Að teikna tónlist og dansa við teikningu

[container] Sykurmolinn Einar Örn Benediktsson er lifandi goðsögn sem þarf vart að kynna. Hann var meðal annars söngvari síðpönkssveitanna Purrkur Pillnikk og Kukl ásamt því að vera meðlimur hljómsveitanna Sykurmolarnir og nú Ghostigital. Einar opnaði sína fyrstu einkasýningu í Gallerí Listamenn 5. nóvember síðastliðinn undir heitinu: „Nei sko! Einar Örn notaði tímann til að teikna“. Teikningarnar bera skýr merki um persónuleika hans og minna líka á tónlistarsköpun hans sem hefur verið blanda af pönki, súrrealisma og raftónlist.

 Þrátt fyrir að Einar Örn sé þekktastur fyrir tónlistarsköpun sína hefur hann þó unnið tónlist og myndlist samhliða í allmörg ár og telur að það séu óhjákvæmileg tengsl þar á milli. Í viðtali við Víðsjá sagði listamaðurinn: „Ég sem gjarnan tónlist um leið og ég teikna og það gengur aldrei jafn vel að semja tónlist og þegar ég teikna.“

Teikningarnar bera líka merki um reynslu og þjálfuð vinnubrögð. Einar Örn vill þakka rithöfundinum og fyrrum samstarfsmanni sínum úr Sykurmolunum, Braga Ólafssyni, fyrir að hafa kennt sér þessi öguðu vinnubrögð og fyrir að hafa haldið sér við efnið. Bragi hefur fengið Einar til að vinna káputeikningar og skreytingar fyrir nokkrar bækur sínar, og árið 2007 gáfu þeir félagar saman út bókina Mátunarklefinn þar sem Einar sá um myndskreytingarnar og Bragi textann.

einarorn2

Efniviður myndanna á sýningunni „Nei sko!“, eru persónulegar lýsingar Einars á vinum sínum og ættingjum sem hann vinnur í anda ósjálfráðrar skriftar súrrealistanna. Í þessum teikningum er öllum höftum sleppt lausum og leitast er við að miðla flæðiskenndri og óheftri hugsun. Samkvæmt æðstapáfa súrrealismans, André Breton, var markmið ósjálfráðu skriftarinnar að losa listamanninn undan sálrænni bælingum í því skyni að komast að kjarna listarinnar. Súrrealistarnir reyndu að tengjast veruleika sem var á æðra stigi en raunheimurinn og reyndu t.a.m. að finna tengslin á milli draums og veruleika og búa til sögur úr því.

Teikningar Einars sýna verur sem eru á mörkum þess að vera menn og dýr, ásamt því að lýsa heimi sem er á mörkum þess að vera efnislegur og ímyndaður. Aðspurður um þennan sýndarveruleika segir Einar reyndar: „Ég held að súrrealisminn sé raunveruleikinn.“ Fyrir Einari eru súrrealísku teikningarnar af vinum hans og ættingjum jafn raunverulegar og ljósmyndir, ef ekki raunverulegri.

Aðferðina sem hann notar við gerð myndanna, kallar hann „one linera“ eða einlínunga, og felst hún í því að skapa teikninguna úr einni samfelldri línu sem hann teiknar í einni lotu, án þess að losa pennann frá blaðinu. Hann líkir aðferðinni við sköpun tónlistar: „Myndirnar eru andartakið, eins og í tónlistinni. Ef eitthvað er gott þá læt ég það vera annars hendi ég því.“ Einar segist með hliðstæðum hætti vinna myndrænt í tónlistinni. Hann biðji oft um meiri lit í tónlistina sem hann skapar með öðrum, t.d. meira fjólublátt eða brúnt hljóð. Að þessu leyti sé teikningin náskyld tónlistinni.

Þrátt fyrir að teikningar Einars séu hljóðlausar hafa þær þann eiginleika að vekja upp draumkenndar ímyndanir um allskyns öskur og óhljóð í anda pönkarans Einars Arnars og hreyfa þannig við skynjun áhorfandans. Listamaðurinn Haraldur Jónsson orðaði þetta svo í sambandi við Einar: „Þetta er bara alveg eins og tónlistin þín, maður getur alveg dansað við þetta.“

Vigdís Rún Jónsdóttir, meistaranemi í listfræði.

[/container]

 

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *