En nú eru aðrir tímar og The Artist hverfist kannski um það öðru fremur; hún er í sjálfu sér viðurkenning á stöðu enskunnar með snilldarlegum hætti. Þótt frönsk sé gerist myndin í Hollywoodlandi og fjallar um stórleikara á hátindi frægðar sinnar sem hittir unga og íðilfagra leikkonu sem er að taka sín fyrstu skref. Klisjukennt og það er eitt af því sem þessi mynd lifir á; að taka upp klisjur og fara með þær alla leið á melódramatískan hátt, nokkuð sem sennilega tekst svo vel af því myndin er ekki talmynd.
Átökin í dramanu felast í því að stjörnuleikarinn afneitar tilkomu talmyndanna og gerir meira að segja tilraun til að framleiða sjálfur þögla stórmynd eftir að talmyndirnar eru „komnar til að vera“ eins og sagt er. Írónían í myndinni felst í því að áhorfendur vita ekki, heyra ekki fyrr en í lokin hvers vegna melódramað er raunverulegt drama, harmleikur nánast, því aðalsöguhetjan hefur einmitt einn harmrænan galla svo þýtt sé hrátt úr ensku.
Myndin er frábærlega vel gerð og heldur áhorfendum föngnum allan tímann sem hlýtur að vera afrek þegar um þögla mynd er að ræða árið 2012. Hún orkaði svo sterkt á salinn þegar ég fór að sjá hana að á einu dramatískasta augnabliki hennar hefði mátt heyra saumnálina frægu detta, því nákvæmlega á þessu augnabliki var ekki einu sinni leikin tónlist undir heldur fengum við að „heyra“ þögnina í salnum. Ótrúleg og áþreifanleg þögn sem samsamaði áheyrendur verkinu á því andartaki sem virtist enn lengra vegna þess að allir í salnum héldu niðri í sér andanum.
Ég velti því lengi fyrir mér hvers vegna Frakkarnir gerðu þessa mynd einmitt á ensku og notuðu bandarískt sögusvið. Það er kannski aukaatriði gæti mönnum fundist, en það er það alls ekki; þetta er það sem myndin snýst um, ofurvald hins talaða máls kvikmyndanna og þar með enskunnar.
Lausninni á tragedíunni er snúið upp í kómedíu í lokin og með hrikalegri íróníu kemur fram viðurkenning, í raun kapítúlasjón franskrar tungu fyrir þeirri ensku. Síðasta atriði myndarinnar er ekki þögult og þar verða áhorfendur vitni að hinum raunverulega ósigri frönskunnar sem er svo afgerandi að eins mætti kalla þessa mynd Frakkarnir þagna.
Leave a Reply