Hei sala hó sala hoppsasa

[container] 

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

Ekkert leikhús er eins mikilvægt og leikhúsið fyrir börn! Samstarfskona mín frá sumrinu hefur unnið með börnum á frístundaheimili og segir að þau tali mikið um leiksýningar sem þau hafi séð, leiki atriði, syngi söngvana, ef þeir eru til staðar, og ræði sýningarnar öfugt við sjónvarpsefni sem þau ræða minna. Hún hafði þá kenningu að leikhúsið hefði svo sterk áhrif á börnin af því að þau njóta þess með öðrum börnum og foreldrum sem þá deila reynslunni með þeim. Sjónvarpið horfi þau  oftast á ein. Ég held að þetta sé rétt og meðal annars þess vegna verði að gera ítrustu kröfur til barnaleikhússins og aldrei minni en til leikhúss fyrir fullorðna.

„Ekkert venjulegt barn“

Lína langsokkur er ein frægasta persóna gjörvallra barnabókmenntanna og mikið hefur verið skrifað um hana. Hún er sagnaþulur, heimspekingur, málvísindamaður, auðkýfingur, apa- og hesteigandi, prinsessa, töframaður og trúður og sterkasta barn í heimi. Kunnandi ekki reglur fullorðna fólksins neyðist hún til að búa til sínar eigin, sem rekast alltaf á reglur þeirra fullorðnu, og það er ákaflega fyndið. Á bak við lífsreglur Línu er heimatilbúin rökfræði eins og hjá Lísu í Undralandi og bæði verkin fela í sér miklar pælingar um tungumálið og samskiptareglur fólks. Þýðing Þórarins Eldjárns á Línu langsokki var glæsileg.

Lína er sem sagt ekkert venjulegt barn, hún er „villibarn“, en hún er ekki ólátabelgur og ekki prakkari af því að hún hrekkir ekki fólk. Það er dýpra á henni en svo. Sagan af henni er fyndin og sorgleg um leið því að sá sem er eins og hún, einn sinnar tegundar, hlýtur að verða mjög einmana. Þess vegna skipta Tommi og Anna svo miklu máli fyrir Línu, þau eru fyrstu og einu vinir hennar. Hún reynir ekki að fá þau til að aðhyllast sínar skoðanir heldur reynir hún að skilja þau og jafnvel laga sig að þeirra lífi – hún bara getur það ekki. Þessi dýpt eða tvöfeldni fannst mér ekki koma fram í túlkun leikstjórans, Ágústu Skúladóttur, á persónu Línu, kannski af því að meiri áhersla var lögð á orkuboltann og krakkann Línu en „tilfellið“ Línu.

Að snerta barnið

Margt var gert til að kitla hláturstaugar barnanna en hvergi hlógu þau jafn hjartanlega og innilega eins og þar sem Lína er að fíflast með hafraskál hestsins, setur hana á hausinn og sér þess vegna ekki hinn langþráða pabba sinn þegar hann kemur. Áhorfendur sáu þar meira en Lína. Þetta er einfaldasta trix í bókinni en stundum þarf ekki meira. Ágústa Eva Erlendsdóttir leikur Línu og að mörgu leyti er hún prýðilegt val í þetta mikilvæga hlutverk en hún keyrir upp svo mikinn hraða á köflum að það verður erfitt að ná sambandi við karakterinn. Fylgikona mín í leikhúsinu (11 ára) hafði orð á því að Lína væri á býsna miklum yfirsnúningi og fannst ómögulegt hvernig hún rak útúr sér tunguna til að sýna prakkaraskap.  Hún var gagnrýnni á Línu en ég.

Gullfalleg sýning

Leikstjórinn og hans samstarfsmenn búa til mjög fallega sýningu sem gladdi bæði augu og eyru. Það er snjallt að hafa hljómsveitina á sviðinu og hún var á bílpalli sem varð jafnframt hreyfanlegur hluti af leikmynd Ilmar Stefánsdóttur sem var hugkvæm og falleg eins og búningar Maríu Th. Ólafsdóttur og leikgervi Ásdíar Bjarnþórsdóttur.  Sömuleiðis var lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar frábær og sælustunur heyrðust í börnunum þegar þau horfðu upp í „stjörnuhimininn yfir sér“ í tilfinningaríkum söng um föðurinn horfna. Hugkvæmnin var ómæld í sviðsetningunni, það var margt að gerast í einu, litlar sýningar í sýningunni og vinir Línu, Herra Níels api og hesturinn stálu senunni hvað eftir annað í orðsins fyllstu merkingu og stundum kepptu uppákomurnar um athyglina. Enginn keppti hins vegar við frú Prússólínu sem Maríanna Klara Lútersdóttir lék með slíkum tilþrifum að enginn annar var í sjónmáli á meðan hún reyndi að siða Línu. Þegar á allt er litið var þetta afskaplega skemmtilegt leikhús bæði fyrir börn og fullorðna – sjáið hana endilega með börnunum!

Deila

[/container]

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *