[container]
Átjánda september verður þjóðaratkvæðagreiðsla í Skotlandi um sjálfstæði þjóðarinnar og sambandsslit við Stóra-Bretland. Þetta hápólititíska og mikilvæga mál var alls staðar nálægt manni, beint og óbeint, á Fringe-hátíðinni í Edinborg í ágúst. Silja Aðalsteinsdóttir skrifaði króníku um hátíðina og nefndi þar Spoiling, einþáttunginn um hinn fyndna, herskáa og kasólétta utanríkisráðherra skosku stjórnarinnar. Ráðherrann neitar að flytja ræðuna sem flokkurinn hefur skrifað fyrir hana en er ekki búin að skrifa sína eigin ræðu sem hún á að halda á fundi með enska utanríkisráðherranum þennan dag. Hún er samt búin að ákveða að biðjast heils hugar afsökunar á þeim þætti sem Skotland hafi leikið í breskri heimsvaldastefnu, þrælahaldi, alheims-fjármálakreppu og ýmsu öðru ófélegu. Það var alveg ljóst hvað hún hefði kosið á fimmtudaginn.Leikrit fyrir okkar tíma, okkar líf
Upp á síðkastið hefur verið deilt nokkuð um íslenska leikritun og/eða leikgerðir, heimóttarskap og þjóðernishyggju sem sé af hinu illa. Um það langar mig til að segja tvennt: það fást ódýr vinsældastig fyrir að blása upp meintar og algjörar andstæður milli erlendrar og innlendrar listsköpunar. Eins og íslensk list væri til án samræðu við útlönd? Eins og einhver beinlínis þrái að læsa sig inni og kasta lyklinum út um gluggann? Að sjálfsögðu viljum við fylgjast með því sem best er skrifað og leikið í erlendum leikhúsum, sýna það og túlka hérlendis. EN við viljum líka að íslenskir listamenn skrifi, yrki, syngi og túlki okkar veruleika og okkar líf og sögu hér í þessu landi – við viljum sjá þá list og deila um hana. Það þarf ekki að skrifa leiðara í dagblöðin um það.
Hitt sem ég vildi segja er að aðlaganir og leikgerðir eru mjög mikilvægur hluti af nútíma listsköpun en þær koma ekki í staðinn fyrir nýskrifuð leikrit. Það þarf að rækta ný leikskáld, ekki bara leyfa þeim að sýna hvað þau eru flink, einu sinni eða tvisvar sinnum, heldur gefa þeim tækifæri til að þroska listform sitt svo að þau geti staðið undir stöðugt meiri kröfum, sjálfra sín og áhorfenda. Það er vissulega ekki ókeypis fyrir ríkissjóð en öfugt við margt annað sem greitt er úr honum væri þeim peningum skattborgara vel varið. Það fannst Skotum þegar þeir réðu skoska leikskáldið Rona Munro til að skrifa þrjú, sjálfstæð en samstæð, leikrit fyrir Edinborgarhátíðina um fyrstu konunga Stewart konungaættarinnar. Sýningin í heild tekur níu tíma, hvert leikrit er tveir og hálfur tími og listrænn metnaður gífurlegur á öllum sviðum. Í inngangi að leikritunum segir höfundur að hún hefði aldrei getað skrifað þessi verk án þeirra tækifæra sem hún hefur fengið til að þroskast sem leikskáld.
Sverðið
Leikritin voru samstarfsverkefni Skoska þjóðleikhússins og Þjóðleikhúss Stóra-Bretlands í London. Þau voru frumsýnd í Edinborg en flytjast til London 11. september. Á stóra sviði Þjóðleikhússins í Edinborg blasti við sláandi leikmynd Jon Bausor, dökk og mikilúðleg. Vinstra megin á baksviðinu eru pallar og brú yfir sviðið með hásæti konungs uppi fyrir miðju sviði. Á pöllunum, í leikmyndinni, situr hluti áhorfenda og myndar skoskt þing en hægra megin á sviðinu stendur risavaxið sverð upp úr sviðinu, tákn valds og ofbeldis, en undir þeim formerkjum var saga Jakobanna þriggja sem sagt var frá. Sviðsbúnaður var annars léttur enda dansað og barist mikið. Búningar Bausor voru einfaldir, stílfærðir og blönduðu tímabilum og hefðum. Hann er ótrúlegur snillingur og það sama má segja um leikstjórann, Laurie Sansom, sem hélt athygli áhorfenda allan tímann með hraða, samhæfingu og innsæi.
Konungasögur
Við sáum fyrsta leikritið: The Key Will Keep the Lock (Lásar skulu halda) sem segir frá James I sem átti að forða í skjól til Frakklands eftir að bræður hans höfðu verið drepnir, hann var 13 ára. Bretar stálu honum hins vegar og héldu sem gísl í 18 ár. Frændur hans Stewartarnir sáu ekki ástæðu til að leysa hann út en hinn orðljóti Henry V er í leikritinu látinn setja James yfir Skota. Þar voru frændur hans á fleti fyrir en eftir eldræðu gegn Englendingum sem Munro leggur James I í munn lúta þeir honum og krýna árið 1424. En það kraumar undir í þessu ósamheldna höfðingjaveldi og vald konungs er óstöðugt. Kóngur lætur taka hættulegustu frændur sína af lífi og innleiðir harða stjórn sem beinist að því að efla konungdæmið, lög og reglu. Hann hefur gifst enskri jarlsdóttur og það var hryllileg sena þegar hann afmeyjaði hana á brúðkaupsnóttinni að hirðinni áhorfandi eins og hefð var.
Leikaraval
Stúlkan verður fremur vansæl í þessu harða landi, umkringd óvinum. Verst henni er Annabella, eiginkona Murdac Stewart, þess sem sat í valdastól á undan James. Hún hefur alið syni sína upp til að stjórna löndum og er hörkutól. Hún var leikin af krafti af Blythe Duff, sem Íslendingar þekkja betur sem Jackie í Taggart þáttunum. Fleiri stórstjörnur mönnuðu þessa sýningu, James McArdle lék James I, Andrew Rothney lék James II og Jamie Sives lék James III. Þeir eru allir ungir, ýmist á hraðri siglingu sem sviðs- og kvikmyndaleikarar, Sives er kannski þekktastur þeirra. Á móti honum lék Sofie Gråbøl úr Forbrydelsen í þriðja leikritinu, The True Mirror (Spegill sannleikans) sem við náðum að sjá áður en við fórum út á flugvöll.
Hinsegin kóngur og hörkudrottning
Hinn raunverulegi James III ríkti frá 1460-1488 og giftist danskri prinsessu, Margréti. Það þarf sterkan karakter til að leika hana og Sofie Gråbøl gerði það glæsilega. Margrét er mjög skotin í manni sínum þó að hún þoli hann ekki og alls ekki að hann tekur mið-soninn fram yfir frumburðinn og ætlar að gera hann að ríkisarfa. Þau James skilja í leikritinu vegna þess að hann fer yfir strikið, verður leiður á þinginu og lýðræðinu, telur sér ekki skylt að hlusta á aðra en vini sína sem eru ekki af betri endanum og skarast þar skosk konungasaga og Sopranos, sagði einhver. Kóngurinn verður æ sérvitrari og mikilmennskubrjálaðri og þegar hann segir þinginu að fara til fjandans og stingur af með elskhuga sínum tekur drottningin völdin til að kaupa elsta syni sínum nokkur ár í viðbót til að þroskast. Við nöldrandi þingið segir hún: „I´m Danish, you ignorant, abusive lump of manure! I come from a rational nation with reasonable people. You know the problem with you lot? You´ve got fuck-all except attitude.“ (það er allt í skralli hjá ykkur nema hrokinn/stælarnir). Spennustigið í leikhúsinu var nánast áþreifanlegt í þessu uppgjöri og fagnaðarlæti brutust út að því loknu. Boðskapur verksins var skýr: Átök og áhætta eru óumflýjanleg en menn verða að taka ábyrgð á tilveru sinni, enginn gerir það fyrir mann. Þetta voru skilaboð konungaleikritanna til Skota og þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Listasafn Einars Jónssonar gerir upp erfiða sögu
22. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply