Undanfarin misseri hefur verið borið á borð fyrir Íslendinga nýjasta verkið á leiksviði þjóðmálanna. Höfundurinn er forseti okkar, Ólafur Ragnar Grímsson, og hefur hvergi verið til sparað til að gera leikgerðina sem glæsilegasta. Handritið sem slíkt er vissulega frumlegt. Hverjum hefði annars dottið í hug að fullorðinn maður þyrfti að láta klappa sig upp eftir 16 ár í embætti?
Fyrsti þátturinn kom fyrir sjónir okkar um áramótin. Þar talaði forseti vor í kringum það umræðuefni sem flestir höfðu áhuga á: hvort hann myndi sækjast eftir endurkjöri í fjórða sinn. Yfirlýsingar forsetans skildu flestir á þann hátt að hann ætlaði að setjast í helgan stein eða snúa sér að öðrum málum en þó vakti athygli að hann forðaðist að segja beinum orðum að hann gæfi ekki kost á sér.
Fréttamenn brugðust við skjótt og hringdu, hver á fætur öðrum, á forsetaskrifstofuna til að krefja manninn sjálfan skýrari svara. En Ólafur neitaði að svara öllum spurningum. Blaðamennirnir hefðu eins getað rætt þetta mál við álftirnar á Bessastaðatjörn, frekari svör var ekki að fá að svo stöddu.
Það var því vita eðlilegt að fólk spyrði hvert annað hvað Ólafur Ragnar ætlaði sér með slíkri þögn, af hverju landsmenn mættu ekki vita hvort hann ætlaði aftur fram. Á meðan sátu þeir sem mögulega renndu hýru auga til embættisins og nöguðu á sér neglurnar. Svo virtist sem enginn þyrði í forsetaslag við Ólaf.
Í næsta þætti leikritsins sat Ólafur enn bak við luktar dyr en Guðni Ágústsson og ýmsir vaskir hjálparsveinar komust þá í sviðsljósið með því að hefja undirskriftasöfnun og hvetja forsetann til að halda áfram í embætti. Söfnunin virtist þó frekar vafasöm, ekki var hægt að sjá nöfn þeirra sem skrifuðu undir og óljósar fregnir bárust af stuðningi íbúa Andabæjar við forsetann. 30 þúsund undirskriftir söfnuðust og marseruðu forsvarsmennirnir til Bessastaða þar sem Ólafur Ragnar veitti þeim viðtöku. Það lá við að rödd hans brysti er hann þakkaði stuðninginn sem kæmi honum gjörsamlega í opna skjöldu. Hann lauk máli sínu með hjartnæmu loforði um að íhuga vel stöðu sína og skyldur gagnvart þjóð sem svo greinilega þyrfti á honum að halda. Á hægri vængnum mátti sjá Guðna Ágústs þurrka tár af hvarmi.
Þriðji þáttur var svo loks leikinn þann 4. mars seinastliðinn, með yfirlýsingu forseta vors um að hann gefi kost á sér í embættið, kannski út kjörtímabilið, kannski ekki. Að sögn finnur hann fyrir ríkum vilja þjóðarinnar til að hann sitji áfram.
Nokkur atriði í fléttu leikverksins standast þó ekki nána skoðun. Til að mynda rökstuðningur Ólafs Ragnars þegar hann segir vera umrót á vettvangi þjóðmála. Hvernig ætlar hann að lægja öldurnar, þessi forseti sem hefur klofið þjóðina í herðar niður með pólitískum útspilum sínum á seinustu árum? Einnig segir hann vera átök um fullveldi Íslands. Ætlar hann að sitja sem fastast á forsetastóli til að hafa eitthvað að segja um ESB samningaviðræðurnar? Með hvaða markmiði?
Og hver er þessi ríki vilji þjóðarinnar? Rúmlega 13% atkvæðabærra landsmanna eru á þessum undirskriftalista. Ætla mætti að 13% landsmanna vilji fá Justin Bieber til landsins en seint yrði það túlkað sem ríkur vilji þjóðarinnar.
Ég set einnig spurningarmerki við persónusköpun í leikritinu. Ólafi Ragnari var stillt upp af honum sjálfum sem lausnara þjóðarinnar en mér fannst hann óviðfeldinn og ótrúverðugur í því hlutverki. Að auki fannst mér allur leikur sérstaklega lélegur og vil ég þá helst nefna atriðið á Bessastöðum sem væntanlega átti að vera hjartnæmt en var í staðinn einstaklega hallærislegt.
Ólafur Ragnar á örugglega til handrit að fleiri slíkum leikþáttum en ég bið hann lengstra orða að hætta núna. Þetta kléna leikrit fær núll stjörnur.
Ragnheiður Júlía Ragnarsdóttir,
meistaranemi í menningarfræði.
Pistillinn er skrifaður í námskeiði í menningarfræði.
Leave a Reply