Það er hins vegar útilokað. Þetta eru umdeild mál vegna þess að það er tekist á um mikla hagsmuni og þeir sem telja sig „tapa“ á framgangi þeirra berjast gegn þeim af öllu afli um leið og þeir sem telja sig „sigra“ róa öllum árum að því að koma þeim áfram.
Eitt herbragð andstæðinganna í báðum tilfellum er að kalla eftir „sátt“ í málinu því þegar augljóst er að útilokað er að ná þeirri sátt þá er málið vitaskuld dautt og þeir sem óttuðust að „tapa“ á framgangi þess „vinna“. Það er í sjálfu sér eina vinningsleið minnihluta hverju sinni að tefja mál þannig að þau nái ekki fram að ganga. Það er oftast auðveldara að verja óbreytt ástand en gera róttækar breytingar. Þess vegna stunda pólitíkusar á Íslandi og víðar málþóf þegar þeim finnst það henta.
Í lýðræðisríki hefur meirihlutinn hins vegar úrslitavaldið þegar til kastanna kemur og getur oft knúið fram þær breytingar sem hann telur réttar. En meirihluti getur þurft að lúffa fyrir mikilli umræðu sem verður andsnúin málatilbúnaði hans og skipulögðum aðgerðum til að tefja málin. Þegar svo er komið getur það litið ágætlega út að leita „sátta“, en það er ekki rétta hugsunin. Í þroskuðum lýðræðisríkjum, þar sem vald meirihlutans er viðurkennt og réttur minnihlutans til að hafa áhrif einnig, er oftar farin sú leið að leita málamiðlunar fremur en sátta. Þetta er það sem aðilar vinnumarkaðarins á Íslandi lærðu að einhverju marki eftir að „átakaleiðin“ varð öllum augljóslega lokuð. Hún leiddi aldrei til sátta heldur aðeins óraunhæfra samninga sem brunnu upp á verðbólgubáli sem kviknaði við undirskriftina sjálfa.
Málamiðlun er hin faglega leið til að leiða mál til lykta í þroskuðum lýðræðisríkjum. Hún felur í sér að enginn er fyllilega sáttur, en það hefur heldur ekki verið traðkað á hagsmunum hans í skjóli meirihlutavalds eða skipulegra tafa á framgangi mála. Þannig geta allir aðilar varið hagsmuni sína að einhverju leyti en gefið eftir að öðru og þótt þeir séu ekki sáttir við það geta þeir að minnsta kosti vel við unað. Er ekki kominn tími til að Íslendingar læri að beita málamiðlun víðar en á vettvangi atvinnulífsins?