Víti nútímans

Smásagan „Infernó“ eftir Gyrði Elíasson fjallar um helvíti á jörð: neyslusamfélag nútímans og magnleysi okkar gagnvart ægivaldi þess; vonleysið sem fylgir sannfæringunni um að það sé engin leið út. Sagan birtist í bókinni Milli trjánna árið 2009 en lýsir óhugnanlega vel því andrúmslofti sem ríkir á Íslandi á fyrstu mánuðum ársins 2011.

Sögumaðurinn í „Infernó“ lýsir því hvernig hann er dreginn af konunni sinni í Ikea til að kaupa nýjan hægindastól. Þrátt fyrir að manninum finnist „nákvæmlega ekkert að stólnum“ sem þau eiga fyrir andmælir hann ekki konu sinni, enda er þessi Ikeaferð aðeins ein af fjölmörgum athöfnum sem hann framkvæmir þvert gegn vilja sínum og einungis vegna þess að það telst „nauðsynlegt á mælikvarða samfélagsins“. Í Ikea gera þau eins og allir aðrir, láta rúllustigann bera sig upp og horfa út í loftið: „Það var ekki gott að segja hvort í augnaráðinu var von um bjarta framtíð með hjálp sænskrar hönnunar, eða bara tómlæti, án vonar“. Þrátt fyrir vélræna framrás fjöldans er engin sameiginleg sýn sem dregur hann áfram og hjónin standa „hvort í sínu þrepi rúllustigans“ og horfa „í ólíkar áttir“. Þau reika um en finna ekki það sem þau leita að; hann man reyndar ekki lengur hverju hann á að vera að leita að. Að lokum gefast þau upp á að bíða eftir aðstoð og ganga „eftir merktum stígnum áfram gegnum búðina“ og láta „örvarnar hugsa“ fyrir sig án þess að skoða nokkuð annað á leiðinni. (1)

Fólkið í „Infernó“ er fullt af sama pirringi, vonleysi og viljaleysi og einkennt hafa viðbrögð við fyrirhuguðu stjórnlagaþingi. Við örkuðum einbeitt eða vorum dregin af stað í kosningaferlið, þetta lýðræðistæki sem rúllaði af stað með okkur á sjálfstýringu og átti að bera okkur á nýjan stað. Við horfðum í mismunandi áttir, ýmist vongóð eða vonlaus, reið eða hlutlaus, en tækið skilaði okkur öllum aftur inn í sömu, gömlu martröðina. Það gerðu líka nýjar samningaviðræður um Icesave. Það virðist engin leið út úr okkar áskapaða helvíti.

Undanfarið hafa verið upp háværar kröfur um róttækar breytingar, á því hvernig við hugsum og lifum, á skipulagi samfélagsins. En í hvert sinn sem menn hefjast handa virðist verkið óyfirstíganlegt og við tekur vanmáttartilfinning og ógeð.

Við stöndum frammi fyrir því að skelfilegt er að upplifa hugmyndafræðilega kreppu. Við kunnum ekki að hugsa öðruvísi og við erum hrædd við stjórnleysið sem gæti fylgt því að reyna það. Allt situr fast í kerfinu. Við erum orðin tæki okkar eigin tækja, eins og Henry David Thoreau segir í Walden, rúmlega 150 ára gömlu riti um sjálfbæra lífshætti og einveru í náttúrunni sem Gyrðir Elíasson þreytist ekki á að beina athygli okkar að. (2) Í Walden segir Thoreau frá því þegar hann ákvað að búa úti í skógi í tvö ár en hann taldi mannlegt samfélag komið langt frá því sem manninum væri náttúrulegt. Hugmyndin sem hann lýsir í byrjun er sú að við höfum í raun byggt okkur okkar eigið helvíti með allri siðmenningunni okkar; við erum fangar eigna okkar, ófrjáls vinnudýr. Eina mögulega uppreisnin virðist vera að hætta að taka þátt.

„Það er ekki til sterkari eða beinskeyttari yfirlýsing um samtímann en að snúa við honum baki“, segir Hermann Stefánsson í ritinu Okkurgulur sandur, nýju greinasafni um verk Gyrðis. (3) Ef við gerum því skóna að stundum sé mesta uppreisnin fólgin í því að neita að taka þátt verða þunglyndu karlarnir, sem koma fyrir í hverri sögunni á fætur annarri í Milli trjánna, skyndilega að skæruliðum aðgerðarleysis. En aðgerðaleysi er tvíbent sverð. Döpru uppreisnarseggirnir í sögum Gyrðis Elíassonar eru ekki bara fámálir og aka þrjóskulega hægt innan um hraðskreiða jeppa samborgaranna. Sumir draga sig bókstaflega út úr þátttöku í samfélaginu; loka sig af í húsum sínum eða flýja á vit náttúrunnar. Um leið eiga þeir á hættu að grafa sig lifandi – en það er efni í annan pistil. [line][1] Gyrðir Elíasson: „Infernó“, “, Milli trjánna, Uppheimar, 2009, bls., 7-11.
[2] Dæmi um það er ljóðið „Walden í nóvember 2005“ í Nokkur almenn orð um kulnun sólar, Uppheimar, 2009, bls. 15.
[3] Hermann Stefánsson, „Myndkveikjur um Sandárbókina“, Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar, ritstj. Magnús Sigurðsson, Uppheimar, 2010, bls. 78.

Um höfundinn
Auður Aðalsteinsdóttir

Auður Aðalsteinsdóttir

Auður Aðalsteinsdóttir, ritstjóri Hugrásar, er doktor í bókmenntafræði við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands og hefur jafnframt víðtæka reynslu af menningarblaðamennsku.

[fblike]

Deila