Að láta sér detta í hug að vígja þessa stelpu!

[container]

Um höfundinn
Pétur Pétursson

Pétur Pétursson

Pétur Pétursson er prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Sjá nánar

Ingibjörg dóttir Geirþrúðar Bernhöft, fyrstu konunnar sem lauk embættisprófi í guðfræði, kom á skrifstofu mína um daginn með mynd af móður sinni til þess að hengja upp í gömlu guðfræðistofunni í aðalbyggingunni, stofu V, eins og við sem komin erum yfir miðjan aldur segjum. Deildarfundur Guðfræði- og trúarbragðafræðdeildar samþykkti fyrir áramót að endurskoða uppsetningu mynda og fækka karlamyndunum og setja upp myndir af Geirþrúði og Auði Eir, en sú síðarnefnda  var sæmd heiðursdoktorsnafnbót í guðfræði aldamótaárið.

Myndin sem hér birtist er tekin á heimili Geirþrúðar daginn sem hún útskrifaðist,  31. maí 1945. Ingibjörg afhenti nokkur gögn með myndinni sem sett verður upp og þar á meðal viðtal sem tekið var við hana um guðfræðina og störf hennar. Í því sambandi minnist ég þess sem séra Sveinbjörn í Hruna sagði mér eitt sinn um Sigurgeir Sigurðsson sem þá var biskup. Sveinbjörn kom oft á biskupsstofu á þessum árum og hafði heyrt hann  hvetja Geirþrúði til að sækja um prestsembætti og að hann mundi vígja hana og þyrfti hvorki að spyrja kóng eða prest um leyfi til þess. Að þessu er vikið í viðtalinu sem Ingibjörg kom með, en þar segir Geirþrúður: „Þáverandi biskup herra Sigurgeir Sigurðsson hvatti mig oft til að gerast kirkjunnar þjónn, en vegna fjölskyldu minnar sá ég mér það ekki fært. Mjög voru þá skiptar skoðanir um hversu æskilegt eða óæskilegt það væri að konur gerðust prestar. Eitt sinn sem oftar eftir embættispróf var ég stödd á skrifstofu biskups. Sagði hann mér þá að þrír prestar hefðu hringt í sig fyrir skömmu og sagt sér að þeir ætluðu að segja af sér embætti ef biskupi dytti í hug að fara að vígja þessa stelpu. Ég spurði biskup hvað hann myndi gera ef hann kæmist í þá aðstöðu.  Biskup þagði smástund, síðan brosti hann og sagði: „Nú ég yrði að leyfa þeim að hætta.“

Margt hefur breyst í kirkjunni frá því er þetta var sagt. Nú gegnir kona embætti biskups Íslands, konur eru stór hluti presta og stór meirihluti nemenda í Guðfræðideildinni er „stelpur“.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *