Í bókmenntatímaritinu Stínu kenndi Guðbergur Bergsson nýlega „blaðamannabjánum, fjölmiðlakjánum, gagnrýnendum og bókmenntafræðingum“ um að „reyna að drepa ritlistina með blaðri í fjölmiðlum“ og virðist drápsvopnið einna helst vera lofsamlegar umfjallanir um lélegar glæpasögur.[2] Yfirlýsingunni fylgdi þó enginn frekari rökstuðningur og viðbrögðin – sem voru nánast engin – sýna að alhæfingar sem kastað er fram á þennan hátt eru ekki til þess fallnar að koma af stað gagnrýninni og áhugaverðri umræðu. Þær drepa í raun alla samræðu því þær gefa engan grundvöll fyrir vitræn andsvör.
Löng hefð er fyrir því að harma menningarástand samtímans með afdráttarlausum en gjarnan órökstuddum fullyrðingum. Auðvitað er mikilvægt að horfa gagnrýnum augum á ástandið í kringum sig, en er raunveruleg gagnrýni í því fólgin að líta fram hjá því sem stenst ekki fyrirframgefnar forsendur okkar? Í nýrri bók, Íslenskri menningarpólitík, er því haldið fram að íslenskir menningarmiðlar séu „í skötulíki“ og að lítil hefð sé fyrir „ýtarlegri menningarumfjöllun í íslenskum fjölmiðlum“. Birtingarmynd menningar og lista í fjölmiðlalandslaginu sé „nánast engin“.[3] Ekki er tekin inn í myndina öll sú menningarumræða sem fram fer í tímaritum á borð við Ritið, Tímarit Máls og menningar og Skírni. Þó eru tímarit mun hentugri vettvangur fyrir ítarlega menningarumræðu en fréttamiðlar á borð við dagblöð og í raun eðlilegt að „lengri“ umfjöllun færist yfir í þann miðil. Ef leitað er á réttum stöðum má finna bitastæða menningarumfjöllun á Íslandi. Spurningin er ef til vill frekar hvort það er eftirspurn eftir henni. Hún virðist að minnsta kosti sífellt falla í skuggann af öfgafullum og órökstuddum alhæfingum. Páll Baldvin Baldvinsson segir til dæmis að ofangreint framlag Guðbergs Bergssonar „eitt og sér ætti að duga mönnum til kaupa á Stínu“ og standi „allt annað efni í heftinu í skugga af hans brýna framlagi.“[4] Þótt vel sé mögulegt að Páll Baldvin sé að vega að Stínu á kaldhæðinn hátt í anda íslenskrar dylgjuhefðar stendur eftir að alhæfingar Guðbergs eru einar gripnar á lofti og þeim hampað.
Hermann Stefánsson hefur verið duglegur við að benda á að íslensk bókmenntaumræða einkennist af hálfkveðnum vísum og dylgjum og Úlfhildur Dagsdóttir sagði í nýlegu viðtali að það teljist „jafnast á við árás að nefna einhvern á nafn“[5] þótt hér á landi verði bókmenntaumræða alltaf óhjákvæmilega að nánum samræðum innan afmarkaðs hóps. Dæmi um slíkt gætu verið „átök“ bókmenntaþáttanna Víðsjár og Kiljunnar í fyrra þar sem annar af ritdómurum Kiljunnar, Páll Baldvin Baldvinsson, svaraði beinskeyttri gagnrýni Hauks Ingvarssonar með því að skjóta því inn í gagnrýni um bók að hann vildi ráða því sjálfur hvaða orð hann notaði „þótt sumir aðrir þættir hér í húsinu séu eitthvað fúlir yfir því“.[6] Annað og nýlegra dæmi eru hálfkveðnar vísur þingmannsins Ásbjarnar Óttarssonar um að slæm rekstraraðstaða Landhelgisgæslunnar varpaði skugga á „menntaelítuna“ á sama tíma og verið væri að taka tónlistarhúsið Hörpu í notkun. Þar var fylgt óskrifuðu reglunni um að nefna andstæðinginn ekki á nafn. Ef því er sleppt virðist vera í lagi að segja hvað sem er – en skilaboðin fara líka oft fyrir ofan garð og neðan, því auðvitað kannast enginn við að vera í þessari menntaelítu.
Það er auðvelt að hreyta órökstuddum ónotum í óljósa átt. Þá liggur sökin alls staðar og hvergi. Sumir líta í eigin barm og spá í það hvort verið sé að sneiða að þeim en flestir ákveða líklega að verið sé að tala um „hina“. Enginn telur það því sitt hlutverk að svara eða krefjast rökstuðnings. Eftir stendur þögult samþykki: Já, þetta eru tóm fífl hérna.
Heimildir:
[1] Gyrðir Elíasson: „Infernó“, “, Milli trjánna, 2009, bls. 10.
[2] Guðbergur Bergsson, Stína, 5 (2), 2010, bls. 5.
[3] Bjarki Valtýsson, Íslensk menningarpólitík, Nýhil, 2011, bls. 139 og 202.
[4] Páll Baldvin Baldvinsson, „Stína, ó Stína“, Fréttatíminn, 7.-9. janúar 2010, bls. 38.
[5] Auður Aðalsteinsdóttir, „Karnival bókanna“, viðtal við Úlfhildi Dagsdóttur, Spássían, haust 2010, bls. 12.
[6] „Kiljan“, RÚV, 28. apríl 2010.
Hversdagsleikinn undirstrikaður
21. November, 2024Nýpússaður Spegill íslenskrar fyndni
18. November, 2024Kvikmyndagerð og Molotov-kokteilar: Ferilsaga Dunu
30. October, 2024Deila
Leave a Reply