[container] Ég er sjónvarpsstjóri. Minn eiginn. Ég ræð líka yfir tímanum. Ferðast aftur í tímann þegar mér hentar, stunda tímaflakk í stofusófanum með DeLorean fjarstýringu. Frú Marty McFly. Nýjasta tækni í boði fjarskiptafyrirtækis gerir mér þetta kleift. Ekki alveg í boði kannski, eitthvað kosta herlegheitin en látum það liggja milli hluta. Loksins ræð ég einhverju, alveg ein. Eins og ég hef oft óskað mér get ég horft á uppáhaldsþáttinn minn þegar mér hentar. Um daginn horfði ég meira að segja á bíómynd laugardagskvöldsins á sunnudagsmorgni. Himnaríki kvöldsvæfrar konu. Það lítur út fyrir að ég geti loksins horft á heila mynd um hinn breska Barnaby. Ég hef séð byrjunina á allnokkrum en enga náð að klára vegna áðurnefndrar kvöldsyfju.

Ég get líka flakkað milli árstíða. Fyrir tilstilli orkufyrirtækis þarf ég bara að hafa upp á sólskýli í borginni og þar get ég skýlt mér fyrir skammdeginu. En af því að febrúar tók þátt í árstíðaflakkinu að þessu sinni og hélt að hann væri apríl hefur þörfin verið hverfandi undanfarið. Mars veldur ekki vonbrigðum og því eiga sólskýlin eftir að koma sér vel á næstunni. Ósk mín um steikjandi sólskin í skammdeginu mun rætast. Ég reikna með að fyrirtækið muni breyta sólskýlum í snjóskýli í sumar. Hressandi að standa í hundslappadrífu á sumarkvöldi. Eða kannski í rökkurskýli ef sífelld birtan verður yfirþyrmandi. Nema þörfin fyrir tímaflakk sé ekki jafnmikil á sumrin. Mig minnir að ég hafi aldrei óskað mér myrkurs um sumar.

Þegar ég var lítil óskaði ég mér við helstu tækifæri. Blés á öll kertin á afmæliskökunni, kreisti aftur augun og óskaði mér af öllum mætti. Einu sinni fann ég fjögurra laufa smára og óskaði mér heitt og innilega. Ég reyndi að sjá stjörnuhrap en hef sennilega alltaf sofnað of snemma. Mig langaði að læra á píanó. Foreldrar mínir höfðu ekki hugmynd um það enda alveg harðbannað að segja frá því hvers maður óskar sér. Þess vegna rættist óskin ekki. Þetta skildi ég eftir að ég fullorðnaðist.

Eins og gefur að skilja finnst mér ég aldeilis hafa dottið í lukkupottinn. Á miðjum aldri. Óskirnar rætast nú hver af annarri og það án þess að ég hafi sagt orð. Nú bíð ég spennt eftir hvaða fyrirtæki eða stofnun býður mér næst upp á einhvers konar flakk. Ég myndi þiggja skuldaflakk í boði bankans. Enda hef ég oft óskað þess að ég gæti breytt meintri skuld minni við hann og gert hana líkari þeirri sem ég skuldbatt mig til að greiða á sínum tíma. Ef það verður vandkvæðum bundið sætti ég mig við að fá mismuninn afhentan í seðlum.

Ef svo heldur sem horfir mun tæknin uppfylla allar mínar óskir. Eina sem mig vantar er aðeins stærri fjarstýring.

Ingibjörg Valsdóttir,
meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *