Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

Leikritið Tveggja þjónn eftir Richard Bean var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 12. október síðastliðinn. Leikurinn er byggður á verki Carlos Goldoni frá árinu 1746. Verkið er farsi í anda comedia dell‘arte en þessi tegund af farsa var vinsæl á Ítalíu á 17. öld. Helstu einkenni þessa leikstíls var ansi ýktur leikur,  þar sem persónur verksins voru yfirleitt alltaf þær sömu, t.d. kafteinninn, faðirinn, ungu elskendurnir og Harlequin. Allar höfðu þessar persónur hlutverki að gegna. Til dæmis voru elskendurnir oftar en ekki að fara á bak við föðurinn og reyndu að hittast á laun. Harlequin var þjónninn sem oft lenti í kröppum dansi. Spuni var stór þáttur í uppfærslum comedia dell‘ arte. Margar útgáfur eru af þessum persónum en Richard Bean hefur staðfært þessar skemmtilegu persónur til Evrópu nútímans.

Jóhannes Haukur Jóhannesson leiðir sýninguna sem þjónninn Francis (Harlequin). Francis leiðir áhorfendur í skilning um hvað gerist í sögunni og hver er hvaða persóna. Hann útskýrir meðal annars hvað það er sem drífur persónu hans áfram en flestar persónur farsa af þessu tagi (og reyndar gamanleikja yfir höfuð) eru drifnar áfram af frumhvötum; mat, drykk, græðgi, ást, kynlífi svo eitthvað sé nefnt.

Í raun er söguþráður verksins æði flókinn og erfitt að útskýra um hvað verkið er í raun. Francis þjónar tveimur herrum í einu. Í raun er um að ræða elskendur sem hafa sama markmið, að ná peningum Kalla (Pantalone). Kalli á dóttur (Clarice) sem á að giftast glæpamanni en hún elskar Alan. Fleiri persónur koma við sögu sem flækja málin enn frekar.

Jóhannes Haukur hefur sterka sviðsframkomu og góða rödd. Hann talar beint til áhorfenda, nýtir hvert tækifæri til spuna og hefur mjög hressandi viðveru. Örn Árnason leikur Kalla, ríkan náunga sem á dóttur sem hann vill gifta frá sér. Örn er eins og alkunna er fæddur gamanleikari og er bráðsnjall í hlutverki sínu. Elskendurna ungu leika þau Arnbjörg Hlíf Valsdóttir og Snorri Engilbertsson. Þeirra þáttur er frábær. Þau ofleika fram í rauðan dauðann, dramatíkin er alveg að fara með þau. Arnbjörg og Snorri eru ótrúlega skemmtileg í hlutverkum sínum.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir leikur lögfræðing (Il dottore), móður Alans, með miklum myndarbrag og er eins konar mótvægi við persónu Pantalone. Ólafía Hrönn Jónsdóttir er í hlutverki Dollýar, bókara hjá Kalla. Hennar persóna er byggð á Colombinu í comedia dell‘arte hefðinni en þar er hún hjákona Harlequins. Ólafía Hrönn er fædd gamanleikkona, ekki síst vegna þess að það er viss alvarleiki og festa í fari hennar sem verður enn skondnari á sviði í gamanleik.

Þá eru ótalin Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Jóhann G. Jóhannsson. Persóna Jóhanns er byggð á Il capitan og er oftar en ekki aðkomumaður. Vigdís leikur ástkonu hans sem þarf að dulbúast eins og maður og því felst ruglingur og flækja verksins. Jóhann og Vigdís eru skemmtileg í sínum hlutverkum. Baldur Trausti Hreinsson leikur Lloyd Boeteng, traustan vin Kalla af mikilli kímni. Síðast en ekki síst ber að nefna af leikurum, Ævar Þór Benediktsson og Eggert Þorleifsson. Ævar Þór er í ýmsum minni hlutverkum og gerir það vel. Eggert leikur gamlan og hruman þjón af einskærri snilld.

Tónlistin er í höndum KK og félaga hans og er stór hluti af verkinu og gefur því aukið líf. Leikarar stíga á stokk hver á fætur öðrum og taka lagið. Það er óhætt að fullyrða að sönghæfileikar hópsins eru með ágætum.

Leikmynd Jósefs Halldórssonar er litrík og vel við hæfi verksins, hefðbundin með nýstárlegu sniði. Búningar Filippíu Elísdóttur undirstrika persónueinkenni hvers karakters og eru sumir búningar vísun í þekktar persónur. Þarna er enn fremur mikill húmor á ferð.

Tveggja þjónn er afar vel heppnuð sýning og er leikstjóra hennar, Þórhildi Þorleifsdóttur, og öðrum aðstandendum til sóma.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *