Allt frá Dægurvísu Jakobínu Sigurðardóttur (1965) hefur það verið vinsælt að láta fjölbýli ólíkra fjölskyldna standa eins og táknmynd af samfélaginu. Hér er þessi leikur leikinn; Dóróthea er heimavinnandi húsmóðir og Ríkarður er verkamaður. Hann er kúgari og hrotti, hún kúguð og brotin. Sonur þeirra hálffullorðinn, starfar að því að þroskast í skjóli móður sinnar. Á efri hæð í blokkinni býr fráskilin millistéttarkona, flott, kjaftfor og hörkufemínisti. Á annarri hæð blokkarinnar býr einhleypur maður sem er fulltrúi (hæpinnar) verslunar og viðskipta en hann er líka eins konar listamaður. Hann þýðir nefnilega danskar ástarsögur fyrir útgáfu fyrir norðan. Hann er metnaðarfullur þýðandi en stingur inn í flata og staðlaða textana eigin hugleiðingum og tilvitnunum í íslenskar öndvegisbókmenntir til að mennta lesendur. Þannig lýstur niður í huga hans að „bókin sem heitir Et kærlighedsbrev til Amina á frummálinu eigi að heita Háa skilur hnetti eða jafnvel Andar sem unnast á íslensku. (210-211) Undir fyndninni er samt þung undiralda.
Nóvember 1976 fer frekar hægt af stað og tekur sér góðan tíma í að undirbyggja átök sögunnar og kynna persónur. Stíllinn minnir mig svolítið á Guðberg Bergsson í sínum nákvæmu nánast vísindalegu lýsingum á nauðahversdagslegum athöfnum og samræðum sem verða fyrir bragðið allt að því súrrealískar. Við fylgjumst með því hvernig Dóróthea reynir að lesa fyrirætlanir bónda síns og gera það sem hann vill áður en hann segir það til að reita hann ekki til reiði og ofbeldis. Eftir að persónum hefur verið stillt þannig upp víxlast þær. Femínistinn ætlar að bjarga kúguðu húsmóðurinni sem hefur ákveðið að bjarga sér sjálf og bregst ókvæða við. Braskarinn á annarri hæðinni ætlar að bjarga drengnum Þóroddi, koma honum í vinnu og gera að manni og það endar með ósköpum. Ekkert fer eins og ætlað er. Og yfir öllu þessu vakir sjónvarpið sem ameríski herinn færði okkur upphaflega.
Haukur Ingvarsson rekur hina tragíkómísku sögu sjónvarpsins á Íslandi sem er strax byrjað að móta stjórnmál og menningarlíf landans, búa til stjörnur og gera aðra menn ósýnilega. Frá 1963 hafði herstöðin á Miðnesheiði sent út amerískt sjónvarp sem þeir heppnu menn á Suðurnesjum sem áttu sjónvarp gátu horft á að vild. Þær útsendingar voru ekki takmarkaðar við Völlinn fyrr en 1974. Ég hef hitt Íslending, búsettan í Kaliforníu, sem sagðist hafa farið að gráta úr gleði þegar hann sá Lucy Ball fyrst í gömlum sjónarpsþætti nýfluttur til USA. „Mér fannst ég kominn heim og orðinn aftur barn“ sagði hann.
Með Kanasjónvarpinu kom amerísk fjöldamenning til Íslands sem var liður í því ferli sem Svava Jakobsdóttir kallaði „hernám hugarfarsins“. Það er ómögulegt að stilla sig um að skoða meðferðina á Kanasjónvarpinu í bókinni sem táknræna en ekki er vert að afhjúpa í ritdómi í hverju hún felst. En eftir hinn tilfinningalega „Mikla hvell“ sem verður milli persónanna eru allir þræðir bókarinnar dregnir saman í þeirri kenningu að snjórinn á biluðu sjónvarpstæki séu örbylgjur í andrúmsloftinu með rætur í Mikla hvelli fyrir milljónum ára. Eyðilegging og sköpun í sjónvarpinu? Já – kannski en það hefði mátt undirbyggja lokakaflann betur, að mínu viti. Ekkert breytir því þó að þessi fyrsta skáldsaga Hauks Ingvarssonar er verulega áhugaverð.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
Leave a Reply