Í dag eru 475 ár síðan Anna Boleyn, önnur eiginkona Hinriks VIII Englandskonungs, var tekin af lífi á Tower Green í London, eftir að hafa verið fundin sek um landráð: framhjáhald, sifjaspell og samsæri gegn eiginmanni sínum.
Anna Boleyn er án efa ein af þekktari persónum Tudor tímabilsins, ásamt Hinriki og Elísabetu I dóttur þeirra. Hinrik heillaðist af Önnu árið 1525, en átta ár liðu þar til hún giftist honum. Hinrik, langþreyttur á því að biðla til páfans að ógilda hjónaband hans og Katrínar af Aragon, sagði skilið við kaþólsku kirkjuna og stofnaði ensku biskupakirkjuna sem þýddi í raun að Hinrik gat ráðið málum sínum án afskipta páfans og fengið hinn langþráða skilnað. Allan þennan tíma neitaði Anna að sænga hjá Hinriki, enda vissi hún að þá yrði hún aðeins hjákona eins og systir hennar María hafði verið, og aldrei drottning.
Anna naut um tíma umtalsverðra valda vegna sambands síns við Hinrik. Sjálf studdi hún umbætur innan ensku kirkjunnar, og notaði áhrif sín til að fá þeim hrundið í framkvæmd. Þessa þætti eru fræðimenn almennt sammála um, en skiptar skoðanir eru um hvort Anna hafi í raun aðhyllst mótmælendatrú. Svo mikið er víst að þessi heillandi en umdeilda kona var lykilpersóna í þeirri atburðarás sem hrinti af stað siðskiptum í Englandi.
Eftir að Anna giftist Hinriki VIII fór fljótt að bera á brestum í hjónabandi þeirra. Anna var ákveðin og sagði skoðanir sínar umbúðalaust; hún þorði að mótmæla kónginum, við misjafnar undirtektir hans. Hún var líka hvatvís og skapstór, og átti það til að rífast heiftarlega við Hinrik, en slíkt var auðvitað ekki talin viðeigandi framkoma eiginkonu gagnvart manni sínum. Með slíkum uppákomum, ásamt tilraunum sínum til að hafa áhrif á stjórnmál og trúarumbætur í Englandi, vann Anna í raun gegn gildum feðraveldisins. Einn fremsti ævisagnaritari Önnu, Eric Ives, segir Önnu vera “táknmynd feminismans, konu sem fyrir einskæran viljastyrk og frumkvæði gat brotist í gegnum glerþakið í þjóðfélagi sem var fyrst og fremst stjórnað af körlum.”[1] Og í raun má segja að Anna sé konum innblástur enn þann dag í dag vegna þessa.
Framtíðarvelferð og öryggi Önnu á valdastól ultu á því einu að hún gæti alið Hinriki son og ríkisarfa. Eina barn þeirra var hinsvegar stúlka, síðar Elísabet fyrsta, einn farsælasti og vinsælasti þjóðhöfðingi í sögu Englands fyrr og síðar. Eftir að Anna missti svo karlkyns fóstur í janúar 1536 voru örlög hennar ráðin. Hinrik hafði kynnst nýrri konu, Jane Seymour, og vildi losna við Önnu, og óvinir hennar við hirðina biðu færis að koma á hana höggi. Í byrjun maí 1536 var hún handtekin og ásamt fimm nánum hirðmönnum konungs sökuð um landráð. Anna átti að hafa sængað hjá öllum fimm og einnig að hafa gerst sek um sifjaspell, en einn fimmmenninganna var bróðir Önnu, Georg Boleyn. Öll voru fundin sek þó að aðeins einn mannanna, Mark Smeaton, játaði sök. Voru mennirnir teknir af lífi þann 17. maí 1536 og Anna tveimur dögum síðar. Hinrik mildaði dóminn yfir Önnu og sendi hana á höggstokkinn í staðinn fyrir að láta brenna hana á báli. Til að sýna “miskunn” sína enn frekar og veita Önnu skjótan og sársaukalausan dauðdaga sendi konungurinn eftir sérstökum böðli alla leið til Frakklands, en sá notaði flugbeitt sverð við aftökuna. En reyndar þurfti Anna að þjást á annan máta; hún átti upphaflega að vera hálshöggvin að morgni 18. maí, en fékk einungis að vita eftir hádegi þann dag að aftökunni hefði verið frestað um einn dag.
Gegnum tíðina hefur Anna Boleyn verið umdeild persóna og ekki allir á eitt sáttir um sekt hennar eða sakleysi. Í dag eru þó flestir fræðimenn og ævisöguritarar Önnu sammála um að hún hafi verið borin röngum sökum til þess að ryðja henni úr vegi, og að valdamesti ráðgjafi Hinriks, Tómas Cromwell, hafi staðið á bak við stórfellt samsæri gegn Önnu, falsað sönnunargögn og þvingað fram játningu Smeaton með pyntingum og hótunum. Önnu og Cromwell hafði sinnast fyrr um vorið og því notfærði Cromwell sér nú aðstæður til að losna við hættulegan andstæðing um leið og hann fann lausn á vanda Hinriks, sem vildi ólmur finna leið til að geta gifst Jane Seymour. [2]
Í aldaraðir hefur Anna Boleyn vakið áhuga og forvitni fólks, ekki síst vegna hörmulegra örlaga sinna. Að auki er ævi hennar hulin leyndardómum, en skortur er á skjölum og persónulegum bréfum sem varpað gætu frekara ljósi á sögu Önnu. Einnig er erfitt að draga hlutlausar ályktanir af frásögnum sem skrifaðar voru af samtímamönnum Önnu, einfaldlega vegna þess að þær eru oftar en ekki einhliða í annað hvort fordæmingu eða lofi sínu á Önnu. Af þessu leiðir að fræðimenn jafnt sem leikmenn eru enn í dag að leita svara við grundvallarspurningum um Önnu Boleyn og samband hennar við Hinrik VIII, áhrif hennar á ensk stjórnmál og trúmál, og atburðarásina sem leiddi til dauða hennar. Sem dæmi um hversu mikil áhrif Anna hefur enn í dag má nefna ýmsar vefsíður og Facebook-hópa, en á bak við slíkar síður eru oft einstaklingar sem hafa helgað sig leitinni að sannleikanum um Önnu Boleyn. [3] Má í raun segja að umfjöllun um Önnu Boleyn á vettvangi internetsins fari út í nokkra öfga og jaðri stundum við persónudýrkun.
Mikilvægi Önnu í sögunni endurspeglast líka í meðferð persónu hennar og sögu í listum, bókmenntum, fjölmiðlum og dægurmenningu. Til að mynda samdi Gaetano Donizetti óperuna Anna Bolena árið 1830 og 1835 málaði Edouard Cibot mynd af henni þar sem hún beið örlaga sinna í Tower of London. Fjöldamargar ævisögur og sögulegar skáldsögur hafa verið skrifaðar um hana; úttekt Miriam Elizabeth Burstein á skáldsögum um Önnu Boleyn tekur til dæmis til hvorki meira né minna en 45 skáldsagna og smásagna, en listi Burstein er þó langt því frá tæmandi. [4] Nýlegt dæmi um skáldsögu sem beindi sviðsljósinu enn á ný að Önnu er umdeild metsölubók Philippu Gregory, The Other Boleyn Girl (2001), en hér dregur Gregory upp neikvæða en áhugaverða mynd af Önnu gegnum sjónarhorn systur hennar, Maríu. Einnig hafa verið gerðar margar kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir um Önnu og Hinrik áttunda. Í Óskarsverðlaunamyndinni Anne of the Thousand Days (1969) er framan af einblínt á rómantíkina í sambandi Önnu og Hinriks, og endalok Önnu svo eingöngu rakin til harðstjóratakta Hinriks og kröfu hans um að hún ali honum son. Nýlegir sjónvarpsþættir, The Tudors, þar sem Natalie Dormer lék hlutverk hinnar oft á tíðum fáklæddu og kynþokkafullu Önnu, undirstrika þá þætti við Tudor hirðina sem eru hvað mest aðlaðandi fyrir nútíma áhorfendur: kynlíf, pólitísk átök og pólitískir öfgar, ofbeldi, trúarátök, samsæri og dramatískir atburðir almennt.
475 árum eftir dauða sinn er Anna Boleyn enn meðal okkar á einn eða annan hátt. Hún hefur enn áhrif á fjölda fólks og veitir því innblástur, hvort sem það er sem feminísk táknmynd eða sem nokkurskonar píslarvottur sem sýndi óbilandi kjark þegar hún mætti ótímabærum dauða sínum. Í dag, 19. maí, minnumst við konu sem hafði svo sannarlega áhrif.
Ingibjörg Ágústsdóttir,
lektor í 19. og 20. aldar breskum bókmenntum
HEIMILDIR
Anne of the Thousand Days. Leikstj. Charles Jarrott. Leikarar Richard Burton, Geneviève Bujold og Irene Papas. Universal Studios, 1969.
Bernard, G. W. Anne Boleyn: Fatal Attractions. New Haven og London: Yale University Press, 2010.
Burstein, Miriam Elizabeth. “The Fictional Afterlife of Anne Boleyn: How to Do Things with the Queen, 1901-2006.” Clio, 37, bls. 1-27.
Denny, Joanna. Anne Boleyn: A New Life of England’s Tragic Queen (fyrsta útg. 2004). London, Piatkus Books, 2005.
Gregory, Philippa. The Other Boleyn Girl (fyrsta útg. 2001). London: HarperCollins, 2002.
Ives, Eric. The Life and Death of Anne Boleyn: ‘The Most Happy’. Oxford: Blackwell Publishing, 2004.
On the Tudor Trail: Retracing the Steps of Anne Boleyn – an immortal Queen. Vefsíða. 17. maí 2011.
The Anne Boleyn Files: The REAL TRUTH about Anne Boleyn “The Most Happy”. Vefsíða. 17. maí 2011.
The Tudors: The Complete First Season. Handrit Michael Hirst. Leikstj. Charles McDougall, Steve Shill, Brian Kirk, Alison MacLean og Ciarán Donnelly. Showtime, 2007. DVD.
The Tudors: The Complete Second Season. Handrit Michael Hirst. Leikstj. Jeremy Podeswa, Colm McCarthy, Ciarán Donnelly, Dearbhla Walsh og Jon Amiel. Showtime, 2008. DVD.
Weir, Alison. The Lady in the Tower: The Fall of Anne Boleyn. London: Jonathan Cape, 2009.
[1] Eric Ives, formáli að The Life and Death of Anne Boleyn, bls. xv. Þýðing höfundar.
[2] Sjá til dæmis Eric Ives, The Life and Death of Anne Boleyn; Alison Weir, The Lady in the Tower: The Fall of Anne Boleyn; Joanna Denny, Anne Boleyn: A New Life of England’s Tragic Queen. Í nýlegri bók sinni, Anne Boleyn: Fatal Attractions (2010), heldur G. W. Bernard því þó fram að það hljóti að hafa verið einhver sannleikur í ásökunum á hendur Önnu.
[3] Sjá til dæmis: The Anne Boleyn Files; On the Tudor Trail.
[4] Miriam Elizabeth Burstein, “The Fictional Afterlife of Anne Boleyn: How to Do Things with the Queen, 1901-2006.” Clio, 37, bls. 1-27.
Leave a Reply