Um höfundinn
Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hans eru almenn þýðingafræði, enskar og þýskar bókmenntir, upplýsingin í Evrópu, þýðingasaga, málstefna á Íslandi og annars staðar og íslenskar samtímabókmenntir. Sjá nánar

Það vakti nokkra athygli á popp- og rokkorgíunni á opnunarhátíð Ólympíuleikanna að einn kunnasti tónlistarmaður sem Bretland hefur alið, „the thin white duke“, David Bowie, skyldi hafna því að koma fram. Þar sem hann hafði fengið vægt hjartaáfall 2004 og vart komið fram opinberlega síðan veltu sumir gamalgrónir aðdáendur, eins og undirritaður, því fyrir sér hvort heilsunni væri tekið að hraka mjög. En svo virðist ekki vera, út úr bláma Netsins sprettur allt í einu nýtt lag og myndband frá hertoganum granna og segja sögur að meira að segja starfsfólk hans hafi ekki vitað af þessu fyrr en um síðustu jól.

Lagið og myndbandið eru dæmigerð fyrir Bowie á margan hátt. Lagið er afturhvarf til hans eigin stíls sem hann þróaði í samvinnu við Brian Eno og náði hápunkti sínum á Berlínarárunum í plötum eins og Low og Heroes, enda er þetta sannkölluð Berlínaballaða sem kannski má kalla óð til þeirra sem létust við flóttann frá Austur-Berlín. Í upphafi lagsins furðar Bowie sig á því að geta tekið lest frá Potsdamer Platz; í bakgrunni myndbandsins er múrinn og skömmu síðar vísar hann til þeirra tuttugu þúsunda sem fyrst gengu yfir landamærin í Berlín við Bösebrücke að kvöldi 9. nóvember 1989, kvöldið sem heimsmynd okkar breyttist í einu vetfangi.

Myndbandið og framsetning þess eru, ekki síður en lagið og textinn, unnin af mikilli kúnst af vídeólistamanninum Tony Oursler og kallast það á við fyrra verk hans „The Watching“ sem sýnt var á Documenta sýningunni í Kassel 1991. Yfir verkinu hvílir blær kyrralífsmyndar úr fortíð sem endanlega er horfin og söngvarinn spyr retórískrar spurningar: „where are we now?“ Þetta er ekki fortíðarþrá manns á sjötugsaldri, ekki heldur predikun um að allt sem áður var hafi verið betra, þvert á móti, við, sem göngum á hinum dauðu, þurfum að spyrja okkur hvar við séum núna, það er allt og sumt. Og samt er spurningin risastór, hún kallar á svör við því hvað við gerum við frelsið sem við fengum frá svarthvítum heimi kalda stríðsins.

David Bowie hefur með þessu lagi, sem hann vann með upptökustjóra sínum Tony Visconti, sýnt og sannað eina ferðina enn að hann skynjar tímann og er um leið á undan honum, meira að segja í þessu afturhvarfi sem er algjörlega í samræmi við ráðaleysi samtímans. Myndbandið var sett inn á youtube á 66 ára afmælisdegi hans án nokkurrar auglýsingar eða kynningar og einum og hálfum sólarhring síðar hefur hálf önnur milljón manna horft og hlustað á það. Þetta heitir að hitta á taug tímans og það er ekki nýtt hjá þessum listamanni sem stundum hefur verið kallaður „kamelljónið“. Það er bæði rétt- og rangnefni, hann endurspeglar aðeins þær breytingar tíðarandans sem kamelljónið mikla, tíminn, gerir á okkur og umhverfinu; því kamelljónið sem breytist er alltaf hið sama þótt það skipti litum eftir umhverfinu. Til þess að lifa af þarf það hins vegar að laga sig að því og falla inn í umhverfið og það er kannski spurningin sem við þurfum að velta fyrir okkur þegar Bowie spyr hvar við séum núna. Getum við breytt okkur eftir umhverfinu til að lifa af?


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *