[container]
Ömmubróðir minn kunni Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness utanbókar, spjaldanna á milli. Hann þótti, held ég, aldrei sérlega góður bóndi og var ekki vel liðinn í sveitinni vegna þess að hann var mjög stríðinn og sást ekki ekki alltaf fyrir í þeim efnum. Því kom það sér vel fyrir hann að hafa Sjálfstætt fólk á reiðum höndum því að hann gat alltaf fundið í þeirri bók einhverja kafla sem komu bændum í mikið uppnám. Mér varð oft hugsað til hans meðan beðið var eftir sýningu Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness.Miklar væntingar voru bundnar við hana, leikstjórn er í höndum Þorleifs Arnarssonar og nýja leikgerð skrifa Símon Birgisson, Atli Rafn Sigurðsson og Ólafur Egilsson. Menn vonuðu (og óttuðust kannski líka) að hópurinn byði upp á frumlega og spennandi úrvinnslu á þessu „kanóníseraða“ verki eins og hann gerði í marglofaðri sýningu á Englum alheimsins árið 2013.
Harmleikurinn
Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness er harmleikur Bjarts í Sumarhúsum, mannsins sem berst harðar en allir aðrir fyrir sjálfstæði sínu en missir allt af því að hann „sáði í akur óvinar síns“ alla æfi. Hann er hugsjónamaður eins og þeir gerast verstir, ofsatrúarmaður á eignarrétt og einstaklingshyggju sem á að færa honum og fólkinu hans eindrægni og velferð. Allt verður að sveigja undir það markmið að halda jörðinni. Missi hann jörðina hefur allt verið til einskis, hann og konan verða vinnuhjú að nýju, fjölskyldan verður leyst upp og börnin gerð niðursetningar á þeim bæjum sem lægst bjóða. Bjartur gengur hins vegar lengra en flestir aðrir. Hann viðurkennir aldrei veikleika eða ósigra og getur ekki þegið neitt af neinum.
Það er frumforsenda hinnar harmrænu hetju að hún „er í góðri trú“. Hún veit ekki betur þegar hún velur að gera það sem leiðir hana í glötun. Framan af fannst mér túlkun Atla Rafns Sigurðssonar, sem leikur Bjart, verða fremur eintóna enda talar Bjartur mest í yfirlýsingum og skipunum eins og Skugga-Sveinn. Það var ekki fyrr en í senunni þar sem hann rekur Ástu Sóllilju burt frá sér sem túlkun Atla fékk einhverja dýpt.
Leikgerðin
Þrisvar missir Bjartur í Sumarhúsum það sem honum er kærast og hefur verið trúað fyrir og í öll skiptin er það hans sök og þráhyggju um að kenna.
Ef hann hefði ekki svelt sig og Rósu, fyrstu konu sína, hefði Rósa ekki drepið og étið gimbrina sem hann fer að leita að nóttina sem Rósa fæðir barn sitt og deyr.
Ef hann hefði ekki drepið kúna sem hélt lífinu í Finnu, annarri konu hans, og börnunum hefði Finna ekki veslast upp, dáið og skilið eftir vansæl og hungruð börn í öllum skilningi svo að sonurinn, Helgi, hefnir hennar og veldur Bjarti miklu tjóni.
Ef hann hefði ekki farið af bænum til að bæta það tjón og skilið börnin eftir í umsjá ómennis hefði Ásta Sóllilja ekki verið misnotuð og Bjartur hefði þá ekki rekið hana burtu með skömm og misst það eina sem hann elskar.
Þegar verkið Sjálfstætt fólk er endursagt í þremur málsgreinum, eins og hér er gert, virkar það eins og óþolandi sápuópera eða „danskur róman“ um kotbóndann Bjart og fórnarlömb hans.Stokkið er frá einum hápunkti á annan en allt láglendi, tún og mýrar, sem á milli kunna að vera, hverfa og með þeim bæði undirbygging og samhengi persóna og atburða. Leikgerðin var hættulega nálægt þessu af því að hún fylgdi söguþræði bókarinnar í aðalatriðum og var þannig „trú textanum“ en endurskrifaði hann ekki. Millikaflar með bændum í sveitinni, sem leiknir voru af Eggert Þorleifssyni, Pálma Gestssyni og Baldri Trausta Hreinssyni, brutu þessa tímaröð upp, rufu blekkingu leikhússins að hætti Brecht, tengdu Bjart við bankahrunið 2008 og voru afbyggjandi og oftast drepfyndnir.
Leikhús
Sviðsmynd Vytautas Narbutas sýnir steypta veggi sem hallast frá botni sviðsins og má túlka á ýmsa vegu, sem spíral, sem grískt leikhús, sem veggi gríðarlegrar (Kárahnúka)stíflu eða níunda hring Infernós Dantes, þar sem svikararnir búa. Á þennan stórkarlalega vegg, eða ramma um sýninguna, er varpað tröllslegum andlitum í martröð Rósu þar sem óttinn við Kólumkilla er myndgerður og maður greip andann á lofti þegar martröðin skall á manni. En að öðru leyti var veggurinn sáralítið notaður og varð yfirþyrmandi þegar á leið sýninguna.
Búningar Filippíu I. Elísdóttir voru stílfærðir, stundum tengdir stétt, stundum tímabili og úthugsaðir. Brúðarkjóll Rósu hefði getað verið fermingarkjóll Rauðsmýrarmaddömmunnar, því hann var borgaralegur„danskur búningur“. Ásta Sóllilja var svartklædd og rauðhærð sem barn en tók hamskiptum, klæddist hvítum kjól móðurinnar sem „brúður“ föður síns og varð ljóshærð eftir nauðgun kennarans og þannig „björt“ í lokahlutanum. Bjartur var klæddur í herjans flott jakkaföt á sviðinu (aldrei hef ég séð viðlíka prjónabrók) þegar bankastjórarnir tóku hann í faðm sinn og svo mætti lengi telja. Ýmislegt var ögrandi og alveg á mörkunum eins og þegar hinni fallegu leikkonu Lilju Nótt var breytt í kú á sviðinu.
Manneskjur
Vigdís Hrefna Pálsdóttir lék Rósu, fyrstu ást Bjarts og kannski stærstu vonbrigði hans. Vantrú hennar og vonbrigði þegar hún kom í Sumarhús voru áhrifamikil og Rósa í meðförum Vigdísar Hrefnu varð bæði sterk og stríð persóna. Finna var leikin af Lilju Nótt Þórarinsdóttur, hlutverkið er lítið og einhæft og enn minna var hlutverk Hallberu, móður hennar, gert og ekki gaman að sjá þá góðu leikkonu Guðrúnu Gísladóttur lesa þegjandi alla sýninguna, sama þó bókin væri eftir Halldór Laxness. Hlutverk Ástu Sóllilju er annað aðalhlutverk verksins, það er mjög innhverft og viðkvæmt og þó Elma Stefanía Ágústsdóttir færi vel með hlutverk hennar ungrar var ekki laust við að hún færðist yfir í tilfinningasemi í lokauppgjöri þeirra Bjarts.
Í bókinni fylgir maður bræðrunum oftast einum í einu en hér sáum við systkinahópinn oft saman, Ástu og bræður hennar: heimssöngvarann Nonna (Arnmundur Ernst Backman) sem fer burt, Gvend (Snorra Engilbertsson) sem getur ekki farið og hinn ógæfusama og skelfilega dreng Helga (Þóri Sæmundsson) sem fer ekki heldur ferst. Dráp hans á rollunum, í heiðinni fórn til Kólumkilla, var kyngimagnað atriði í sýningunni. Hlutverk bræðranna eru hins vegar skorin svo niður að það er á mörkunum að þeir verði mótaðar persónur þekki menn ekki bókina. Það gustaði hins vegar af Tinnu Gunnlaugsdóttur sem Rauðsmýrarmaddömunni, einkum í átökunum við Bjart útaf kennaranum sem Ólafur Egilsson lék á mjög svo eftirminnilegan hátt. Arnar Jónsson var dásamlegur Jón hreppstjóri frá Útirauðsmýri og náði ákveðnum hápunkti í reiðilestri sínum yfir meðferð Þorleifs Arnarssonar og félaga á listaverki Halldórs Laxness.
Hvaða er sjálfstæði?
Dómar um þessa sýningu hafa verið misjafnir en hún verðskuldar umræðu af því að hún er metnaðarfull, frumleg og margar senur í henni verða ógleymanlegar. Það þarf hins vegar býsna magnaða sýn á klassísk verk til að staðfæra þau eða hefja kjarna þeirra yfir tíma og rúm og skapa þar með nýtt verk. Sú sýn liggur ekki á lausu í Sjálfstæðu fólki Þorleifs Arnarssonar og listamannanna í teymi hans hér. Maður spyr sig: Hvaða mót-mynd er búin til í þessari sýningu? Hún leggur áherslu á fjölskyldu Bjarts en samfélagið er tónað niður og hvað knýr Bjart þá áfram í hans einóðu baráttu? Til hvers var barist?
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
[/container]