Málfar allgott en nálgast skýrslugerð!

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Hjalti Hugason segir ríkari kröfu gerða til hugvísindafólks um stíl og telur ástæðu þess meðal annars þá að fjölmargar greinar hugvísinda eigi rætur að rekja til bókmenntaiðju fyrri alda.
Hjalti Hugason segir ríkari kröfu gerða til hugvísindafólks um stíl og telur ástæðu þess meðal annars þá að fjölmargar greinar hugvísinda eigi rætur að rekja til bókmenntaiðju fyrri alda.

Í sumar fékk ég grein úr ritrýni. Niðurstaðan var jákvæð og athugasemdir fyrirsjáanlegar. Hér var því ekkert sem sætti tíðindum. Eitt atriði rýninnar hefur þó fylgt mér síðan. Annar rýnirinn kom inn á málfar greinarinnar með þessum ummælum: „Málfar er allgott en hefur hins vegar tilhneigingu til að nálgast skýrslugerð.“

Ég hugsa að ritrýnirinn hafi hitt naglann á höfuðið  og þá ekki aðeins um þessa grein heldur fjölmargt annað sem ég hef látið frá mér fara. Ég skrifa oftast fast að lengdarmörkum. Þá verða orð oft dýr og farin skemmsta leið í að koma hugsun sinni til skila. Svo skrifa ég almennt flatan stíl og hversdagslegan. Allt á þetta skylt við skýrslugerð. Til varnar mér get ég svo nefnt að greinin fjallaði um lögfræðilegt efni og lagatexti er oftast þurr og knappur. Hvernig nýttust lög ef þau væru sett fram á bókmenntalegan hátt? Við skulum þó ekki vanmeta fagurfræði laga.

Á liðnu sumri fékk ég líka grein til ritrýni. Hún fjallaði um brýnt samfélagslegt umræðu- og jafnvel deiluefni sem lýtur að mennta- og trúarpólitík í landinu. Greinin fékk mín bestu ummæli á öllum sviðum nema mér fannst hún vera á uppkastsstigi hvað málfar áhrærði. Líklega hafði höfundur lent í tímaþröng.

Nú má spyrja: Koma ritrýnum málfarsleg atriði eitthvað við umfram það að benda höfundum góðfúslega á augljós pennaglöp ef þeir þá gefa sér tíma til? Þeir eru hvorki prófarkalesarar né málfarsráðunautar enda margir illa til slíkra verka fallnir. Svo er hitt auðvitað stærri spurning: Skiptir stíll og málfar á ritrýndum fræðigreinum einhverju verulegu máli meðan hugsun er á annað borð skýr, inntak kemst til skila og engar meginreglur ritunar eru fyrir borð bornar, það er þegar lágmarkskröfum til prentaðs máls er fullnægt? Er yfir höfuð eitthvað á móti því að hugvísindafólk skrifi skýrslur til birtingar í fræðiritum? Hefði til dæmis raunvísindamaður fengið sömu umsögn? Ég vil ekki fortaka það en tel samt ríkari kröfu gerða til hugvísindafólks um stíl.

Hvers vegna ætli svo sé? Skýringarnar geta verið ýmsar en eiga margar sammerkt í tensglum hinna ýmsu greina hug- eða mannvísinda við fyrirbæri sem liggja utan þeirra sjálfra. Fjölmargar greinar þeirra eiga til dæmis rætur að rekja til bókmenntaiðju fyrri alda. Sagnfræðin er til að mynda sprottin upp úr sagnaritun miðalda þar sem sagan var sett fram með ýmsu móti — til dæmis í annálum — en líka þar sem mörk söguritunar og skáldskapar voru óljós hvað varðar málfar og framsetningu. Þessi uppruni sagnfræðinnar kann að varðveitast í sagnfræðilegum stíl. Þá má benda á að viðfangsefni hugvísindanna eru oft á tíðum fagurfræðilegs eðlis. Til dæmis fjalla þau oft um bókmenntir og þarf þá ekki bókmenntafræðinga til. Það þykir ekki óeðlilegt að niðurstöður í bókmenntarannsóknum séu settar fram á bókmenntalegri hátt en þegar um kjarneðlisfræðilegar niðurstöður er að ræða. Loks má benda á að viðfangsefni hug- og mannvísinda hafa oft tengsl við eða gildi fyrir miðlun utan fræðigreinarinnar sjálfrar. Þannig á prédikun að spretta af fræðilegri vinnu prédikarans sjálfs eða einhvers sérfræðings sem hann eða hún kýs að leita í smiðju til.

Það kann líka að vera að sú ríka krafa sem gerð er um að málfar, stíll og önnur fagurfræði hugvísindalegs texta fari fram úr þurri skýrslugerð stafi af því að fólkinu í landinu standi ekki á sama um hvað hugvísindafólk hefst að. Það vill eiga greiðan aðgang að verkum okkar, vill geta lesið þau sér til gagns, vill að við aðstoðum það og þjálfum í að hugsa um líf sitt og tilveru í sögu og samtíð. Til þess nægja ekki skýrslur. Því „bókmenntalegri“ sem við leyfum okkur að vera því gagnlegri verða verk okkar í þessu efni.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *