Kunnur maður í íslenskum þekkingariðnaði er vanur að komast svo að orði að hlutverk hans sé að „sækja þekkingu“. Orðalagið vekur spurningar um hvað þekking sé og hvert hún sé sótt.
Er þekking meira eða minna algildur veruleiki utan okkar sjálfra og teygjum við okkur eftir henni inn í framtíðina? Eða verður hún fyrst og fremst til innra með okkur þegar við fléttum saman staðreyndir, upplýsingar, hugmyndir, hugboð og tilfinningar? Er þekking innsýn í ytri, hlutlæg lögmál og staðreyndir eða er hún hluti af innra lífi einstaklinga og samfélaga? Fer það að einhverju leyti eftir fræðigreinum? Er þekkingarhugtak raunvísinda annað en þekkingarskilningur hugvísinda til dæmis guðfræðinnar? Verða háskólar ekki að hafna slíkri tvíhyggju og ganga út frá óklofnu þekkingarhugtaki?
Háskólar eru grundvallarstofnanir í þekkingarleit hvers samfélags. Hlutverk þeirra er jafnan talið vera að skapa þekkingu og miðla henni í rannsóknum og kennslu. Á síðari tímum höfum við einkum starfað í anda sóknarhugmyndarinnar. Aðaláherslan hefur legið á að skapa nýja þekkingu í samkeppni við fremstu háskóla heims og að miðla nýjustu þekkingu sem völ er á til stúdenta. Auðvitað skal ekki gert lítið úr þessum metnaði. Hitt tel ég þó að sé hollt að minnast að háskólum ber líka að varðveita þekkingu. Í þessu felst að raunveruleg þekking úreldist ekki með sama hraða og ný bætist við. Við þekkingarsköpun og þekkingarmiðlun er nauðsynlegt að hafa langtímasjónarmið í huga. Okkur ber að gagnrýna viðtekna þekkingu í ljósi nýjunganna og reyna nýsköpunina á grundvelli eldri þekkingar. Háskólar eru öðrum þræði hluti af langtímaminni hvers samfélags. Menningin felst að hluta til í samhengi, hefðum og venjum sem líka ná til vísinda og þekkingar.
Háskólar og starfsmenn þeirra eiga þó fyrst og fremst að vera í fararbroddi við að skapa þekkingu og miðla henni til stúdenta og samfélagsins í heild. Þetta getur verið hættuleg iðja þar sem þekking er öðrum þræði valdatæki. Nýjungar geta því ógnað stofnunum, embættismönnum, fyrirtækjum, hagsmunahópum og valdamiklum einstaklingum utan háskólanna. Þess vegna er akademískt frelsi mikilvægt. Háskólastarf á að vera ósnertanlegt, óháð og lúta fyrst og fremst eigin reglum þar á meðal siðareglum.
Frelsið leggur háskólafólki þó ríkar skyldur á herðar. Við berum skyldur við samfélagið sem skapar okkur svigrúm til að vinna að því mikilvæga hlutverki sem í því felst að leita nýrrar þekkingar. Við berum skyldur við Háskólann sem hýsir okkur innan vébanda sinna og verndar frelsi okkar. Við berum skyldur við okkur sjálf og akademískan heiður okkar og við erum skuldbundin hugsjón þekkingarleitarinnar. Svo mætti lengi telja.
Staða okkar krefur okkur um að gæta stöðugrar gagnrýni sem þarf að beinast bæði að því sem viðtekið er í þekkingarsamfélaginu og því sem nýtt er hvort sem um er að ræða byltingarkenndar nýjungar í fræðunum, hefðbundin „sannindi“ eða rétta og létta háskólapólitík. Einkum og sér í lagi ber okkur þó að ástunda sjálfsgagnrýni. Okkur ber til dæmis að spyrja hvort verið geti að við séum slegin þekkingarblindu eða hvort með okkur bærist eitthvað það sem flokkast getur undir þekkingarmótstöðu.
Það kann að vera að aðferðir fræðigreina okkar, túlkunarlíkön, mat, viðhorf eða heimsmynd sé með þeim hætti að með okkur leynist blindir blettir sem valda því að okkur yfirsést. Ýmis fyrirbæri kunna líka að ógna okkur í þeim mæli að við meira eða minna ómeðvitað beitum ritskoðun og þöggun jafnvel á vettvangi þekkingaröflunarinnar. Þar liggur einhver alvarlegasta hættan sem sérhver fræðimaður hlýtur að takast á við í eigin starfi. — Ert þú tilbúin/n til að leita að blindu blettunum, sjálfsritskoðuninni, þögguninni í þínu eigin fræðastarfi? Við ættum að vera skyld til að meta okkur sjálf í þessu efni með jöfnu millibili og fá jafnvel fyrir það punkta!
Leave a Reply