Margir ritlistarnemar, fyrrverandi og núverandi, hafa sent frá sér bækur á árinu og allmargir hafa unnið til viðurkenninga. Talsvert hefur borið á þessum nemum, suma daga hafa þeir bæði verið framan á dagblöðum og í útvarpinu.
Síðastliðið vor var tilkynnt að tveir ritlistarnemar hefðu verið valdir úr hópi 30 umsækjenda til þátttöku í höfundasmiðju Leikskáldafélags Íslands og Þjóðleikhússins. Það voru þær Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Soffía Bjarnadóttir og voru brot úr verkum þeirra leiklesin 17. september.
Hinn 19. september afhenti Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra þremur ritlistarnemum nýræktarstyrki Bókmenntasjóðs. Dagur Hjartarson fékk styrk fyrir smásagnasafnið Fjarlægðir og fleiri sögur, Heiðrún Ólafsdóttir fyrir ljóðabókina Á milli okkar allt, sem þegar er komin út, og Soffía Bjarnadóttir fyrir textasafnið Segulskekkja.
Þá gaf Kristian Guttesen út ljóðabókina Vegurinn um Dimmuheiði og var henni vel tekið.
Hinn 3. október var svo tilkynnt að Dagur Hjartarson hlyti Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir ljóðabókina Þar sem vindarnir hvílast og fleiri einlæg ljóð. Bókin kom út samdægurs hjá Bjarti.
7. nóvember var tilkynnt að Kjartan Yngvi Björnsson hlyti Íslensku barnabókaverðlaunin ásamt Snæbirni Brynjarssyni fyrir bókina Hrafnsauga. Kjartan Yngvi og Snæbjörn fengu einnig bókmenntaverðlaun bóksala. Bókin kom út hjá Vöku-Helgafelli.
Hildur Knútsdóttir, sem er útskrifaður ritlistarnemi, gaf svo út táningabókina Spádóminn hjá JPV útgáfu og fyrir hana hreppti hún 3. sætið hjá bóksölum.
Annar útskrifaður ritlistarnemi, Bragi Páll Sigurðarson, gaf á dögunum út ljóðabókina Fullkomin Ljóðabók: ljóð, eða eitthvað (Til hamingju!) og hefur hún valdið nokkru fjaðrafoki.
Þóra Karitas Árnadóttir þýddi ásamt Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur bókina Þú afhjúpar mig eftir Sylviu Day.
Síðast en ekki síst gáfu ritlistarnemar nýverið út bókina Jólabók Blekfjelagsins. Þar er 31 jólasaga eftir 31 höfund og er hver saga nákvæmlega 100 orð. Höfundarnir hafa lesið sögurnar sínar í Víðsjá nú í desembermánuði. Blekfjelagið er nemendafélag ritlistarnema.
Ritlistarkennarar hafa einnig verið iðnir við að senda frá sér bækur. Undirritaður sendi frá sér bókina Ást í meinum, Sigurður Pálsson ljóðabókina Ljóðorkulind, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson sendi frá sér ljóðabókina Sjálfsmyndir og þýðinguna Hjaltlandsljóð sem hann var tilnefndur til þýðingaverðlauna fyrir. Þá hefur Anna Heiða Pálsdóttir sent frá sér bókina Mitt eigið Harmagedón sem hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna, Magnea J. Matthíasdóttir hlaut fyrr á árinu þýðingaverðlaun Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir Hungurleikana og loks má geta þess að sl. sumar var frumsýnt leikritið Gestaboð Hallgerðar eftir Hlín Agnarsdóttur og nú fyrir skömmu verkið Perfect sem hún skrifaði fyrir Þjóðleik.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
Leave a Reply