákveðið að sleppa töfrum og hinu yfirskilvitlega og dularfulla við Golemsöguna tékknesku en halda samfélagslegri vísan hennar. Hjá þeim varð hún að táknsögu um þann áleitna draum vestræna velferðarsamfélagsins til að hægt sé að búa til vélmenni, vélar sem sjá um alla vinnuna fyrir okkur svo að við sem stjórnum þeim getum átt náðuga daga. Sú hætta sem steðjar að nútímamanninum er hins vegar ekki sú að vélarnar verði mennskar heldur að mennirnir verði að vélum, segir Barrett.
Systkinin Anne og Robert búa hjá ömmu sinni og þar býr einnig „nörd“ sem býr til fyrsta gólemið eftir pöntun frá „anda“ markaðsins. Fyrsta gólemið er skapað úr leir, stór og grófur karl, sem lýtur stjórn Roberts. Gólemið horfir á sjónvarpið, talar þegar því er sagt það og smám saman byrjar það að sannfæra Robert um að hann vanti ónauðsynlega hluti. Snillingurinn endurbætir uppgötvun sína og næsta útgáfa er minni, létt, ofvirk og æst. Hún er snögg að vinna vinnu Róberts og hann gerir það sem hún segir honum að gera, ef ekki fyrr þá síðar. Þriðja uppfærslan af gólemunum er einföldust í notkun því að hún er grædd inn í höfuð fólks og stýrir því þaðan til að leita hámarksþæginda í neysluparadísinni, allir stjórnast af markaðsvæddri einstaklingshyggju. Í verkinu beinir leikhópurinn 1927 spjótum sínum fyrst og fremst að neyslusamfélagi vestrænna samfélag og ekki ætla ég að kvarta yfir því en táknsagan varð full langdregin því að einnig hún var tveir og hálfur tími – án hlés.
Maður hefði nú ekki látið sig vanta á sumar af þeim sýningum sem eru á döfinni eftir áramót í London hefði maður verið þar. En það verður nú ekki – það undirrituð viti.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
[/container]