Í Icesave-atkvæðagreiðslunni er spurt: „Eiga lög nr. 13/2011 að halda gildi sínu?“ Möguleg svör eru tvö: „Já, þau eiga að halda gildi“; og „Nei, þau eiga að falla úr gildi“. Í fljótu bragði gæti virst sem þessir möguleikar væru jafnvægir og framsetning spurningarinnar hlutlaus. En það er ekki víst að svo sé. Það má færa rök að því að þessi framsetning hygli málstað andstæðinga laganna. Höfum í huga að þeir sem segja nei leggja áherslu á að þeir séu að hafna hinu og öðru – hafna löglausum kröfum Breta og Hollendinga, hafna því að greiða erlendar skuldir óreiðumanna, hafna því að selja börnin sín í þrældóm, hafna því að láta kúga sig til hlýðni … Höfnun jafngildir neitun og því er augljóst að þeir sem eru uppteknir af þessu hugarfari eiga auðvelt með að setja krossinn við nei. Það er hins vegar ekki eins augljóst að þeir sem segja já séu að fagna einhverju eða taka því opnum örmum.
En snúum nú dæminu við og hugsum okkur að spurningin hefði verið „Eiga lög nr. 13/2011 að falla úr gildi?“ Þá væru svarmöguleikarnir: „Já, þau eiga að falla úr gildi“; og „Nei, þau eiga að halda gildi“. Þá væri uppi allt önnur staða. Þá væru stuðningsmenn laganna í þeirri stöðu að hafna því að svíkja gerða samninga; hafna stöðvun erlendra lána og fjárfestinga; hafna áframhaldandi kyrrstöðu; hafna auknu atvinnuleysi; hafna því að hafa málið óleyst um ófyrirsjáanlega framtíð; o.s.frv. Andstæðingar laganna væru hins vegar komnir í þá stöðu að að krossa við já og finna jákvæðar röksemdir fyrir málstað sínum.
Ég held að það yrði þeim þungbært. Ég er nefnilega á því að andstaðan við Icesave-samninginn sé að hluta til birtingarmynd þeirrar neikvæðni sem er svo ríkjandi í samfélaginu og sést vel í umræðu á bloggsíðum og fésbók. Margir eru búnir að æsa sig upp í að vera á móti, vera neikvæðir, finna öllu allt til foráttu. Og sá sem er uppfullur af slíku hugarfari á erfitt með að segja já. Ég get auðvitað ekki sannað það, en ég er handviss um að stuðningur við lögin væri talsvert meiri og andstaða að sama skapi minni ef orðalag spurningarinnar hefði verið annað.
Eftirminnileg persóna úr áramótaskaupi Flosa Ólafssonar kringum 1970 er hreintungusinninn sem vildi útrýma „orðskrípunum já og nei“ úr íslensku. Í stað já átti að koma „það var og“ en í stað nei „eigi veit ég það svo gjörla en hitt veit ég að af er hagfóturinn“. Kannski var Flosi sannspár.
Leave a Reply