[container]
Þessi spurning á ekki aðeins við á Íslandi. Jaðarflokkar ýmiss konar þjóðernissinna hafa fengið aukið fylgi víðs vegar um Evrópu eins og sjá má af uppgangi Sjálfstæðisflokks Sameinaða konungdæmisins (United Kingdom Independence Party, Ukip) á Bretlandi í nýlegum kosningum og nú síðast er orðinn til flokkur í Þýskalandi, Valkostur fyrir Þýskaland (Alternative für Deutschland), sem vill fá þýska markið sitt aftur. Sameiginlegt með þessum hreyfingum flestum er að þær vilja afturhvarf til einhverra fyrri tíma, „fullveldis“ ríkja, eigin myntar, landamæragæslu. Þessi þrjú atriði eru kannski þau helstu sem rætt er um frá ýmsum hliðum.
Það fyrsta er kannski fyndnast, því í þessum fullveldishugmyndum virðist vera einhver kjarni sem minnir á það fullveldi sem Norður-Kórea vill njóta, en getur þó alls ekki og hallar sér þess vegna að Kínverjum. Ef við skoðum Vestur-Evrópu eina og sér þá er ljóst að ríki hennar lögðu stóra og mikilvæga þætti fullveldis síns í eitt púkk með stofnun NATO og raunar Sameinuðu þjóðanna líka. Landvarnir eru gríðarmikilvægur þáttur fullveldis ríkja og Íslendingar hafa látið aðra sjá um þær fyrir sig frá því í seinni heimsstyrjöld og raunar alla tíð. Það er líka ljóst að 200 mílna efnahagslögsagan blessaða hefði ekki orðið að veruleika án hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og samþykkis Bandaríkjanna. Íslendingar hefðu aldrei getað varið þessar 200 mílur einir gegn öllum heiminum, hvað sem líður okkar fræknu varðskipsmönnum. Reyndar hefur oft verið haldið fram að Íslendingar, ekki síst Hans G. Andersen, hefðu áttu mikinn þátt í tilurð þess mikilvæga sáttmála og er það kannski dæmi um að smáþjóð getur haft mikil áhrif í ríkjasamstarfi, gagnstætt því sem andstæðingar ESB halda fram. Þessi tvö stóru dæmi sýna svart á hvítu að fullveldi íslenska ríkisins er mjög háð samstarfi við önnur ríki og ríkjasambönd.
Það verður fróðlegt að fylgjast með atganginum í Bretlandi eftir síðasta sigur Ukip í sveitastjórnarkosningum, en ekki er óhugsandi að Bretar fái færi á að kjósa sig úr ESB á næstunni, eins og heimilt er samkvæmt Lissabon sáttmálanum. Í því tilfelli gæti kaldhæðni sögunnar tekið fram fyrir hendurnar á David Cameron og Íhaldsflokknum því fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur eru fyrirhugaðar en um ESB. Skotar gætu kosið sig úr Sameinaða konungdæminu og þar með sundrað elsta núverandi ríkjasambandi Evrópu sem á rætur að rekja aftur til 1603 og 1707. Skoski þjóðernisflokkurinn (SNP) hefur oft lagt áherslu á sjálfstæði Skotlands „með Evrópu“ og Skotar eru miklu jákvæðari gagnvart ESB en Englendingar. Óvíst er um niðurstöðuna þar en þjóðaratkvæði í Bretlandi um áframhaldandi veru í ESB gæti breytt miklu. Englendingar gætu þannig kosið sig nánast samtímis út úr ESB og Sameinaða konungdæminu. Á hinn bóginn gæti ákvörðun Englendinga orðið til þess að ESB sundraðist og athyglisvert væri að sjá hvað út úr því kæmi. Nokkrir möguleikar:
- EES-samningurinn verður að engu.
- Innri markaðurinn leggst af og tollvernd verður tekin upp á ný.
- Frjáls för fólks verður af lögð og full landamæragæsla tekin upp. Ekki verður sjálfgefið fyrir Evrópubúa að flytja milli ríkja Evrópu og stunda þar vinnu eða nám. Líkast til þyrftu þeir sem hafa tímabundin atvinnuleyfi í öðrum Evrópuríkjum að snúa heim.
- Ýmis styrkjakerfi ESB, einkum til stuðnings landbúnaðar og dreifðra byggða yrðu lögð af og aðildarríkin yrðu að sjá um þá hluti sjálf að öllu leyti.
- Samstarf háskóla minnkaði umtalsvert og sameiginlegir rannsóknasjóðir lagðir af. Skiptinám nemenda yrði háð tvíhliða samningum og menntamenn smáþjóða ættu lítinn kost á rannsóknafé sem um munar. Afleiðingin verður spekileki til stóru ríkjanna.
Þetta eru aðeins örfá dæmi um þau gæði sem horfið gætu með ESB, en stóra málið í Evrópu núna er myntin eins og hjá okkur Íslendingum sem notum þá minnstu í heimi, mynt sem hefur kostað sumar kynslóðir óhemju fé. Krónan brenndi upp sparnað eldri kynslóða fram að Ólafslögum 1979 og eignamyndun þeirra kynslóða sem upp komu eftir 1980 hefur verið miklu minni vegna verðtryggingar en annars væri, og eftir hrun var a.m.k. ein kynslóð gerð nánast eignalaus með henni. Það er hún sem er svo ósátt að hún getur ekki sætt sig við hin þjóðhagslegu rök, sem áreiðanlega má til sanns vegar færa, að ekki sé eðlilegt að hún eigi að fá sérstakar niðurgreiðslur skattgreiðenda. En krónan er og verður í höftum og jafnvel þótt einhvern veginn takist að losa hana úr þeim með tilheyrandi kostnaði mjög margra (ekki aðeins vogunarsjóða) þá verður hún áfram til vandræða. Hún verður eftir sem áður verðlaus í seðlum erlendis og það mun ekki þurfa neinn Soros til að veðja gegn henni, einhver minni háttar vogunarsjóður gæti vel gert annað eins.
Evran stendur í ströngu líka, þótt ekki hafi gengi hennar hreyfst mikið gegnum hremmingarnar. Vaxtastigið er hins vegar hagkvæmt skuldurum eins og er og verðtrygging væri fjarstæða. Vafalaust var til hennar stofnað af of miklum flýti á sínum tíma og ekki gert ráð fyrir slíkri skuldasöfnun einstakra ríkja og úr varð. En hún stuðlaði líka að gríðarlegri velsæld og jók þægindi Evrópubúa í viðskiptum ómælt. Hverjar yrðu hins vegar afleiðingar þess að evran leystist upp í frumeindir sínar? Ég ætla ekki að spá hvers konar handagangur yrði úi öskjunni á fjármálamörkuðum heimsins, en það er víst enginn kæmi óskaddaður frá þeim hamförum. Á endanum fyndist kannski einhvers konar jafnvægi en það veit enginn hver bæri herkostnaðinn af því, hugsanlega Þjóðverjar sjálfir með algjörlega ofmetna mynt uppbelgda af sjóðum hræddra fjárfesta. Munurinn á evrunni og krónunni er hins vegar kannski sá að evrunni megi bjarga og það væri öllum til hagsbóta, en krónunni er vart við bjargandi.
Það verður því að teljast alls óvíst að upplausn ESB og afturhvarf til gömlu þjóðríkjanna sé annað en martröð og ávísun á stórkostlegan glundroða og efnahagslegan óróa þar sem núverandi krísa liti út eins og barnaleikur í samanburði. Það er ekki hægt að snúa úrverki sögunnar til baka hvað sem menn vilja og miklu nær að reyna að laga þau tannhjól sem hökta í því núna.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
[/container]
Leave a Reply