Amy Tan aðalfyrirlesari Art in Translation

[container] Dagana 18.-20. september næstkomandi verður ráðstefnan Art in Translation haldin í Reykjavík í þriðja sinn. Ráðstefnan er þverfagleg og fjallar um samspil ritlistar og ýmissa annarra listgreina. Hún er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Listaháskólans, University of Manitoba og fleiri og er hugsuð sem eins konar listviðburður eða gjörningur. Hugmyndin er að rjúfa múra milli lista og fræða, búa til samtal á milli þeirra og gefa íslenskum lista- og fræðimönnum kost á samtali við erlenda kollega sína.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar að þessu sinni er bandaríski rithöfundurinn Amy Tan en hún er íslenskum lesendum að góðu kunn. Tan er þekktust fyrir bók sína Leikur hlæjandi láns (The Joy Luck Club) sem hefur verið þýdd á 35 tungumál og hlaut ómælda athygli þegar hún kom út. Bókin, sem kom út í íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar árið 1992 og var endurútgefin árið 1998, fjallar á áhrifaríkan hátt um kínverska innflytjendur í San Francisco og tilraunir þeirra til að aðlagast bandarískum veruleika en viðhalda um leið kínverskum rótum sínum. Þrjár aðrar skáldsögur Amy Tan hafa komið út á íslensku.

Aðrir lykilfyrirlesarar á ráðstefnunni Art in Translation eru Roger Allen, fræðimaður og prófessor emerítus, sem hefur sérhæft sig í málefnum Miðausturlanda, og Matthew Rubery, fræðimaður sem hefur einkum rannsakað lestrarvenjur og bókmenntir 19. aldar. Ráðstefnugestir eru listamenn, fræðimenn, rithöfundar og þýðendur og fer ráðstefnan fram í Háskóla Íslands og í Norræna húsinu.

Hægt er að skrá sig á ráðstefnuna á heimasíðunni www.artintranslation.hi.is auk þess sem þar verður birt dagskrá. Allar nánari upplýsingar veitir Stella Soffía Jóhannesdóttir, verkefnisstjóri, á netfanginu artintranslation.iceland@gmail.com.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *