Fátækt fólk

Raun(a)saga fátæks fólks?

Fátækt fólk, æviminningar Tryggva Emilssonar kom út árið 1976 og vakti gríðarleg viðbrögð. Bókin var metsölubók og svo að segja á hvers manns vörum. Miklar ritdeilur urðu um efni hennar, ekki síst lýsingar Tryggva á illri meðferð sem hann varð fyrir í vist í eyfirskri sveit í byrjun síðustu aldar. Ritdómarar hlóðu bókina hins vegar lofi og þótti mikið um að maður sem hefði varla hlotið nokkra formlega menntun skyldi hálfáttræður gefa út annað eins bókmenntaverk. Bókin var lögð fram til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs af Íslands hálfu árið 1977 ásamt Mánasigð eftir Thor Vilhjálmsson. Annað bindi æviminninga Tryggva, Baráttan um brauðið, var einnig lagt fram en það kom út árið 1977 og segir frá vinnumennsku Tryggva, búhokri, verkamannavinnu og frá verkalýðsbaráttu, kaupgjaldi og atvinnuleysi á krepputímum. Nýlega hefur Fátækt fólk verið endurútgefið og er ástæða til þess að rifja upp viðbrögð og deilur sem bókin vakti á sínum tíma.

Ekki skrifa fleiri bækur af þessu tagi

Fátækt fólk segir frá uppvaxtarárum Tryggva á Akureyri og í sveitum Eyjafjarðar í byrjun tuttugustu aldar. Tryggvi missir móður sína ungur og hrekst sakir fátæktar milli fólks sem reynist honum misvel. Bókin lýsir þannig mikilli raunasögu en hún er einnig saga um ungan mann sem uppgötvar fegurðina í mannlífinu og náttúrunni þrátt fyrir erfið kjör. „Sjálfur var ég altekinn af ljúfum draumum,“ segir Tryggvi í sögunni.

Sama ár og bók Tryggva kom út sendi Halldór Laxness frá sér annað bindið af fjórum endurminningabókum sínum, Úngur eg var. Þessar bækur sínar kallaði Halldór „essay roman“, eða ritgerðaskáldsögu. Með því orði vildi Halldór leggja áherslu á að minnið væri skapandi og því hlytu endurminningar ætíð að vera skáldskapur öðrum þræði.

Tryggvi setti engan slíkan fyrirvara við sínar bækur. Ritdeilurnar sem spruttu um skrif hans snerust hins vegar meira og minna um þessa skörun raunveruleika minninganna og skáldskaparins. Afkomendur ábúenda á bæjum þar sem Tryggvi segist hafa hlotið illa meðferð skrifuðu fjölda blaðagreina þess efnis að Tryggvi færi með rangt mál og ósannindi, minni hans væri brigðult. Færðu þeir meðal annars rök fyrir máli sínu með því að vísa til þess að Tryggvi færi ekki alltaf rétt með staðreyndir, svo sem um aldur og útlit viðkomandi, og kölluðu bókina skáldsögu í skammartón. Ráðlögðu þessir gagnrýnendur Tryggva að skrifa ekki fleiri bækur af þessu tagi.

Furðusögur og hillingar

Tryggvi Emilsson
Tryggvi Emilsson

Fjölmargar greinar voru skrifaðar til að rétta hlut Tryggva. Bent var á að minnið væri ætíð litað ímyndunaraflinu en það þýddi ekki endilega að minningar væru ósannar eða ekki réttar. Margir stigu líka fram og lýstu eigin reynslu af hörku, sulti og refsingum eins og þeim sem Tryggvi lýsir.

Jón úr Vör, skáld, skrifaði eilítið sérkennilega grein í Dagblaðið þar sem hann sagði að bók Tryggva „hefði ekki verið hægt að skrifa án djúprar innlifunar í verk tveggja nútímahöfunda okkar, einmitt þeirra, sem verið hafa fyrirferðarmestir og áhrifaríkastir til mótunar alls hugsanalífs vinstri sinnaðra manna á Íslandi nútímans, skapendur okkar umfram aðra menn“. Þar sagðist Jón úr Vör eiga við Halldór Laxness og Þórberg Þórðarson. Áhrif Halldórs á Tryggva segist skáldið geta greint á því að ef Fátækt fólk hefði verið Halldóri tiltæk þegar hann skrifaði kaflana í Heimsljósi sem gerast á Fæti undir Fótarfæti hefði verið sagt að hann hefði gengið í smiðju Tryggva. Áhrifin frá Þórbergi segir Jón hins vegar endurspeglast í furðusögunum og hillingunum sem honum þykir fullmikið af í bók Tryggva. Telur Jón að snilldarbrögð Þórbergs í þessum efnum og sannfæringarkraftur hafi jafnvel verið farinn að valda því að fólk sæi hluti sem alls ekki væru til í raun og veru.

Sorgarfegurð og stílsnilld

Ritdómar um bókina voru flestir ákaflega jákvæðir og hörðustu gagnrýnina fékk hún sennilega í grein Jóns úr Vör sem segir hana „ótrúlega vel skrifaða“ en Tryggvi sé jafnframt „byrjandi sem raunverulegur bókagerðarmaður“. Hann segir of margar endurtekningar í bókinni, hún sé allt of löng og hún hefði orðið betri „ef meginhluta draugasagnanna hefði verið sleppt“.

Í öðrum blöðum var meðal annars talað um sérstaka og frábæra menningarsögu, sorgarfegurð, stílsnilld og að verkalýðurinn hefði eignast höfund.

Hvað mesta athygli vakti þó sennilega ritdómur Guðmundar G. Hagalín í Morgunblaðinu 8. janúar 1977 en að sögn afkomenda Tryggva tók bókin mikinn sölukipp í kjölfar birtingar hans, þó að komið væri fram yfir jól. Fyrirsögn ritdómsins er „Lærður í ströngum skóla mannlífs og íslenzkrar náttúru“ en Guðmundi þykir meira koma til furðusagnanna í bókinni en Jóni úr Vör. Í niðurlagi dómsins segir hann: „En ógleymanlegastar verða lýsingar hans á þeim sælustundum, þegar hann lifði sig svo inn í náttúru hins harðbýla dals, sem nú er að miklu eyddur að mannfólki, að jafnvel fjöllin og steinarnir gæddust lífi í andblæ þess, „sem sólina skóp“. Mætti margt sagnaskáldið líta upp til hins aldna erfiðismanns sakir jákvæðra viðhorfa hans og þeirrar snilli, sem mótar mál hans og stíl, þar sem honum tekst bezt upp.“

Þröstur Helgason,
doktorsnemi í almennri bókmenntafræði

(Pistillinn birtist í Lesbók Morgunblaðsins 19. október 2002.)


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *