Ég er feministi því ég er tilbúin að berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Af sömu ástæðu hvet ég alla feminista til að berjast fyrir foreldrajafnrétti og þar með fyrir réttindum feðra ekki síður en mæðra í skilnaðarmálum. Sameiginleg forsjá þýðir sameiginleg ábyrgð og vaxandi hópur feðra tekur þessari skyldu opnum örmum. Það er mikilvægt skref í okkar samfélagi að endurskilgreina tengsl feðra við börn sín í íslenskum lögum og þegar feður sækjast eftir jafnri ábyrgð á börnum sínum er það jákvæður mótþrói við ríkjandi kynhlutverk.
Föstudaginn 10. febrúar hélt Félag um foreldrajafnrétti ráðstefnu í Háskólanum í Reykjavík en félagið berst fyrir því að styrkja stöðu feðra í íslenskum lögum. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar var nýtt frumvarp á Alþingi um barnalög og heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá í tilfellum þar sem foreldrar ná ekki samkomulagi sín á milli. Þessi heimild var fjarlægð úr frumvarpinu en hún er mikilvæg til að tryggja jafnrétti feðra í skilnaðarmálum.
Mótrök gegn heimildinni eru að ef foreldrar ná ekki samkomulagi er ekki gagnlegt að neyða þá til sátta. Eins og staðan er í dag má dómari eingöngu dæma forsjá í hendur öðru foreldri og í langflestum tilfellum er dæmt móður í hag. Því hafa mæður yfirhöndina á sáttarfundum um forsjá barna þar sem þær geta verið vongóðar um sigur ef málið fer fyrir dómara. Það þjónar ekki hagsmunum barnsins að annað foreldri þess missi forsjá vegna þess að foreldrarnir náðu ekki saman. Ef heimild dómara að úrskurða um sameiginlega forsjá yrði samþykkt stæðu foreldrar jafnt á sáttarfundum. Þeir myndu einnig vita að það er þeirra hagur að komast að samkomulagi því dómari gæti úrskurðað þannig að þau hefðu ekki val um annað.
Önnur mótrök gegn heimildinni eru að ef um heimilisofbeldi er að ræða þá getur móðir sem hefur sætt ofbeldi misst það litla vald sem hún hafði í skilnaðinum. Jafnframt er efast um hæfni dómara til að átta sig á ofbeldissamböndum. Það væri alvarlegt ef dómari hunsaði ásakanir móður um ofbeldi. Ef að barni steðjar hætta frá föður þá verður að sjálfsögðu að vera leið til að meta það í skilnaðarferlinu og tryggja að barnið sé aldrei sett í hættu. Tvær spurningar vakna við þessi mótrök. Eiga fundir um forsjá barns að vera vettvangur valdabaráttu? Sáttarfundir eiga fyrst og fremst að snúast um hagsmuni barnsins. Eiga allir feður að líða fyrir það að sumir karlmenn eru ofbeldismenn? Það er alvarlegt misrétti gagnvart feðrum.
Á ráðstefnunni við HR voru fimm gestafyrirlesarar og allir mæltu með heimildinni. Einn fyrirlesarinn var karl en hinir fjórir konur. Dr. Asbjørn Strandbakken, norskur prófessor í lögfræði lagði í sínum fyrirlestri áherslu á að málefnið snerist ekki um kynjamisrétti heldur réttindi barna því það eru grunnmannréttindi barns að þekkja báða foreldra sína. Barnalögin eru sett til að vernda hagsmuni barna og því er áherslan hans rétt en ég er þó ekki sammála því að útiloka málefnið frá umræðunni um stöðu kynjanna.
Konur hafa barist fyrir jafnrétti á vinnumarkaði og eru ennþá óunnin verk að vinna þó framför hafi svo sannarlega átt sér stað. Breytt hlutverk kvenna í samfélaginu hefur aftur á móti orðið til þess að fjölskyldu og- heimilisskyldur hafa einnig fallið í hlut karlmanna. Kynhlutverk eru að breytast og á sama hátt og konur hafa sýnt að þær eru jafnhæfar körlum utan heimilis hafa karlar sýnt að þeir eru jafnhæfir konum við barnauppeldi. Líffræðilegt kyn einstaklings ákvarðar ekki hæfni hans sem foreldri. Því skora á ég feminista að fjalla ítarlega um réttindi feðra og veita þeim meðbyr í baráttu þeirra því þá komumst við nær okkar markmiði sem er algjört jafnrétti á milli kynjanna.
Þorbjörg Gísladóttir,
meistaranemi í menningarfræði
Pistillinn er skrifaður í námskeiði í menningarfræði.
Leave a Reply