Lundabyggð á Laugavegi

Lundabyggð í Basecamp Reykjavík

Um höfundinn
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Gunnþórunn Guðmundsdóttir er prófessor í almennri bókmenntafræði. Rannsóknasvið hennar eru sjálfsævisögur á síðari hluta 20. aldar og 21. öld, minnis- og trámafræði í bókmenntum, ljósmyndir í skáldskap og æviskrifum, samtímabókmenntir, spænskar og franskar bókmenntir. Sjá nánar

Það liggja drög að vori í loftinu, lóur sjást í Fossvogi og hnappur ferðamannanna sem munda myndavélar að Hallgrímskirkju fer ört vaxandi. Undirbúningur undir ferðamannatímabilið er farinn af stað og nýlegar breytingar í Bankastræti taka af allan vafa; á einni af fáum aðalgötum miðbæjarins litla fæst nú bara útvistarfatnaður. Þar fór síðasta vígið, Bankastræti orðið Fleece Street, miðbærinn er orðinn sambland af túristasjoppu og basecamp fjallafólksins. Þar mátti til skamms tíma kaupa rándýr jakkaföt og glæsta kjóla, eins og vera ber í vestrænni höfuðborg, en nú klífa túristarnir brekkuna í massívu gönguskónum sínum og geta fengið fjallgöngufatnað í hverri búð; sem er væntanlega álíka ómissandi í gullhringsferðirnar og gönguskórnir eru í Bankastræti.

Lundabindi
,,Uppeftir endilöngum Skólavörðustígnum gefur að líta þéttustu lundabyggðina í Reykjavík, þar má finna lundagöngustafi, lundasegla, lundapenna, lundahúfur, lundalyklakippur svo fátt eitt sé nefnt”.

Túristamenningin sést líka víðar. Ég held það sé óhætt að fullyrða að það hafa aldrei verið fleiri lundar í Reykjavík. Stuttu eftir hrun tæmdist hver búðin á fætur annarri í miðbænum og sumt af auða verslunarhúsnæðinu fylltist af sjálfsprottnum mörkuðum og sýningarsölum. Þegar tók að vora eftir þann harða vetur fylltust búðirnar af lundum, og þar virðist ekkert lát á. Uppeftir endilöngum Skólavörðustígnum gefur að líta þéttustu lundabyggðina í Reykjavík, þar má finna lundagöngustafi, lundasegla, lundapenna, lundahúfur, lundalyklakippur svo fátt eitt sé nefnt.

Innfæddir eru ekki mjög áfjáðir í að búa í miðbænum, þeir búa í uppsveitum borgarinnar, þar sem er ‘útsýni’, því það mikilvægasta við að búa í borg er að sjá út úr henni. Við höfum því eftirlátið túristum í gönguskóm með lundagöngustaf miðbæ Reykjavíkur nema á tyllidögum. En börnin sem þó alast upp í miðbænum halda að ljótir lundar sé normal gjafavara og eðlilegur klæðnaður borgarbúans sé fjallgöngubúnaður. Velkomin til Basecamp Reykjavík.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *