Kirkjugarður Þórunnar hyrnu og kristnisaga Eyjafjarðarsveita

Höfundar fá sér í nefið á góðri stund. Greina má Keili í baksýn.

Árnaðaróskir og áskorun til Akureyringa

Um leið og við bornir og barnfæddir Akureyringar, staðsettir við Skerjafjörð við Reykjavíkurflugvöll, óskum Akureyri til hamingju með afmælið og alla dýrðina menningarlega og sögulega viljum við koma með ábendingu og áskorun til þeirra sem fara með fjárráð fyrir bæinn. Hún er sú að stofna skuli sjóð til að fjármagna fornleifarannsóknir í Kristnesi, þar sem landnámsbær Helga magra og Þórunnar hyrnu stóð. Eitt af því sem búast má við að liggi  þar einhverstaðar undir grænni torfu er fyrsti kirkjugarðurinn í Eyjafjarðarsveitum því ekki hefur Þórunn hyrna frekar en Auður systir hennar viljað hvíla í óvígðri mold og ekki hefur hún heldur viljað að börnin hennar og afkomendur færu á mis við það.

Öll voru þau systkini Þórunnar, börn Kétils flatnefs, kristin nema Björn sem kallaður var hinn austræni. Það er þekkt að í keltneskri kristni að hæfileikaríkar konur komust til mikilla áhrifa og þar voru  klaustrin og bóndbýlin (kirkjubæirnir) burðarásar fremur en borgir og biskupsgarðar.  Kenninöfnin sem systur Þórunnar fengu eru til vitnis um að þær hafi verið trúarhetjur og fyrirmyndir. Djúpýðgi Auðar bendir til þess að hún hafi verið trúkona mikil og áhrifarík, búið yfir æðri þekkingu, e.t.v. verið spákona eða dulspekingur. Sama má segja um Jórunni sem var kölluð mannvitsbrekka. Hún hefur verið háspekingur, haft þekkingu á helgum hlutum, æðri þekkingu. Svo kraftmikil var Jórunn að þar sem afkomendur hennar námu land fyrir austan féll kristni ekki niður þegar heiðnin styrktist í sessi samkvæmt annálum sem séra Ari fróði færði í letur. Jafnvel hann varð að viðurkenna þetta sem hafði þó fordóma gagnvart annarri kristni en þeirri sem laut prestsþjónustu frá Róm.  Það verður því að hafa mikla fyrirvara um það sem Ari segir um kristni á landnámsöld, en við skulum  taka orð hans bókstaflega þegar hann segir að hafa skuli það sem sannara reynist. Fornleifarannsóknirnar tala skýru máli þar sem búið er að grafa upp kirkjur sem hafa verið byggðar fyrir hin opinberu trúskipti árið 1000. Menn hafa verið blendnir í trúnni þá eins og nú og auk þess fáir prestar til að þjónusta fólkið.

Þegar aðstæður kölluðu kom í ljós að Auður hikaði ekki við að taka að sér mannaforráð á opinberum vettvangi. Eiginmaður henna féll í bardaga og sömuleiðis Þorsteinn sonur hennar. Þá tekur Auður við, ráðstafar eignunum, giftir burt barnabörn sín og heldur í landnámsleiðangur til Íslands.  Athafnasvið Þórunnar systur hennar markast af heimilinu og heimilishaldinu og þar með uppeldi barna og eftirliti með gestum og hjúum. Karlinn hennar hinn magri, sem var blendinn í trúnni eins og frægt er, átti það til að detta í að blóta Þór í harðræðum úti á sjó í tvísýnum veðrum þegar konan var ekki við hlið hans, en í Kristnesi var hann spakur og alkristinn og þar hefur hann lotið húsaga konunnar.

Frásagan af landnámi Helga bendir til þess að sonur hans Hrólfur hafi verið kristinn því trú föður hans á Þór og leiðsögn hans að fyrirheitna landinu fór greinilega í taugarnar á honum. „Mundi kallinn fara alla leið norður í Dumbshaf bara ef honum fyndist Þór vísa þangað,“ sagði hann eða eitthvað þessu líkt. Börn Þórunnar  giftust og settu á stofn bú í Eyjafirði og líklegt er að þau hafi öll verið kristinnar trúar þótt sum þeirra hafi komist upp með það að vera blendin í trúnni. Líklegt er að þau hafi verið skírð ef náðist til presta, en þeir hafa ekki verið á hverju strái á landnámstímanum og jafnvel fram á 12. öld var prestaskortur.  Þar sem sagt er að afkomendur  Þórunnar hafi verið prímsigndir eða skírðir af Friðriki farandbiskupi þá þýðir það ekki að þeir hafi verið heiðnir áður, ekki frekar en þeir unglingar sem stundum eru skírðir 13 ára rétt fyrir fermingu af því að það hefur farist fyrir þegar þeir voru barnungir. Þangbrandur, trúboðinn með sverðið, pólitískur útsendari Noregskonungs, hætti sér ekki inn í Eyjafjörð vegna þess að þar voru kristnir höfðingjar sem sáu í gegnum áform hans.

Þetta fólk hefur komið sér upp helgistöðum, krossum og kapellum þar sem það hefur tignað guð sinn og dýrlinga og það hlýtur að hafa komið sér upp kirkjugarði fyrir sig og sína. Það  hefur líka kunnað að laga sig að siðum heiðinna manna til þess að halda friði í landinu, en á sínum kirkjujörðum hefur það haldið kristnum sið, m.ö.o. verið frjálslynt í sinni trú. Það væri því vert að kanna þetta  nánar og leggja nú nokkuð fé til þess arna í tilefni af merkum tímamótum. Kristnisaga Eyjafjarðarsveita nær alveg aftur að landnámi og mikill fengur væri að nákvæmri vitnesku um siði og hætti landnásmfólksins þar og fyrstu afkomenda þeirra.

Oddur Helgason er æviskrárritari og Pétur Pétursson
prófessor við Guðfræðideild Háskóla Íslands.


Comments

One response to “Kirkjugarður Þórunnar hyrnu og kristnisaga Eyjafjarðarsveita”

  1. Sigrún Valdimarsdóttir Avatar
    Sigrún Valdimarsdóttir

    Gaman að sjá Odd speking frænda og Pétur skólabróður samankomna í grein um Helga og Þórunni frænku!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *