Sagan er heldur óljós, það verður bara að segjast eins og er. Ung kona sem á von á barni fyllist vonleysi um framtíðina þegar faðir hennar, vísindamaður, telur henni trú um að heimurinn sé að hruni kominn og það væri bjarnargreiði að ala barn í þann heim. Í örvæntingu leitar hún einhvers sem gæti varpað ljósi á málin. Við sögu koma, auk vanfæru konunnar og föður hennar, eiginmaður, tvær systur ásamt látinni móður, og fólk héðan og þaðan. Verkið er langt, alltof langt, og skilur lítið eftir sig. Þarna eru klisjur um endalok heimsins og hvernig manneskjan getur svikið sjálfa sig og aðra ef nógu miklir peningar eru í húfi. Kannski má segja að verkið sé um leitina að sannleikanum. Þar sem þetta þema er gamalkunnugt og margnotað þá er nauðsynlegt fyrir unga höfunda að nálgast það á annan og ferskari hátt en tíðkast. Mark Bartlett tekst það ekki hér.
Þótt verkið sé ekki veigamikið þá er leikstjórn og leikur með ágætum. Leikstjórinn hefur komist að góðri niðurstöðu um skiptingu leikara og heildarnálgun á leikritinu. Nemendur standa svo alveg fyrir sínu. Það er erfitt að finna verk, eins og áður sagði, sem leyfir hverjum og einum að njóta sín án þess að skyggja á aðra eða hverfa inn í hópinn. Hlutverkin eru mörg og flestir leikaranna fara með fleiri en eitt hlutverk, með undantekningum þó. Því er varla hægt að segja að einhver einn hafi skarað fram úr, öll voru þau mjög frambærileg og hvert og eitt hefur sín sérkenni. Til dæmis var Sigurður Þór Óskarsson mjög góður í kómískum atriðum, Snorri Engilbertsson býr yfir mikilli dramatík og tækni, Saga Garðarsdóttir og Ólöf Haraldsdóttir hafa báðar gríðarlega sviðsnærveru. Olga Sonja Thorarensen lék m.a. unglingsdrenginn Pétur með ágætum, Hjörtur Jóhann Jónsson hafði einstaka hlýju og jarðtengingu sem gerði hlutverk hans trúverðug. Kolbeinn Arnbjörnsson, Tinna Sverrisdóttir og Sara Margrét Norðdahl fóru laglega með sín hlutverk. Öll hafa þau ágæta framsögn og radd- og líkamsbeitingu.
Hljóðmynd. Ljós og videó þjónuðu vel verkinu sem á að gerast í fortíð, nútíð og framtíð. Leikmyndin var einföld og „funksjónal“.
Þrátt fyrir að Jarðskjálfti í London sé nokkuð langdregið verk og boðskapur þess missi marks að mati undirritaðrar þá má óska Leiklistardeild Listaháskólans til hamingju með frambærilegan árgang nemenda. Full ástæða er að hlakka til næstu sýningar.
Leikarar: Hjörtur Jóhann Jónsson, Kolbeinn Arnbjörnsson, Olga Sonja Thorarensen, Ólöf Haraldsdóttir, Pétur Ármannsson, Saga Garðarsdóttir,Sara Margrét Norðdahl, Sigurður Þór Óskarsson, Snorri Engilbertsson og Tinna Sverrisdóttir. Einnig taka aðrir nemendur þátt í sýningunni.
Leikmynd og búningar: Tinna Ottesen
Myndband: Brynja Björnsdóttir
Hljóðmynd: Georg Kári Hilmarsson
Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson
Danshöfundur: Brogan Davidson
Þýðing: Heiðar Sumarliðason
Leikstjórn: Halldór E. Laxness.
Leave a Reply