Nú styttist óðum í Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, kennda við RIFF (Reykjavík International Film Festival). Að venju er mikill fjöldi kvikmynda á dagskránni sem raðað er í ólíka flokka. Sumir kunna að telja blað verða brotið í sögu RIFF í ár þegar ítalski hryllingsmyndaleikstjórinn Dario Argento hlýtur heiðursverðlaunin fyrir æviframlag sitt til kvikmyndalistarinnar. Undanfarin ár hafa hlotið verðlaunin leikstjórar á borð við Aleksandr Sokurov og Béla Tarr sem kenna mætti við hámenningu—eða a.m.k. háalvarlega listsköpun. Argento virðist í fljótu bragð ekki falla í þann hóp, en hann er engu að síður á meðal þeirra fáu leikstjóra sem tekist hefur að móta formúlumyndir eftir eigin höfði og skapa úr þeim áþreifanlegt og markvert höfundarverk. Segja má að hann hafi endursniðið hryllingsmyndina á svipaðan máta og landi hans Sergio Leone vestrann. Á hátíðinni verða sýnd tvö af hans frægustu verkum, Suspiria (1977) og Inferno (1980), auk nýjustu myndarinnar Dracula 3D (2012). Heimsókn Argento er án efa mikið fagnaðarefni fyrir fjölmarga unnendur leikstjórans hér á landi—þeim sem þekkja ekki til kappans er hægt að lofa afbragðsskemmtun sömuleiðis.

Leikstjórinn Susanne Bier fær í ár verðlaun hátíðarinnar fyrir framúrskarandi listræna sýn. Hún er eflaust mörgum landsmönnum að góðu kunn enda verið í fararbroddi danskrar kvikmyndagerðar mörg undanfarin ár. Hún sló í gegn á alþjóðavísu með Dogme-myndinni Elsker dig for evigt (2002), og á síðasta ári vann Hævnen (2010) óskarverðlaunin fyrir bestu erlendu myndina. Í millitíðinni leikstýrði hún m.a. kvikmyndinni Brødre (2004), sem Sigurjón Sighvatsson lét einmitt endurgera í Hollywood. Á hátíðinni verður Elsker dig for evigt sýnd ásamt Efter brylluppet (2006) og er óhætt að mæla með þeim báðum. Sú síðarnefnda er dæmigerð fyrir þá viðleitni Bier að setja Danmörku í alþjóðlegt samhengi, vega og meta tengsl fyrsta og þriðja heimsins. Nýjasta mynd hennar Love is All You Need (2012), sem er sömuleiðis á dagskrá hátíðarinnar, er þó af allt öðru tagi, en þar er um að ræða gamanmynd með Pierce Brosnan og Trine Dyrholm í aðalhlutverkum.

Auk þeirra Argentos og Bier sækja fjölmargir aðrir kvikmyndagerðarmenn hátíðina heim og verða viðstaddir sýningar á myndum sínum. Margir þeirra munu einnig taka þátt í ófáum málþingum sem skipulögð eru í tengslum við hátíðina. Upplýsingar um þá viðburði er að finna aftarlega í dagskrárbæklingi.

Líkt og allajafna er kvikmyndum hátíðarinnar skipt í ákveðna flokka. Kvikmyndirnar sem keppa um Gullna lundann eru í svonefndum vitrana-flokki en þar er um að ræða fyrstu eða aðra mynd leikstjóra og eru þeir því allajafna lítt þekktir. Margir þeirra hafa þó náð frama síðar meir og myndir í þessum flokki hafa verið almennt séð mjög góðar og á meðal þess albesta á hátíðinni. Í flokknum „Fyrir opnu hafi“ hefur yfirleitt verið að finna kvikmyndir eftir kunna leikstjóra og/eða myndir sem þegar hafa átt góðu gengi að fagna á kvikmyndahátíðum. Í ár eru myndirnar í þeim flokki þó ekki síður framandi en í vitrana-flokknum. Maður rennir því meira blint í sjóinn (hafið…) en mörg undanfarin ár.

Að vanda er mikill fjöldi heimildarmynda á dagskránni sem taka á æði fjölbreyttum viðfangsefnum; allt frá vændiskonum í þriðja heiminum til kínverskra hnefaleika, frá Freddie Mercury til Ai Weiwei. Þá er að finna sérstakan flokk „Önnur framtíð“ með kvikmyndum sem fjalla um ástand jarðarinnar og margvísleg umhverfisáhrif sem munu móta framtíð hennar. Einnig eru teknar sérstaklega fyrir bæði þýskar og íslenskar kvikmyndir og mýmargt annað er að finna á afar fjölbreyttri dagskrá hátíðarinnar. Að endingu hvet ég lesendur til að láta þetta mikla úrval ekki hræða sig frá kvikmyndahúsunum—fremur láta kylfu ráða kasti.

Björn Ægir Norðfjörð
lektor í kvikmyndafræði


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *