Um höfundinn
Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson er prófessor í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Björn er með doktorspróf í heimspeki frá Université Paris VIII (Vincennes-St. Denis) í Frakklandi. Sjá nánar

Þegar Noam Chomsky birtist á sviðinu í Háskólabíói síðastliðinn föstudag mátti glögglega greina stöku fagnaðar- og hrifningaróp gegnum dynjandi lófatakið. Heiðursgesturinn sjálfur lét sér að vísu fátt um finnast og tók vafningalaust til máls um leið og sviðsforseti vor hafði lokið kynningu sinni – líklega væri fulldjúpt í árinni tekið að segja að hann hafi hafið upp raust sína í miðri setningu, en tilfinningin sem greip undirritaðan var í það minnsta eitthvað í líkingu við það að hér væri komið gamalt rokkband, sem vissulega hefði engu gleymt en væri þó ef til vill komið spölkorn yfir vatnaskilin á vegferð sinni, og væri nú að renna sér í einn af sínum kunnustu slögurum, ekki alveg í fyrsta sinn. „Tvisvar sinnum 11. september“ hét fyrirlesturinn, og Chomsky dró hlustendur sína ekki lengi á að skýra til hvers þar er vísað: ekki bara 11. september 2001, sem okkur er sagt að sé dagurinn sem breytti gangi sögunnar, heldur líka 11. september 1973, sem var öllu örlagaríkari dagur að mati fyrirlesarans.

Í anda yfirskriftarinnar var fyrirlesturinn að langmestu leyti helgaður gagnrýni á utanríkisstefnu Bandaríkjamanna, með sérstakri áherslu á Rómönsku Ameríku og morðið á Osama bin Laden. Hér verður hins vegar látið hjá líða að rekja efni lestrarins frekar, enda er það allsendis óþarft á öld hinnar altæku miðlunar: lesendur geta sjálfir hlýtt á lesturinn á afmælisvef Háskóla Íslands (eða neðst á þessari síðu), nú eða lesið hann, nokkurn veginn stafrétt, á vef Al Jazeera eða í vefritinu TomDispatch (eða jafnvel, að hluta til, hér á Hugrás, löngu áður en sjálfur fyrirlesturinn var haldinn!). Fram kom í máli Chomskys að aðstandendur fyrirlestrarins hefðu farið þess sérstaklega á leit við hann að gera 11. september að umtalsefni, og þó að það efnisval hafi á margan hátt verið tilvalið í ljósi þess að fyrirlesturinn fór fram aðeins tveimur dögum fyrir tíu ára afmæli hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin, getur sá sem þetta skrifar ekki bægt frá sér þeirri tilhugsun að gaman hefði verið að fá gamla brýnið til að horfa eilítið meira fram í tímann, í stað þess að taka enn og aftur þennan gamla standard.

Og svo hefði Chomsky líka gjarnan mátt tala aðeins lengur – og gefa gestunum (í það minnsta þeim sem komust inn í aðalsalinn en þurftu ekki að láta sér nægja að horfa á dýrðina á tjaldi í litlu hliðarsölunum) færi á að varpa fram nokkrum spurningum og athugasemdum. Að horfa á slíkan samfélagsrýni sem Chomsky stíga úr pontu eftir rétt rúmlega hálftíma málflutning og ganga til sætis, og mega kyngja því að meira var það ekki, var vissulega ákveðnum beiskleika blandið. Sárabótin var þó tilhugsunin um væntanlegt viðtal við Chomsky í Silfri Egils sem sviðsforsetinn benti fundargestum á í lokaorðum sínum. Og segja má að í viðtalinu því arna hafi samfélagshugsuðurinn sannarlega þaggað niður í óánægjuröddinni sem þá hafði nöldrað í hugskoti undirritaðs í nærri tvo sólarhringa. Ekki var nóg með að hann brygði sínu skarpa kastljósi á þátt „okkar Íslendinga“ í því allsherjarhruni fjármagnskapítalismans sem ekkert lát virðist á – örlaði á góðlátlegu glotti í annars svipbrigðalitlu andliti hans þegar hann talaði um þá bandbrjáluðu stefnu, „totally mad policy“, sem hér hefði verið fylgt í aðdraganda hrunsins (og kannski líka eftir það)? – heldur beindi hann líka sjónum fram í tímann og velti t.d. fyrir sér endurnýjuðum uppgangi öfgafullra heimsendasinna innan Repúblikanaflokksins: þar er kominn flokkur manna, með Rick Perry í broddi fylkingar, sem trúa því beinlínis að endurkoma Krists til jarðarinnar sé á næsta leiti og því sé, svo dæmi sé tekið, öldungis óþarft að takast á við aðsteðjandi vandamál eins og hlýnun jarðar. Jafnframt tók Chomsky kenninguna um óstöðvandi framsókn Kínaveldis á alþjóðavísu til bæna, og fann henni flestallt til foráttu – Kína væri í besta falli risi á brauðfótum, undirlagður af innanmeinum.

Fleira sagði hann sem ekki verður rakið hér. En spyrjum að lokum, nú þegar allt er um garð gengið: hver voru skilaboð Chomskys til okkar? Eða, öllu heldur, hvað getum við nýtt okkur úr máli hans? Hér eru þrír punktar: (1) Við þurfum að takast á við þá brýnu umhverfisvanda sem að okkur steðja. (2) Við verðum að koma böndum á – og helst losa okkur við! – fjármagnskapítalismann, landsins nýja forna fjanda, og raunar heimsins alls. (3) Við þurfum að rjúfa tengsl fjármagns og stjórnmála, færa stjórnmálin af stalli og niður til fólksins. Við þurfum svo sem ekki Chomsky til að segja okkur þetta, en það sakar ekki að hafa hann með í liði.


Comments

One response to “Björgum okkur!”

  1. Þórhalla Guðmundsdóttir Beck Avatar
    Þórhalla Guðmundsdóttir Beck

    Ég fór á málfræðifyrirlesturinn og fékk nákvæmlega þessa sömu tilfinningu með gamla rokkarann og slagarann hans. Það var kannski aðeins andaktugra andrúmsloftið þar en það er ágætt að vita að það var ekki bara ég að ímynda mér það að það væru allir að slefa yfir sig yfir karlinum 😀

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *