[container]
Það er eitthvað sérdeilis finnskt við leikritið Gauka eftir Huldar Breiðfjörð. Ekki bara af því að það fjallar um tvo þögla karlmenn heldur af því að það er manneskjulegt, fyndið, mínímalistiskt en um leið þrungið af melankólíu.Gjald karlmennskunnar
Jón Páll Eyjólfsson sagði í viðtali við Víðsjá að gjald karlmennskunnar væri hátt og það væri kjarni þessa verks. Við höfum öll horft á þúsund bíómyndir um hinn sterka karlmann sem hristir af sér allan kerlingarvæl og kann hvorki að finna til né hræðast. Sá maður lætur engan banna sér að aka á sínum fjallabíl inn í eitraðan gasmökk til þess að líta á glóandi hraun. Þannig er goðsagan um ofur-karlinn og hún er jafnframt hugmyndafræðileg réttlæting þess að karlkynið verðskuldi völd og forréttindi umfram konur. En þetta er goðsögn, ekki lífið sjálft. Sem betur fer, því hlutverkið felur í sér afmennskun sem er fyrir viðrini en ekki fólk. Venjulegir karlar fá hvorki völd né forréttindi en finnst þeir löngum þurfa að leika hlutverk sterka mannsins. Gjaldið er varnarleysi og einsemd eins og sjá má í Gaukum.
Yfirfærslur
Gunnlaugur (Jóhann Sigurðsson) þarf að losa sig við páfagauk en honum er ekki sama hver fær fuglinn. Það verður að koma rétt fram við þennan fugl! Tilfinningalegar yfirfærslur hans á gæludýrið í kjölfar hjónaskilnaðar eru augljósar en ekki einfaldar og nú hefur presturinn ráðlagt honum að losa sig við dýrið. Tómas (Hilmar Guðjónsson) er helmingi yngri en Gunnlaugur, líka nýskilinn, sálfræðingur hans hefur ráðlagt honum að fá sér gæludýr af því að það sé hollt að hugsa um einhvern annan í tilfinningalegu umróti eftir skilnaðinn. Þessir tveir menn hittast í hótelherbergi þar sem páfagauksskiptin eiga að fara fram og leikritið sýnir hvernig þeir kynnast, byrja að treysta hvor öðrum smám saman, deila reynslu sinni sem er bæði lík og ólík eins og þeir tveir.
Samspil
Jóhann og Hilmar léku saman í leikritinu Rautt eftir John Logan í eftirminnilegri sýningu. Þeir eru báðir fantagóðir leikarar og samspil þeirra með ágætum hér í því pínlega návígi sem eitt hjónarúm er fyrir tvo ókunna, gagnkynhneigða karla. Þegar kona Gunnlaugs segir honum að hún ætli að skilja við hann kemur það gjörsamlega flatt uppá hann. Hann hefur horft á hana í áratug án þess að sjá hana, heyrt hvað hún sagði en ekki hlustað. Hann spyr hvað hafi komið fyrir og hún segist hafa verið að hugsa um þetta í tíu ár! Eftir situr Gunnlaugur, börnin tala ekki við hann því þau eru „alltaf upptekin“. Þeir karlarnir í skúrnum fyrir vestan láta sig dreyma um thailenskar konur en þær vilja ekki súrsaða selshreifa. Páfagaukurinn Pála (Pálfríður) er hans eini vinur þó þau rífist líka. Tómas byrjar á að sofa hjá kærustunni og kynnast henni svo, sem er íslenska aðferðin. Í raun kynnist hann henni aldrei því hún vill bara „hafa gaman“ (e. have fun) en sú gleði sem hún biður um kemur ekki innan frá. Sambandið endist ekki lengi og Tómas veit alltaf minna og minna hvað hún vill.
Virðing
Svið Brynju Björnsdóttur er stílhreint, flekar ramma af staðlað hótelherbergið og á þá er varpað nærmynd af lággróðri kuldalegri, snævi drifinni fjallshlíð áður en leikurinn hefst fyrir og eftir hlé og martröð Tómasar um nóttina er varpað á þennan skjá. Hliðarlýsing er áberandi og Þórður Orri Pétursson notar skugga markvisst því sannarlega eru þessir menn að glíma við sína skugga og þeir við þá. Tónlist Úlfs Eldjárns var falleg. Það er hins vegar að verða plagsiður í leikhúsinu að nota tónlist alls staðar til að búa til stemningu þar sem orðið dugir fullkomlega og/eða þögn væri kærkomin. Öll sýningin bar vitni virðingu fyrir mannskepnunni – sem seint verður of mikið af.
Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Listasafn Einars Jónssonar gerir upp erfiða sögu
22. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply